1 11.800 fleiri íbúar
Alls bjuggu 387.800 manns á Íslandi í lok síðasta árs. Íbúum landsins hafði þá fjölgað um 11.800 á einu ári. Þar af fjölgaði Reykvíkingum um 4.350, og mest allra. Það er ekki óvenjulegt, enda Reykjavíkurborg langstærsta sveitarfélag landsins þar sem 36 prósent landsmanna búa. Alls fæddust 4.420 manns á Íslandi á árinu 2022 og 2.700 dóu. Næstum tveir af hverjum þremur íbúum landsins búa nú á höfuðborgarsvæðinu, eða 64 prósent. Það er nánast sama hlutfall og ári áður.
2 Kynsegin fjölgaði um 86 prósent
Karlarnir á Íslandi eru fleiri en konurnar og munurinn eykst milli ára. Alls voru karlarnir 199.840 í lok desember síðastliðinn en konurnar 187.840. Þessa miklu aukningu karla má rekja til þess að fleiri slíkir flytja til landsins til að starfa en konur. Fólki sem er skráð kynsegin fjölgaði á síðasta ári þegar fjöldi þess fór úr 70 í 130. Það er aukning upp á 86 prósent á einu ári.
3 Erlendir ríkisborgarar 65.090
Meginþorri fjölgunarinnar á síðasta ári var til kominn vegna þess að erlendir ríkisborgarar fluttu til landsins. Alls fjölgaði þeim um 10.320. Þeir voru því 87 prósent aukningarinnar á árinu 2022. Erlendir ríkisborgarar með heimilisfesti á Íslandi voru 65.090 um síðustu áramót, eða 16,7 prósent þeirra 387.800 sem þá bjuggu á landinu. Um er að ræða mikla breytingu á skömmum tíma. Hlutfall erlendra ríkisborgara af heildarmannfjölda fór fyrst yfir fimm prósent hérlendis árið 2006 og yfir tíu prósent árið 2017. Erlendum ríkisborgurum sem hér búa hefur aldrei fjölgað jafn mikið á einu ári áður.
4 70 prósent settust að í Reykjavík
Erlendum ríkisborgurum sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 6.330 í fyrra og voru 40.910 um nýliðin áramót. Þar af bjuggu 70 prósent í Reykjavík, eða alls 28.620 manns. Það er vel umfram hlutfall Reykvíkinga af öllum íbúum höfuðborgarsvæðisins, en þeir voru tæplega 57 prósent þeirra í lok síðasta árs.
5 20 prósent íbúa höfuðborgarinnar erlend
Alls fjölgaði erlendum ríkisborgurum í Reykjavík um 4.460 á árinu 2022, sem þýðir að sjö af hverjum tíu slíkra sem settust að á höfuðborgarsvæðinu á síðasta ári búa í Reykjavík og fimmti hver íbúi höfuðborgarinnar er nú erlendur ríkisborgari.
6 Fækkaði um 10 á Seltjarnarnesi
Fæstir erlendir ríkisborgarar á höfuðborgarsvæðinu búa á Seltjarnesi, eða 440 alls. Þeim fækkaði um tíu á árinu 2022. Alls eru þeir 9,4 prósent íbúa Seltjarnarness. Garðabær kemur þar á eftir með 1.150 erlenda ríkisborgara, sem eru einungis sex prósent íbúa bæjarins. Erlendum ríkisborgurum í Garðabæ fjölgaði um 200 á síðasta ári.
7 Næstum 30 prósent íbúa í Reykjanesbæ
Af stærri sveitarfélögum landsins eru hlutfallslega flestir erlendir ríkisborgarar með búsetu í Reykjanesbæ. Þar eru þeir 6.470, eða rúmlega 29 prósent þeirra 22.060 íbúa sem bjuggu í sveitarfélaginu í lok árs 2022.
8 23.354 Pólverjar en 19.980 Akureyringar
Flestir þeirra sem eru af erlendu bergi brotnir sem hafa búsetu á Íslandi koma frá Póllandi. Þeir voru 23.345 í byrjun árs 2023 samkvæmt tölum frá Þjóðskrá. Því búa fleiri Pólverjar á Íslandi en búa í heild í Reykjanesbæ (22.060), Akureyrarbæ (19.980) og Garðabæ (18.890). Ef allir íbúar landsins sem eru með pólskt ríkisfang byggju í sama sveitarfélagi væri það fjórða stærsta sveitarfélag landsins á eftir höfuðborginni Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði.
9 640 fleiri fóru en komu
Alls voru aðfluttir umfram brottflutta á síðasta ári 9.910 talsins, en 640 fleiri íslenskir ríkisborgarar fluttu af landi brott en til Íslands á árinu 2022. Það er umtalsverð breyting frá árunum 2020 og 2021, þegar 1.330 íslenskir ríkisborgarar fluttu til landsins umfram þá sem fluttu frá því. Á þeim árum geisaði kórónuveirufaraldur sem olli því að mun færri Íslendingar fluttu af landi brott en áður. Árið 2020 fluttu einungis 2.190 íslenskir ríkisborgarar af landi brott, og höfðu þá ekki verið færri á einu ári síðan 1993. Ári síðar voru þeir enn færri, eða 1.590 talsins.
10 2.521 frá Úkraínu
Hlutfallslega hefur fólki frá Úkraínu fjölgað langmest hérlendis síðastliðið rúmt ár. Alls bjuggu 239 manns þaðan hér á landi í byrjun desember 2021 en 2.521 í byrjun þessa árs. Um er að ræða fólk sem er að flýja stríðsástand í Úkraínu, en um 60 prósent allra sem sóttu um vernd á Íslandi á síðasta ári komu þaðan.
Athugasemdir