Kísilverksmiðjan í Helguvík og landið sem hún stendur á, sem verið hafa í eigu dótturfélags Arion banka, hafa verið færð til Landeyjar, fasteignaþróunarfélags í eigu bankans. Þetta var gert eftir að Arion banki komst að þeirri niðurstöðu seint á síðasta ári að allt útlit væri fyrir að verksmiðjan yrði ekki gagnsett að nýju. Það gerðist eftir að bankinn og PCC, sem rekur kísilver á Bakka, slitu viðræðum um möguleg kaup.
Í nýbirtum ársreikningi Arion banka segir að bankinn muni nú kanna það að selja innviði sem eru til staðar í Helguvík, annað hvort til flutnings eða með það markmið að koma upp annarskonar starfsemi en kísilframleiðslu á staðnum.
Við flutning á eignunum frá dótturfélaginu, sem heitir Stakksberg, til Landeyjar voru eignirnar sem færðar voru yfir metnar á 1.230 milljónir króna. Það 318 milljónum krónum lægra virði en verksmiðjan var bókfærð á í lok árs 2021. Eftirstandandi eignir inni í Stakksbergi, sem eru aðallega hrávörur, eru metnar á núll krónur.
Löng áfallasaga
Kísilverið á langa áfallasögu að baki. Kostnaðurinn við byggingu þess var, samkvæmt Stakksbergi, um 22 milljarðar króna.
Það var gangsett 11. nóvember 2016 en fljótlega fóru íbúar í nágrenninu að finna óþef. Í byrjun desember sama ár lét Umhverfisstofnun slökkva á eina gangsetta ljósbogaofni versins. Það opnaði aldrei aftur og mikil andstaða skapaðist við reksturinn hjá íbúum í Reykjanesbæ vegna þeirrar mengunar sem lagði frá verksmiðjunni þann stutta tíma sem hún starfaði.
Félagið sem stofnað var í kringum reksturinn, Sameinað Sílíkon, varð í kjölfarið gjaldþrota og helsti lánardrottinn þess, Arion banki, sat eftir með það í fanginu. Nokkrir lífeyrissjóðir töpuðu yfir milljarði króna á fjárfestingu í félaginu.
Tap Arion banka á aðkomu sinni að verkefninu hleypur á milljörðum króna. Hann afskrifaði 4,8 milljarða króna þegar bankinn tók yfir Sameinað Silíkon og færði niður virði eftirstandandi eigna um 3,8 milljarða króna á árinu 2019. Eftir það var bókfært virði verksmiðjunnar og landsins sem hún stendur á 2,7 milljarðar króna en það er nú, líkt og áður sagði, rúmlega 1,2 milljarðar króna.
Litu á það sem skyldu að reyna til þrautar
Í tilkynningu sem Arion banki sendi frá sér eftir að upp úr viðræðum við PCC slitnaði í desember í fyrra var haft eftir Benedikt Gíslasyni, bankastjóra Arion banka, að bankinn hafi litið á það sem skyldu sína að reyna til þrautar að nýta þá innviði sem hann sat uppi með. „Þar höfum við horft til allra hagaðila, ekki síst íbúa Reykjanesbæjar sem urðu fyrir óþægindum á þeim stutta tíma sem verksmiðjan var starfrækt. Við unnum metnaðarfulla endurbótaáætlun á verksmiðjunni sem fór í gegnum umhverfismat og leituðum að rekstraraðila með nauðsynlega þekkingu og getu til að starfrækja verksmiðjuna á umhverfisvænan máta, í sátt við samfélagið. Bankinn telur fullreynt að þarna verði rekin kísilverksmiðja og því tekur við nýr kafli sem miðar að því að flytja verksmiðjuna eða færa henni nýtt hlutverk.“
Í nýjasta ársreikningi Arion banka segir að viðræður standi yfir um sölu á þeim innviðum sem séu til staðar í Helguvík við nokkra aðila, bæði innlenda og erlenda.
Athugasemdir (2)