Ætli það sé nokkrum nýtt að heyra að kókaín sé skaðlegt fíkniefni. Fyrir utan fíknivandann sem fylgir kókaínneyslu hefur notkun efnisins í för með sér hættu á heilablóðföllum, hjartaáfalli og skyndidauða. Því er ráðlegast að nota aldrei þetta hættulega efni.
Þótt fíkniefnið áfengi sé löglegt, ólíkt kókaíni, er það hins vegar ekki heldur hættulaust. Óhófleg notkun áfengis veldur fjölda slysa hér á landi sem mörg eru alvarleg. Einnig á áfengisneysla þátt í ofbeldi og bráðri áfengiseitrun getur fylgt lífshætta vegna köfnunar. Eru þessi bráðu áhrif til viðbótar við vel þekkt heilsuspillandi og félagsleg áhrif langvarandi áfengisneyslu. Heilsunnar vegna er ráðlegast að neyta sem minnst af áfengi en sérstaklega að forðast ofneyslu og ölvun.
Sennilega eru færri þó meðvituð um hversu hættulegt er að nota þessa tvo varasömu vímugjafa saman. Þegar áfengi og kókaín blandast í blóðrás einstaklings, sem notað hefur bæði fíkniefnin, verður nefnilega efnahvarf þeirra á milli. Við það myndast annað efni, kókaetýlen. Er þetta eina þekkta dæmið í lyfjafræðum þar sem tvö efni í líkamanum blandast saman og mynda þriðja virka efnið.
Þótt kókaín og áfengi sé hættulegt hvort fyrir sig er kókaetýlen mun hættulegra en samanlögð áhrif hinna tveggja fíkniefnanna. Efnið veldur svipaðri vímu og kókaín eitt og sér en víman endist lengur, sem er hættulegra. Þá hefur verið sýnt fram á að kókaetýlen er mun eitraðra fyrir hjartað og fylgir myndun þess mun hærri tíðni af hjartastoppum en sést hjá þeim sem eingöngu nota kókaín. Þá eru vísbendingar um að kókaetýlen geti valdið bráðum lifrarskaða.
Við mælum með því að enginn noti kókaín og helst sem minnst af áfengi. Kjósi einhver að neyta þessara vímuefna er þó sérstaklega ráðlagt að nota þau alls ekki saman.
Athugasemdir