Þessi grein birtist fyrir meira en 2 árum.

Sönn leikgleði ræður för!

Leik­hús­fræð­ing­ur­inn Jakob S. Jóns­son brá sér í leik­hús og rýndi Mátu­lega.

Sönn leikgleði ræður för!
Leikhús

Mátu­leg­ir

Höfundur Thomas Vinterberg og Claus Flygare
Borgarleikhúsið
Gefðu umsögn

Norskur sálfræðingur, Finn Skårderud að nafni, skrifaði eitt sinn inngangsorð að norskri þýðingu á bók eftir nítjándu aldar fræðimanninn Edmondo de Amicis. Bók de Amicis fjallar um sálfræðileg áhrif áfengis og í innganginum að norsku útgáfunni lét Skårderud að því liggja að þegar vínið hafi áhrif, hrapi maður að þeirri niðurstöðu að maðurinn sé í raun skapaður með hálfu prómilli of lítið af áfengi í blóðinu. Þegar þetta hálfa prómill sé komið, þá njóti maðurinn krafta sinna og hugarafls til fulls, allt virðist „rétt“ – hvað sem það svo kann að merkja – og allt gengur upp. Maðurinn nálgast kannski það sem sálfræðiprófessorinn Mihaly Csikszentmihalyi kallaði „flow“, sem er sú tilfinning þegar maðurinn er upptendraður, glaður, fullur sköpunarkrafts og hamingjusamur – sú upplifun hámörkunar sem við öll þráum.

Rétt er að taka það fram að Finn Skårderud var hrapallega misskilinn. Hann hélt í rauninni aldrei fram í alvöru að manninn skorti hálft prómill af áfengi í blóðið – hann benti á þetta sem fjarstæðu, enda var hann sammála de Amici, að manninum tækist aldrei að halda sér á línunni, hann færi offari og hneigðist að ofdrykkju og í versta falli alkóhólisma og þá er auðvitað voðinn vís. Og má sosum til sanns vegar færa.

„Mátulegir“ verður þar með sagan um guðsgjöfina sem snýst í andhverfu sína og veldur á endanum óhamingju og tortímingu.

„Mátulegir“ er leiksviðsútgáfa af kvikmynd Thomasar Vinterbergs, „Druk“, frá 2020 og hefur verið tilnefnd til og hlotið fleiri verðlaun en hollt væri að telja upp. Myndin er skrambi góð, enda skreytir hún stórkanónum á borð við Mads Mikkelsen, Thomas Bo Larsen, Magnus Millang og Lars Ranthe í aðalhlutverkunum fjórum. Í sýningu Borgarleikhússins eru þessi fjögur hlutverk hinna firrtu og lífsleiðu menntaskólakennara leikin af Hilmi Snæ Guðnasyni, Halldóri Gylfasyni, Jörundi Ragnarssyni og Þorsteini Bachmann.

Undirrituðum þykir sagan fara betur á leiksviði en í kvikmynd. Handritið hefur verið stýft, aukapersónur sem koma fyrir í kvikmyndinni eru skornar burt eða breytt í raddir af segulbandi í símtölum og er það til einföldunar; hér eru fjórmenningarnir einir á sviðinu allan tímann og bera söguna uppi. Sálfræðingurinn Nikolaj er öðrum fremur sögumaður og talar beint til áhorfenda; þegar aðrar sögupersónur snúa sér til áhorfenda þjóna þeir því hlutverki að vera nemendur í hinum ýmsu kennslustundum – hjá íþróttakennaranum Tommy, sögukennaranum Martin eða tónlistarkennaranum Peter. Þetta er allt saman haganlega útfært og skýrlega gert og vel stutt haganlegri leikmynd og myndböndum Heimis Sverrissonar og lýsingu Þórðar Orra Péturssonar. Leikmyndin er að stofni til leikfimisalur og önnur sögusvið búin þar til eftir þörfum. Þessi lausn styður við sögu Tommy, íþróttakennarans sem er hrakfallabálkur þessarar sögu; hann fer verst út úr þeirri tilraun, sem félagarnir fjórir leggja af stað með, að halda sér rallhálfum – með hálfa prómillið í blóðinu! – og endar á að missa allt í bókstaflegum skilningi. Sú harmsaga á skilið að vera í brennidepli og Halldór Gylfason skilar íþróttakennaranum Tommy á svo grípandi hátt að unun er á að horfa. Hver handahreyfing, hvert svipbrigði, hver augngota byggir upp karakter sem ekki er annað hægt en láta sér þykja vænt um. Hið sama gildir um samleikara hans, þá Hilmi Snæ, Jörund og Þorstein – þeir brillera allir í hlutverkum sínum, hér er valinn maður í hverju rúmi og sönn leikgleði ræður för! Þökk einnig leikstjóranum, Brynhildi Guðjónsdóttur!

Tveir listrænir kraftar skulu nefndir, sem eru óðum að hasla sér völl í íslensku leikhúslífi sem er vel. Anna Kolfinna Kuran annast sviðshreyfingar og Guðlaug Ólafsdóttir raddþjálfun. Hvort tveggja skilaði sér í afar áferðarfallegri sýningu – hreyfingar leikaranna ýttu undir áherslur sögunnar, og raddir þeirra urðu ásamt tónlist og hljóðmynd Ísidórs Jökuls Bjarnasonar að hljómfagurri sinfóníu – vonleysisins í upphafi, hinnar upphöfnu gleði þegar á leið, hins óumflýjanlega ósigurs og að endingu sáttarinnar í lokin – rétt eins og vera ber í öllum góðum sögum.


Þýðing: Þórdís Gísladóttir
Leikstjórn: Brynhildur Guðjónsdóttir
Leikmynd og myndbandshönnun: Heimir Sverrisson
Búningar: Filippía Elísdóttir
Tónlist og hljóðmynd: Ísidór Jökull Bjarnason
Lýsing: Þórður Orri Pétursson
Sviðshreyfingar: Anna Kolfinna Kuran
Leikgervi: Elín S. Gísladóttir
Raddþjálfun: Guðlaug Ólafsdóttir
Leikarar: Halldór Gylfason, Hilmir Snær Guðnason, Jörundur Ragnarsson, Þorsteinn Bachmann
Kjósa
4
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Safnar fyrir útborgun í bílskúr foreldra sinna
1
Viðtal

Safn­ar fyr­ir út­borg­un í bíl­skúr for­eldra sinna

Hjálm­ar Snorri Jóns­son inn­rétt­aði í sum­ar bíl­skúr for­eldra sinna en hann býr í hon­um ásamt kær­ustu sinni. Hann seg­ir auð­veld­ara að geta safn­að fyr­ir íbúð þannig held­ur en að fara fyrst inn á leigu­mark­að­inn. „Það er svo­lít­ið hugs­un­in að í stað þess að vera á leigu­mark­aði get ég bara ver­ið hér og safn­að pen­ing­um,“ seg­ir Hjálm­ar.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Safnar fyrir útborgun í bílskúr foreldra sinna
4
Viðtal

Safn­ar fyr­ir út­borg­un í bíl­skúr for­eldra sinna

Hjálm­ar Snorri Jóns­son inn­rétt­aði í sum­ar bíl­skúr for­eldra sinna en hann býr í hon­um ásamt kær­ustu sinni. Hann seg­ir auð­veld­ara að geta safn­að fyr­ir íbúð þannig held­ur en að fara fyrst inn á leigu­mark­að­inn. „Það er svo­lít­ið hugs­un­in að í stað þess að vera á leigu­mark­aði get ég bara ver­ið hér og safn­að pen­ing­um,“ seg­ir Hjálm­ar.
Brotthvarf að meðaltali hærra úr íslenskum háskólum en í OECD-ríkjum
5
Fréttir

Brott­hvarf að með­al­tali hærra úr ís­lensk­um há­skól­um en í OECD-ríkj­um

Nið­ur­stöð­ur nýrr­ar skýrslu OECD um há­skóla­mál sýna að brott­hvarf er hærra á Ís­landi en að með­al­tali í OECD-ríkj­um. Þá seg­ir að tryggja þurfi að ís­lensk­ir há­skól­ar standi jafn­fæt­is öðr­um OECD há­skól­um. „Þess­ar nið­ur­stöð­ur stað­festa að há­skóla­mál­in þurfa að njóta sér­stakr­ar at­hygli,“ seg­ir Logi Ein­ars­son menn­ing­ar-, ný­sköp­un­ar- og há­skóla­ráð­herra.

Mest lesið í mánuðinum

„Ég er mjög stolt af því að hafa tekið þennan slag“
3
Fréttir

„Ég er mjög stolt af því að hafa tek­ið þenn­an slag“

Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu komst í dag að þeirri nið­ur­stöðu að ís­lenska rík­ið hefði ekki brot­ið á Bryn­dísi Ásmunds­dótt­ur. Hún seg­ir skrít­ið að tala um tap þeg­ar Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu veitti henni áheyrn. Nú geti hún loks náð and­an­um. Mark­mið­um um að vekja máls á brota­löm­um í ís­lensku rétt­ar­kerfi hafi náðst, ekki síst þeg­ar sig­ur vannst í öðru mál­inu.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár