Ellen B. er fyrsti hluti þríleiks Mariusar von Mayenburg sem Þjóðleikhúsið frumsýnir fyrst leikhúsa; hinir tveir leikirnir eru Ex og Egal (alveg sama) og verða sýndir síðar á þessu ári. Marius von Mayenburg er eitt stórvirkasta leikskáld Evrópu nú um mundir, verk hans hafa verið þýdd á fjölda tungumála og leikin á helstu leiksviðum álfunnar.
Ellen B. er kammerverk fyrir þrjá leikara, sett upp á stóra sviði Þjóðleikhússins. Leikmyndin er mínímalísk, upphækkun á miðju sviði með ljósaferningi yfir hvítum sófa. Leikmunir einskorðast við vínflöskur, glös, bók og tuskudúkku. Sýningin stendur og fellur með leikurunum og list þeirra – og reyndar skal ekki látið hjá líða að nefna að list leikarans hér var einnig vel studd af lýsingu Björns Bergsteins Guðmundssonar, sem minnti á köflum á rannsóknarstofu, og tónlist Gísla Galdurs Þorgeirssonar og hljóðmynd hans og Arons Þórs Arnarssonar, sem rétt eins og leikmyndin lét lítið yfir sér, en hnykkti á þeim áherslum sem sagan býr yfir.
Þær Astrid (Unnur Ösp) og Klara (Ebba Katrín) búa saman; aldursmunur á milli þeirra er nokkur, enda kynntust þær þegar Klara var nemandi Astridar í skóla. Þegar leikurinn hefst á Astrid von á heimsókn skólastjórans í skólanum þar sem hún starfar og það kemur í ljós að Klöru er mátulega um þá heimsókn gefið. Þegar Úlfur (Benedikt) birtist fer af stað atburðarás þar sem ásakanir og uppgjör ganga á víxl – Ellen B. er þar ákveðinn miðpunktur – og eftir því sem á líður reynist æ erfiðara að festa hendur á hvað er satt og hverju er logið. Á endanum eru þær stöllur einar eftir í lokauppgjöri sem hefur verið nánast upp á líf og dauða.
Hér skal engu upp ljóstrað um gang leiksins – en það er óhætt að segja að enginn verður fyrir vonbrigðum með átökin, verkið talar beint inn í samtíma okkar og er áleitið innlegg í umræðu vorra tíma um valdbeitingu og misnotkun í tilfinningasamböndum. En Marius von Mayenburg tekst að lyfta efninu upp á hærra plan, það nær á köflum mýtólógískum hæðum – varpar fram spurningum, og skilur áhorfandann eftir til að leita svara í eigin sálarkimum. Þó ekki væri nema þess vegna á Ellen B. skilið að lifa lengi á fjölum leikhússins.
Mér er þó satt að segja spurn af hverju þessi sýning var sett upp á stóra sviði Þjóðleikhússins. Verkið er kammerleikur og þótt upphækkunin á sviðinu og ljósaferningurinn fyrir ofan hana minni á hnefaleikahring og smækki sjálft leiksvæðið, þá eru hreyfingar leikaranna utan upphækkunarinnar truflandi. Þetta er lítil sýning á of stóru sviði og stærð sviðsins dregur úr mætti leikaranna, sem ná þó allir að fylla salinn og leyfa hverjum hljómi og hverju svipbrigði að ná allt á aftasta bekk. Hefðu ekki Kassinn eða jafnvel Þjóðleikhúskjallarinn verið betra rými fyrir þessa sýningu?
Það er unun að hlusta á meðferð leikaranna á tungumálinu. Hver einasta replikka hljómar eðlilega, sprottin úr aðstæðum og samspili persónanna – eina undantekningin á þessu er upphafsatriðið, þar sem er helstil mikið óðagot á þeim Unni Ösp og Ebbu Katrínu; það hefði farið betur á að leyfa báðum karakterum að hvíla í aðstæðum, leyfa áhorfendum að kynnast þeim betur og átta sig á sambandi þeirra. Eins og hér var gert fór forgörðum sú líkamlega nánd, sem telja má eðlilegt að enn lifi á milli þeirra.
Að öðrum ólöstuðum er Benedikt Erlingsson meistari hins talaða orðs. Hann hefur þennan sjaldgæfa hæfileika að geta breytt um hugsun og stefnu í miðju orði, þannig að hann á einu andartaki skapar heilt únívers af margræðum hugrenningatengslum. Það er unun að hlýða á slíka meðferð á texta.
Athugasemdir