Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Tugmilljarða Sundabraut á leið í umhverfismatsferli – aftur

Ým­is­legt er enn á huldu um Sunda­braut, þrátt fyr­ir að stjórn­völd hafi gef­ið út að fram­kvæmd­in geti haf­ist ár­ið 2026 og kveð­ið sé á um það í stjórn­arsátt­mála nú­ver­andi rík­is­stjórn­ar að braut­in verði tek­in í notk­un ár­ið 2031. Heim­ild­in tók sam­an tíu stað­reynd­ir um þetta mikla sam­göngu­verk­efni, sem mun fara í um­hverf­is­mats­ferli á ár­inu sem nú er nýhaf­ið.

Tugmilljarða Sundabraut á leið í umhverfismatsferli – aftur

1 Á aðalskipulagi borgarinnar í 38 ár

Fyrstu tillögur að Sundabraut, í formi brúar yfir Kleppsvík, rötuðu inn í tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur fyrir árin 1975-1995. Sundabrautin kom svo formlega inn á aðalskipulag borgarinnar árið 1985, eða fyrir 38 árum síðan. Sundabrautin var tekin í tölu þjóðvega árið 1995 og allar götur síðan þá, þó með hléum, hefur verið unnið að undirbúningi verkefnisins á skrifstofum Vegagerðarinnar og skipulagsyfirvalda Reykjavíkurborgar.


2 Ekki ljóst hvernig Kleppsvík verður þveruð

Borg og ríkiDagur B. Eggertsson borgarstjóri og Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra undirrituðu yfirlýsingu sín á milli um undirbúning Sundabrautar sumarið 2021.

Búið er að veltast fram og til baka með það undanfarna áratugi hvort þvera skuli Kleppsvík með brú eða jarðgöngum. Engin endanleg niðurstaða í þeim efnum liggur fyrir enn. 

Reykjavíkurborg, sem fer með skipulagsvaldið, setti fram nokkuð afdráttarlausa sýn á verkefnið árið 2008, en í upphafi þess árs var samþykkt í borgarráði „að Sundabraut verði lögð í göngum frá Gufunesi í Laugarnes, með eðlilegum fyrirvara um niðurstöðu umhverfismats“. Allir flokkar í borgarstjórn voru samþykkir þessari afgreiðslu, sem kom í kjölfar samráðs við íbúa á helstu áhrifasvæðum nýju hraðbrautarinnar, í Laugardalnum og Grafarvogi.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hefur á sama tíma talað með þeim hætti á umliðnum misserum, er framkvæmdin hefur á ný verið sett á undirbúningsstig, að „brúin trompi allt“.  „Í mín­um huga eru göng­in aðeins val­kost­ur í um­hverf­is­mati til að bera sam­an við brúna,“ sagði Sigurður Ingi í febrúar árið 2021. 


3 Einkaframkvæmd fjármögnuð með veggjöldum

Óháð því hvort Sundabraut yrði sett í göng eða yfir brú er ljóst að um eina stærstu og dýrustu samgönguframkvæmd Íslandssögunnar væri að ræða. Heildarkostnaðurinn miðað við brú var metinn 69 milljarðar króna og 83 milljarðar ef göng væru gerð, í upphafi árs 2021. Þar af var kostnaðurinn við þverun Kleppsvíkurinnar metinn 44 til 58 milljarðar króna, eftir því hvort um brú eða göng væri að ræða.

Engar áætlanir hafa verið settar fram um fjármögnun verkefnisins með framlögum úr ríkissjóði, heldur er Sundabraut ein af sex samgönguframkvæmdum sem Alþingi hefur heimilað að verði unnin sem „samvinnuverkefni“ hins opinbera og einkaaðila, sem þá myndu innheimta veggjöld til þess að fá til baka það fjármagn sem lagt verður í verkefnið, ef af því verður. 


4 Myndi bæði auka og minnka bílaumferð

Samkvæmt skýrslu sem verkfræðistofurnar Mannvit og COWI skiluðu í upphafi síðasta árs er áætlað að lagning Sundabrautar myndi fækka eknum kílómetrum á höfuðborgarsvæðinu um 128-140 þúsund daglega.

Eitt útilokar þó ekki annað, og í skýrslunni var dregið fram að minni umferðartafir og styttri ferðatími myndi þýða að fleiri kæmu til með að velja einkabílinn sem sinn samgöngumáta og fleiri bílar kæmu á göturnar. Talið er að daglegum bílferðum muni fjölga um 2.550 til 5.000 með tilkomu Sundabrautar.


5 Meirihluti landsmanna vill sjá verkefnið raungerast

Samkvæmt skoðanakönnun sem Maskína framkvæmdi snemma á síðasta ári er ríkur meirihlutavilji fyrir því að ráðist verði í gerð Sundabrautar. Rúm 66 prósent landsmanna sögðust mjög eða fremur hlynnt framkvæmdinni, en einungis 6,2 prósent á landsvísu sögðust andvíg Sundabrautinni. 

Stuðningur við Sundabraut var áberandi mestur á Vesturlandi og Vestfjörðum, þar sem yfir 88 prósent sögðust hlynnt framkvæmdinni. Lítill munur mældist á afstöðu fólks til Sundabrautar eftir stuðningi við stjórnmálaflokka.

Alls 6,5 pró­sent svar­enda komu þeirri skoðun á fram­færi að afstaða þeirra til Sunda­brautar færi eftir því hvort hún yrði lögð á brú eða í göng­um.


6 Yrðu fyrstu tvöföldu jarðgöng landsins

Ljóst er að gerð jarðganga undir Kleppvík, Sundaganga, yrði ein stórtækasta gangaframkvæmd sem ráðist hefur verið í hérlendis. Áætluð lengd þeirra ganga sem horft er til, að vegskálum meðtöldum, yrði 5,9 kílómetrar. Jarðgöngin þyrftu að vera tvöföld, með tveimur akreinum í hvora átt, og því þyrftu göngin í heild að vera 11,8 kílómetrar.


7 Jarðgöng þurfa að vera á meira dýpi en fyrri hugmyndir gerðu ráð fyrir

Þegar unnið var með tillögur að jarðgöngum á árunum 2005-2008 var gert ráð fyrir því að bergþekja yfir göngunum væri um 20 metrar að lágmarki. Frekari jarðfræðirannsóknir leiddu í ljós að í Kleppsvíkinni væri djúp renna í miðju sundinu, sem væri dýpri en áður var talið. Í kjölfarið hefur verið ákveðið að miða við að hafa 35-40 metra bergþekju yfir göngunum, sem leiðir það af sér að botn þeirra yrði hartnær 80 metrum undir sjávarmáli.


8 Brú yrði sú langlengsta og hæsta á Íslandi

Ef niðurstaðan verður sú, í kjölfar umhverfismats, að ráðast í gerð brúar yfir Kleppsvík er ljóst að sú brú yrði sú lengsta á Íslandi, en Sundabrúin sem búið er að gera tillögur um yrði alls 1.172 metrar á lengd, rúmlega helmingi lengri en Borgarfjarðarbrú við Borgarnes, sem er lengsta brúin í vegakerfinu í dag. Brúin yrði sömuleiðis sú langhæsta hérlendis, en hún myndi rísa í 35 metra hæð yfir hafflötinn og yrði þannig úr garði gerð að hægt yrði að sigla 30 metra háum skipum undir hana.


9 Sundabrú yrði erfiður hjólastígur

Eitt þeirra atriða sem talið hefur verið brú yfir Kleppsvík til tekna umfram jarðgöng er möguleikinn á að hjólandi og gangandi fólk geti nýtt brúna. Það er þó ljóst að brúin yrði krefjandi hjólastígur, allavega á leið frá Gufunesi og yfir í borgina, en halli á austurhluta brúarinnar yrði um 5 prósent samkvæmt tillögum sem settar hafi verið fram. 

Það er meiri halli en æskilegt þykir fyrir hjólaleiðir, en samkvæmt hönnunarleiðbeiningum fyrir hjólastíga, sem unnar voru í samstarfi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðarinnar, er æskilegt að langhalli á hjólaleiðum sé innan við 3 prósent og að hámarki sé ásættanlegt að kafli með 5 prósenta halla sé 200 metra langur. Við það bætist að brúin yrði allt að 35 metra há og berskjölduð fyrir veðri og vindum. 


10 Ein samfelld framkvæmd, ef af verður

Samkvæmt yfirlýsingu borgarstjóra og innviðaráðherra um undirbúning Sundabrautar, sem undirrituð var sumarið 2021, er einhugur um að framkvæmdin verði unnin í einni lotu alla leið frá Sæbraut að Kjalarnesi, til að varna því að umferð beinist óhóflega um íbúahverfi Grafarvogs, eins og hætta væri á ef framkvæmdinni yrði skipt upp í áfanga.

Kjósa
14
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • PH
    Páll Hermannsson skrifaði
    Er ekki lag að endurskoða kröfuna um 30 metra undir brú. Hver meter í lækkun stuðlar að lægri halla og mun minni kostnaður. Það þarf að setja verðmiða á þessa hæða miðað við minni hæð.
    1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Tíu staðreyndir

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár