Ég fór á snyrtistofu í síðustu viku og lét steypa á mig gervineglur. Nú er ég með eldrauðar og beittar klær sem ná um það bil tvo sentímetra upp fyrir fingurgóma. Þær virka ekkert svo langar en eru samt nógu langar til að koma í veg fyrir að ég geti ritað á lyklaborð með góðu móti. Fingurgómarnir eru óstarfhæfir, klærnar eru fyrir og þessi pistill er því skrifaður með fjærkjúkum fingra minna. Ég vissi ekki hvað þessi partur fingranna hét fyrr en ég sló það inn í leitarvél sem vísaði mér á grein um anatómíu mannshandarinnar. Fingur eru í stuttu máli kjúkur (bein) og sinar sem eru umluktar húð. Þumalfingurnir eru með tvær kjúkur hvor, nærkjúku og fjærkjúku og hinir átta fingurnir eru með þrjár kjúkur, nær-, mið og fjærkjúkur.
Það eru engir vöðvar í fingrunum en samt geta þeir framkvæmt magnaða hluti, eins og til dæmis að taka upp klink af gangstétt og skrifa á lyklaborð. Ef þú ert með starfandi fingur þá skora ég á þig, kæri lesandi, að prófa að gera þessa hluti með fjærkjúkunum í stað fingurgómanna og upplifa á eigin skinni hvað þetta er ógeðsega pirrandi og óskilvirk leið til þess að lifa lífinu.
Þú getur kannski ímyndað þér hvað ég hef þurft að leiðrétta margar innsláttarvillur jafnóðum á meðan ég skrifa þennan pistil, sem átti auðvitað að fjalla um eitthvað allt annað en þetta. Mér er spurn, hvað ætli það séu margar konur í heiminum í dag sem eru að sóa tíma sínum og andlegu þreki í að rita á lyklaborð með þessum hætti? Hundruð? Þúsundir? Milljónir? Ég gæti fræðilega séð sleppt þessu en ég er áhrifagjörn. Ég hef tapað þessari baráttu. Ég vil vera skvísa. Ég vil ekki vera minni kona en þær sem ég fylgi á Instagram. Læsið mig inni, sviptið mig háskólagráðunum, klæðið mig í korselet og þrengið að þangað til ég kafna.
Athugasemdir