Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Ráðamenn verði að tala skýrar við þjóðina um varnarmál

Inn­rás Rússa í Úkraínu var eitt um­tal­að­asta frétta­mál síð­asta árs enda hef­ur hún haft gríð­ar­leg áhrif á fólk­ið þar í landi sem og í Evr­ópu allri. Ná­lægð stríðs­ins hef­ur vak­ið vanga­velt­ur um varn­ar­mál víðs veg­ar og þar á með­al hér á landi. Pró­fess­or í stjórn­mála­fræði við Há­skóla Ís­lands ræddi við Heim­ild­ina um hvað myndi ger­ast ef ráð­ist yrði á Ís­land en hann seg­ir stjórn­völd verða að fara úr hjól­för­um kalda stríðs­ins.

Ráðamenn verði að tala skýrar við þjóðina um varnarmál

„Það er svo mikill tepruskapur í gangi í umræðunni hér að menn veigra sér við að ræða viðveru varnarliðs, loftvarnarkerfi og eldflaugavarnarkerfi en á sama tíma á sér stað heilmikil uppbygging á öryggissvæðinu í Keflavík. En sumir stjórnmálamenn virðast vilja halda umræðunni niðri.“

Þetta segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, í samtali við Heimildina en á dögunum gagnrýndi hann til­lögu for­sæt­is­ráðherra um breyt­ingu á þings­álykt­un um þjóðarör­yggi sem kom fram seint á síðasta ári. 

Umræðan um varnarmál hér á landi hefur lengi verið lituð af orðræðu kalda stríðsins og gerir það jafnvel enn. Þarf Ísland á varnarliði að halda? Á Ísland að vera í Atlantshafsbandalaginu (NATO) eða ekki? Baldur segir að varnarmálaumræða sé þó flóknari í nútímasamfélagi en hinir tveir pólar kalda stríðsins og telur að stjórnvöld eigi aldrei að vanmeta öryggismál. 

Hann útskýrir að mikilvægt sé að hafa þrjár sviðsmyndir í huga. Í fyrsta lagi væri möguleiki á skemmdarverkum á innviðum, í öðru lagi árás lítillar sveitar óvinahers og í þriðja lagi stigmögnuðum átökum og skærum í Norður-Atlantshafi. 

„Aldrei hafa verið meiri líkur á því að átök breiðist út í Evrópu frá því í lok seinni heimsstyrjaldar. Með því er ég ekki að segja að átökin í Úkraínu dreifist út en þann möguleika, að mínu mati, verður að taka meira með í reikninginn. Ástandið er svo alvarlegt – átökin þar eru líkleg til að stigmagnast á næstu vikum og mánuðum. Rússar virðast vera að undirbúa stórsókn og Úkraínumenn undirbúa sig undir hana,“ segir hann. 

Fyrst og fremst áhyggjur af skemmdarverkum

Baldur segir að taka verði útbreiðslu átakanna, hvort sem það yrði vegna óviljaverks eða í ákveðnum tilgangi, með í reikninginn. „Mér finnst mjög mikilvægt að við, jafnt sem önnur ríki, grípum til ráðstafana með það í huga. Að þessu sögðu þá á enginn von á einhverri allsherjarinnrás í landið eins og innrás Rússlandshers í Úkraínu. Menn eiga ekki von á því. Það er ekki það sem verið er að tala um. En við höfum einfaldlega séð að það hafa verið unnin skemmdarverk í nágrannaríkjum okkar, aðildarríkjum að NATO. Og það eru fyrst og fremst skemmdarverk sem við þurfum að huga að en líka, að mínu mati, einhverri svona takmarkaðri árás óvinasveitar sem ef til vill er ekki hægt að rekja hvaðan kemur. Þannig hafa til dæmis rússnesk stjórnvöld hagað sínum hernaði. Þeir senda inn sveitir sem erfitt að er að rekja beint til þeirra.“

„Og það eru fyrst og fremst skemmdarverk sem við þurfum að huga að en líka, að mínu mati, einhverri svona takmarkaðri árás óvinasveitar sem ef til vill er ekki hægt að rekja hvaðan kemur.“

