Starf þingmanna á Alþingi snýst að miklu leyti um að ákvarða hvaða lög gilda á Íslandi. Þess vegna er stundum talað um að Alþingi sé löggjafarvaldið. Þá fara dómarar með dómsvaldið og ráðherrar auk forseta Íslands fara með framkvæmdarvaldið.
Þessi þrískipting valds er skilgreind í stjórnarskrá lýðveldisins, æðstu lögum Íslands sem öll önnur lög landsins verða að hlíta. Stjórnarskráin er grundvallarplagg sem ákvarðar stjórnskipan landsins og verndar grundvallarréttindi borgaranna.
Þrátt fyrir það hefur það mér verið mikið umhugsunarefni upp á síðkastið hvernig þingmenn – og þá einna helst þeir þingmenn sem sitja í ríkisstjórn og fara með framkvæmdavaldið – nálgast stjórnarskrána í störfum sínum á Alþingi.
Eins og segir að ofan snýst starf þingmanna um að ákveða hvaða lög gilda á Íslandi, en vegna þess að stjórnarskráin tilgreinir æðstu lög Íslands verða þingmenn alltaf að passa að lögin sem þau semja stangist ekki á við stjórnarskrána, grundvallarplaggið.
Er ríkisstjórninni alveg sama um stjórnarskrána?
Því miður er hins vegar eins og sumum ráðherrum sé alveg sama um það sem stendur í stjórnarskránni. Ríkisstjórnin setur allskonar lagafrumvörp á dagskrá til umræðu á Alþingi án þess að meta hvort lögin séu í samræmi við stjórnarskrá. Sum snerta jafnvel á grundvallarmannréttindum.
Frábært dæmi um þetta er útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra. Frumvarpið er ekki bara ómannúðlegt og hroðvirknislega unnið, heldur var aldrei kannað hvort frumvarpið bryti í bága við stjórnarskrána eða alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar Íslands.
Athugið að þetta er ekki bara mín skoðun. Þetta stendur bókstaflega í greinargerð frumvarpsins sjálfs: „Frumvarpið gefur ekki tilefni til að skoða sérstaklega samræmi við stjórnarskrá.“
Umsagnaraðilar einróma – en stjórnarliðar þegja
Í umsögnum sem bárust allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis koma fram ýmsar áhyggjur af þessu – sérstaklega, til að mynda, í umsögn Mannréttindastofnunar HÍ, þar sem varað er við því að sett séu lög sem stangast á við stjórnarskrána.
Síendurteknar beiðnir um að framkvæma úttekt á því hvort ákvæði frumvarpsins samræmdust stjórnarskrá var hunsuð síendurtekið. Það á bara að keyra þetta frumvarp í gegn og spyrja spurninga að leikslokum. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur ekkert pælt í þessu og ætlar ekkert að pæla í þessu.
Þetta eru óviðurkvæmileg vinnubrögð, en þetta er ekki bara fúsk. Þetta er meðvitað og strategískt. Stjórnarskránni og mannréttindasáttmálum er kastað fyrir róða til þess að viðhalda eitruðu meirihlutasamstarfi Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar – og það er raunverulegt fólk sem líður fyrir vikið.
Höfundur er þingmaður Pírata.
Enn sýna VG liðar sitt rétta andlit í þessari ríkisstjórn VG liða í boði sjálfstæðisflokksins . Hvenær kemur tilkynningin um að VG hafi runnið inn í sjálfstæðisflokksins, er það ekki hreinna ?