Þóra Arnórsdóttir fyrrverandi ritstjóri Kveiks segir að lögreglurannsókn á hendur henni vegna umfjöllunar um samskipti svokallaðrar „skæruliðadeildar Samherja“ hafi ekki haft áhrif á ákvörðun hennar um að láta af starfi ritstjóra. Hún sé einfaldlega að söðla um og skipta um starfsvettvang eftir aldarfjórðung í fjölmiðlum. „Ég hef aldrei misst svefn yfir neinu sem tengist Samherja og ætla ekki að fara að gera núna.“
Heimildin greindi frá því í dag að Þóra hefði látið af störfum sem ritstjóri Kveiks til að hverfa til annarra starfa utan Ríkisútvarpsins. Spurð til hvaða starfa hún sé að hverfa svarar Þóra því til að það verði tilkynnt seinna í þessari viku. Aðdragandinn að vistaskiptunum hafi verið frekar stuttur en um er að ræða starf utan fjölmiðlageirans.
Rétti tímapunkturinn er núna
Spurð hvernig tilfinningin sé, að hætta nú störfum í fjölmiðlum eftir 25 ára feril svarar Þóra: „Það er svolítið sérstakt en ég er er samt full tilhlökkunar. Ég er búin að vinna í útvarpi og sjónvarpi, heimildamyndum, kosningasjónvarpi og skemmtiþáttum. Eiginlega bara öllu sem maður getur ímyndað sér. Ég er búin að taka á móti ofboðslega mörgum Eddum og held að ég geti alveg skilið sátt við RÚV, sem er frábær vinnustaður. Ég hugsaði með mér að ég ætti kannski tuttugu ár eftir á vinnumarkaði og ef ég ætlaði einhvern tímann að skipta um starfsvettvang þá væri þetta kannski bara rétta tækifærið, rétti tímapunkturinn.“
„Í sjálfu sér er fyrst og fremst einkennilegt að ekki sé búið að fella þetta mál niður nú þegar“
Spurð hvort rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra á hendur Þóru, ásamt þremur blaðamönnum Heimildarinnar, í tengslum við birtingu frétta um svokallaða skæruliðadeild Samherja, hafi haft einhver áhrif á að hún ákvað að söðla um neitar hún því.
„Nei, ekki þannig. Ég hef aldrei misst svefn yfir neinu sem tengist Samherja og ætla ekki að fara að gera núna. Enda engin ástæða til þess. Þessi rannsókn sem er í gangi núna hefur í sjálfu sér ekkert með Samherja að gera, þannig séð, heldur það hvort við, þessir fréttamenn, höfum mögulega séð eða dreift heimakynlífsmyndböndum Páls Steingrímssonar. Ég hef ekki gert það og þar með er málið ekkert flóknara. Það er kjarni málsins. Í sjálfu sér er fyrst og fremst einkennilegt að ekki sé búið að fella þetta mál niður nú þegar.“
Fyrirvari: Ásamt Þóru sæta þrír blaðamenn Heimildarinnar einnig lögreglurannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra í sama máli.
Athugasemdir (1)