Enn fremur verði að taka með í reikninginn að Rússland sé að stórefla flotann sinn norðan við Ísland í Síberíu. „Á meðan rússneski landherinn á augljóslega í verulegum vandræðum í Úkraínu, en flugher þeirra virðist ekki vera upp á sitt besta, þá er sjóherinn það sem þeir eiga helst eftir. Og hann í rauninni getur ekki með góðu móti athafnað sig í Svartahafi vegna þess að Bosporussund er lokað fyrir umferð herskipa rússneska flotans. Hvar getur þá rússneski herinn athafnað sig? Það er einmitt hérna fyrir norðan okkur í hafinu í kringum landið ef átökin stigmagnast í Evrópu.“

Verður að huga vel að orku- og fæðuöryggi

Varðandi fyrstu sviðsmyndina þá segir Baldur að Íslendingar verði að huga sérstaklega að fjarskipta- og netvörnum. „Við verðum að huga sérstaklega vel að orkuinnviðum landsins og birgðaflutningum til og frá landinu og sæstrengjum sem liggja til landsins.“ Hann bendir á að stjórnvöld hafi hugað að mörgum þessum þáttum en flestir þeirra séu í höndum Íslendinga, nema hugsanlega sæstrengirnir þar sem nágrannaríkin komi þar að. „Orkuöryggi, fæðuöryggi og net- og fjarskiptaöryggi er að stórum hluta til í hendi Íslendinga sjálfra og það hefur verið stigið veigamikið skref til að tryggja öryggi á þessum sviðum á undanförnum mánuðum.“

Baldur segir að það hafi vakið athygli hans að ráðherrar hafi stigið fram og sagt að stjórnvöld hafi dregið lappirnar í þessum málaflokkum, að þau séu engan veginn nægilega undirbúin og að það þurfi stórátak til til að efla fjarskipta- og netöryggi, fæðu- og birgðaöryggi og orkuöryggi. „En þeir eru að stíga skref til að vinna í þessum málaflokkum,“ bætir hann við. 

Íslendingar hafa ekki þekkingu eða mannafla til að stofna her

Varðandi aðra sviðsmyndina, þar sem óvinasveitir gætu látið til skarar skríða í eða við landið, þá nefnir Baldur að á meðan sérsveit ríkislögreglustjóra sé undir það búin að geta tekist á við takmarkaða hryðjuverkaógn þá sé hún ekki undir það búin að ráða við lítinn herafla – þó hann yrði lítill. „Ég veit ekki til þess að sérsveitin sé búin undir það að ráða við litla hersveit.“ 

Hvernig ættu þá Íslendingar nokkurn tímann að geta varist ef her myndi ráðast inn í landið – lítill eða stór – þar sem landið er herlaust? Þyrftum við hvort sem er ekki alltaf að treysta á utanaðkomandi aðstoð?

Baldur segir að enginn vilji sé til þess að stofna her eða varnarlið hér á landi enda hafi Íslendingar hvorki þekkingu né mannafla til að gera það. „Ég held að það sé betra heima setið en af stað farið hvað það varðar. Við eigum þá að njóta aðstoðar bandalagsríkja okkar. En vandinn við takmarkaða árás óvinasveitar, til dæmis á Keflavíkurflugvöll eða á orkuinnviði, stjórnarráðsbyggingar eða fjölmiðla á Íslandi er spurningin: Hverja getum við kallað til?“

Þá segist hann vilja fá svör frá ráðamönnum. „Hvenær koma bandalagsríki okkar til bjargar? Ef árás óvinasveitar væri takmörkuð þá er ekki endilega víst að Atlantshafsbandalagið sé tilbúið að virkja 5. grein sáttmálans sem segir að árás á eitt ríki sé árás á öll. Það þarf formlega að virkja hana. Hún virkjast ekki sjálfkrafa.“

Hann bendir á að ekki sé víst að þessi grein virkist, sérstaklega ekki í stigmögnun átaka í Evrópu. „Þá segja bandalagsríkin kannski: Það er bara betra ef þið glímið við þetta sjálf.“ Baldri finnst mikilvægt að ráðamenn tali skýrar við þjóðina og útskýri á hvaða tímapunkti bandalagsríkin kæmu til aðstoðar í takmarkaðri árás óvinasveita.

Fimmta greinin yrði virkjuð ef til mikilla átaka kæmi

Þegar kemur að síðustu sviðsmyndinni ef veruleg stigmögnun átaka ætti sér stað í Norður-Atlantshafi eða ef annað ríki hreinlega beindi sjónum sínum að Íslandi og réðist á landið með stýriflaugum eða loftárásum, þá finnst Baldri liggja í augum uppi að þessi 5. grein Atlantshafssáttmálans yrði virkjuð og bandalagsríkin myndu líta á slíka árás á Ísland sem árás á þau og þá myndu þau koma til aðstoðar. 

„Vandinn eða það flókna við hernað í dag er að sjaldnast er það eitt ríki sem ræðst á annað ríki. Hernaður er orðinn í miklu meira mæli skemmdarverk – takmarkaðar árásir þar sem uppruninn er óljós. Að þessu öllu sögðu langar mig að nefna að það sé mjög sérstakt að við sem bandalagsríki í NATO endurmetum ekki sjálf þann viðbúnað sem þarf að vera hér á Íslandi til þess að verjast þessum þáttum sem ég nefndi áðan.“

Hann segir að Íslendingar hafi staðið sig ágætlega í fyrsta þættinum en alls ekki nægilega vel í hinum – þeim sem lúta að hervörnum. Mörg önnur lönd hafi endurmetið hvaða varnarviðbúnaður þarf að vera til staðar til þess að takast á við hugsanlegar árásir, stórar eða litlar. „Að mínu mati höfum við ekki hugað nægilega að því.“ 

Skiptir mestu máli fyrir lítil ríki að fyrirbyggja árás

Baldur telur að stjórnvöld hafi unnið vel að svokölluðum fjölþáttaógnum eða almannavarnahlutanum en hann gagnrýnir að í raun sé ekki minnst á hervarnir. „Ég hef verið að kalla eftir því að stjórnvöld reyni að meta það sjálf og síðan í samvinnu við bandalagsríki hvaða varnarviðbúnað við viljum sjá á öryggissvæðinu í Keflavík en ekki láta öðrum það eftir – vegna þess að Bandaríkin, sem hafa haft mest um varnarviðbúnað í Keflavík að segja eins og er, geta haft annarra hagsmuna að gæta heldur en við. Til dæmis hafa þeir mikla hagsmuni af því að rússneskir kafbátar með kjarnorkuvopn sigli ekki á Norður-Atlantshafi og í rauninni leggi fyrir utan Manhattan og ógni stórborgum í Bandaríkjunum. 

Auðvitað er þetta hagsmunamál fyrir okkur líka en kannski skiptir okkur meira máli að hafa hér takmarkað erlent varnarlið. Kannski skiptir meira máli fyrir okkur að vera með loftvarnir allt árið um kring. Við erum eina aðildarríki NATO sem ekki er með loftrýmisgæslu allt árið um kring. Það getur líka skipt okkur meira máli að vera með eldflaugavarnarkerfi og loftvarnir til að verjast hugsanlegum stýriflaugum.“

Hann talar um tepruskap stjórnmálamanna þegar kemur að umræðu um þessi mál og segir hann að slíkt geri ekki gott þegar kemur að fælingunni. „Það skiptir mestu máli fyrir lítil ríki að verða ekki fyrir árás – að fyrirbyggja árás. Vegna þess að það er svo auðvelt að ná yfir lítil ríki.“ Í tilfelli Íslands þá bendir hann á að auðveldara sé að slíta tengingu landsins við umheiminn heldur en til dæmis Þýskalands. Miklu auðveldara sé að leggja Ísland hernaðarlega undir sig á nokkrum dögum en Úkraínu. „Lítil ríki eru viðkvæmari fyrir árás og þess vegna verða þau að nota fælingarmáttinn frekar en þau stóru og reyna að tryggja að á þau verði ekki ráðist.“

„Það skiptir mestu máli fyrir lítil ríki að verða ekki fyrir árás – að fyrirbyggja árás. Vegna þess að það er svo auðvelt að ná yfir lítil ríki.“

Honum finnast nýjar tillögur um breytingar á þjóðaröryggisstefnunni ekki taka tillit til mikilvægis fælingarinnar.

Viðkvæmt mál við ríkisstjórnarborðið

Varnarmál á Íslandi hafa verið mjög umdeild á Íslandi í gegnum tíðina og skipar fólk sér iðulega í tvær fylkingar hvað þau varðar. Ísland úr NATO, herinn burt var eitt frægasta slagorð andstæðinga varnarliðs Bandaríkjahers í Keflavík á síðustu öld. Vinstri græn hafa frá stofnun flokksins árið 1999 haft það á stefnuskrá sinni að fara úr NATO og á móti hefur samstarfsflokkur þeirra í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokkurinn, verið fylgjandi aðild. 

Baldur segir að nokkuð ljóst sé að þessar fylkingar gera umræðuna flóknari en hún þyrfti að vera. „Ríkisstjórnarsamstarfið er þannig samansett að þetta er mjög viðkvæmt. Menn ræða ekki uppbygginguna á varnarsvæðinu eða varnarmál almennt vegna þess að það hefur verið Sjálfstæðisflokkurinn í gegnum tíðina sem hefur verið öflugur málsvari varnarviðbúnaðar. En núna eru hendur hans bundnar. Maður sér það í umræðunni.“

„Ríkisstjórnarsamstarfið er þannig samansett að þetta er mjög viðkvæmt.“

Þegar hann rýnir í þessar nýju tillögur þá finnst honum þær bera vott um að Vinstri græn hafi ef til vill meiri áhrif á öryggis- og varnarstefnu Íslands en virðist við fyrstu sýn. „Mér finnst það kristallast í þessum tillögum forsætisráðherra, sem er náttúrlega formaður VG, og það er ekki skrítið að tillögurnar taki mið af stefnumálum hennar flokks.“ Hann telur að Vinstri græn trúi ekki að árás muni eiga sér stað hér á landi. „Þau trúa á hlutleysi og að meira öryggi sé í því heldur en varnarviðbúnaði,“ segir hann. 

„Mér finnst svo leiðinlegt í þessari umræðu að þegar maður fer að tala um þetta og benda á þessa fjölmörgu þætti þá reyna stjórnmálamenn, sumir hverjir, að snúa út úr og ásaka mann um að maður vilji stofna íslenskan her. Ég vil nefna það sérstaklega að ég hef aldrei í umræðunni lagt til að það verði stofnaður íslenskur her. Aldrei. Ég tel það í raun algjörlega óraunsætt. Í fyrsta lagi höfum við enga þekkingu eða mannafla til að gera það og það er enginn vilji til þess. Mér finnst það hugmynd sem myndi ekki ganga upp. Það er miklu betra ef við þurfum á varnarliði að halda að þeir sinni þeim hluta varnanna sem eru til þess bærir.“

Íslendingar þurfa ekki að finna upp hjólið

Væri þetta afturhvarf til þess þegar Bandaríkjamenn voru á Vellinum? Baldur segir að það sé eins og Íslendingar geti ekki tekið umræðuna án þess að ræða hvort hér eigi að vera her á landinu eða ekki. „Varnir eru svo miklu meira og fjölþættari en bara her.“ En hver er þá leiðin upp úr gömlum „skotgröfum“ umræðunnar um kalda stríðið? Baldur segir að Íslendingar þurfi ekki að finna upp hjólið. 

„Mér finnst að við þurfum að skoða hvað okkar nánustu nágrannaríki eru að gera og bandamenn en það eru hin Norðurlöndin, hvernig þau fóru strax eftir innrás Rússa að endurmeta varnaráætlanir sínar og varnir sínar. Boða nýja varnarstefnu og vinna það síðan fyrst sjálf og síðan í samvinnu við bandalagsríki sín. Sjáum bara hvernig aðrir gera þetta og gera það vel. Það er mjög vel vandað til þessarar vinnu á öllum Norðurlöndunum,“ segir hann og vísar þar ekki einungis til Svíþjóðar og Finnlands heldur einnig til Noregs og Danmerkur. 

Þá bendir Baldur á að Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, hafi verið ötul að sækja leiðtogafundi NATO og búin að skrifa undir fjölmargar ályktanir, bæði á vegum Atlantshafsbandalagsins sem og Norðurlandanna um aukna samvinnu í varnar- og öryggismálum og hvað þurfi að gera. 

„En það er eins og þessi plögg séu einkum og sér í lagi til brúks erlendis. Að minnsta kosti ekki til brúks í íslenskri umræðu. Ég veit að við fylgjum þeim eftir innan NATO og ég vil ekki gera lítið úr því, en það er eins og það megi ekki taka þessi plögg, sem forsætisráðherra hefur skrifað undir, og ræða þau á málefnalegum nótum við íslenskan almenning. Mér finnst það bara mjög mikilvægt. Ég vil í fyrsta lagi ekki útvista vandamálum eins mikið og við höfum verið að gera og í öðru lagi vil ég að stjórnmálamenn ræði við okkur, fólkið á götunni, íslenskan almenning. Við verðum bara einhvern veginn að reyna að komast upp úr þessum hjólförum kalda stríðsins. Þau lita alla umræðu.“

„Við verðum bara einhvern veginn að reyna að komast upp úr þessum hjólförum kalda stríðsins.“

Baldur segir að lokum að það sé landlægur hugsunarháttur á Íslandi að „þetta reddist“. „Ég held að sá hugsunarháttur liti þetta og við tökum þessi mál eiginlega ekki nægilega alvarlega, að mínu mati.“

Kjósa
4
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • PH
    Pétur Hilmarsson skrifaði
    Þjóðarminni Íslendinga um hernám, um her sem gerir menn ríka og um erlenda dáta sem draumur er að dansa við, hefur gert Íslendinga algerlega blinda á varnamál. Hefðum við orðið fyrir hernámi Þjóðverja eða Sovétríkjanna á sínum tíma þá væru viðhorfin önnur. Það er náttúrulega mikil hræsni að vera aðili að hernaðarbandalagi og vilja svo ekki taka neinn þátt í vörnum síns eigins land, hvorki í mannskap eða kostnaði. Helst höfum við viljað græða á öllu saman. Þjóðarframleiðsla Íslands er margföld á við sum Natólönd eins og Svartfjallaland 600 þúsund manna þjóð sem er með fjórðung af þjóðarframleiðslu Íslands eyðir um 2,5% af sinni þjóðarframleiðslu til varnarmála og heldur úti um 2300 manna herliði. Er eðlilegt að við séum að ætlast til þess að aðrir séu að verja okkur þegar við höfum engan vilja til þess sjálf.
    -1
  • Greinin er afleit. Baldur og aðrir hernaðarsinnar verða spyrja sig hverjir ættu að ráðast á Ísland og hvers vegna. Eini hvatinn fyrir erlent herlið á Íslandi er hermang fjármálaelítunnar. Nostalgían liggur m.a. í því að geta selt ameríska hernum t.d. málun á íbúðablokk á sama verði og það kostar að byggja slíka blokk í Reykjavík. Þannig gerðust hlutirnir í herstöðinni á Miðnesheiði á hernámsárunum.
    1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Varð skugginn af sjálfri sér
3
Móðursýkiskastið#6

Varð skugg­inn af sjálfri sér

Í þess­um loka­þætti Móð­ur­sýkiskasts­ins fá­um við að heyra frá konu sem var sett á lyf sem gætu hafa haft mjög nei­kvæð áhrif á heilsu henn­ar. Lyf sem henni voru gef­in við sjúk­dómi sem svo kom í ljós að hún var ekki með. Hún gekk á milli lækna í ald­ar­fjórð­ung áð­ur en hún fékk rétta grein­ingu. Ragn­hild­ur Þrast­ar­dótt­ir hef­ur um­sjón með þáttar­öð­inni. Hall­dór Gunn­ar Páls­son hann­aði stef og hljóð­heim þátt­anna. Þátt­ur­inn í heild sinni er að­eins að­gengi­leg­ur áskrif­end­um Heim­ild­ar­inn­ar. Áskrift má nálg­ast á heim­ild­in.is/askrift.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Við erum ekkert „trailer trash“
1
VettvangurHjólhýsabyggðin

Við er­um ekk­ert „trailer trash“

Lilja Kar­en varð ólétt eft­ir gla­sa­frjóvg­un þeg­ar hún bjó á tjald­svæð­inu í Laug­ar­daln­um og á dög­un­um fagn­aði dótt­ir henn­ar árs af­mæli. Af­mæl­is­veisl­an var hald­in í hjól­hýsi litlu fjöl­skyld­unn­ar á Sæv­ar­höfða, þar sem þær mæðg­ur búa ásamt hinni mömm­unni, Frið­meyju Helgu. „Okk­ar til­finn­ing er að það hafi ver­ið leit­að að ljót­asta staðn­um fyr­ir okk­ur,“ seg­ir Frið­mey, og á þar við svæð­ið sem Reykja­vík­ur­borg fann fyr­ir hjól­hýsa­byggð­ina.
Ráðuneyti keypti danska hönnunarsófa fyrir 5,9 milljónir
2
Viðskipti

Ráðu­neyti keypti danska hönn­un­ar­sófa fyr­ir 5,9 millj­ón­ir

Há­skóla-, ný­sköp­un­ar- og iðn­að­ar­ráðu­neyt­ið hef­ur und­an­farna mán­uði keypt hús­gögn úr hönn­un­ar­versl­un, sem þar til ný­lega hét Norr11, að and­virði rúm­lega tíu millj­óna króna. Um er að ræða sam­sett­an sófa, kaffi­borð, borð­stofu­borð og fleiri hús­gögn að and­virði 10,2 millj­óna króna. Þar af er 1,3 millj­óna króna sófi inni á skrif­stofu ráð­herra.
„Þetta er eins og að búa í einbýlishúsi“
4
VettvangurHjólhýsabyggðin

„Þetta er eins og að búa í ein­býl­is­húsi“

Berg­þóra Páls­dótt­ir, Bebba, hef­ur un­un af því að fá gesti til sín í hjól­hýs­ið og finnst þetta svo­lít­ið eins og að búa í ein­býl­is­húsi. Barna­börn­in koma líka í heim­sókn en þau geta ekki far­ið út að leika sér í hjól­hýsa­byggð­inni í Sæv­ar­höfð­an­um: „Þau skilja ekki af hverju við vor­um rek­in úr Laug­ar­daln­um og sett á þenn­an ógeðs­lega stað.“
Innsæi Karenar öskraði: „Það er eitthvað að“
5
ViðtalMóðursýkiskastið

Inn­sæi Kar­en­ar öskr­aði: „Það er eitt­hvað að“

Þeg­ar Kar­en Ösp Frið­riks­dótt­ir lá sár­kval­in á kvenna­deild Land­spít­ala ár­ið 2019 var hún sök­uð um verkjalyfjafíkn. Hún hafði þá ver­ið verkj­uð síð­an hún var níu ára. Geð­lækn­ir leiddi að því lík­um að verk­ir henn­ar tengd­ust gervióléttu. Tveim­ur ár­um síð­ar fékk hún loks stað­fest­ingu á því að hún væri með lík­am­leg­an sjúk­dóm. Hún von­ar að heil­brigðis­kerf­ið og sam­fé­lag­ið læri af henn­ar sögu.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár