Aðfaranótt jóladags var ég flutt með sjúkrabíl á bráðamóttöku eftir að hafa fengið svo heiftarlegt tak í bakið í kjölfar Covid-hóstakasts að ég sá vart út úr augum fyrir verkjum. Heima biðu maðurinn minn og tveggja ára dóttir mín. Ég var sárþjáð og óttaðist að verkirnir myndu buga mig andlega, enda kom í ljós að það hafði hreinlega sprungið diskur í hryggjarliði þar sem fyrir var gamalt brjósklos sem ég hef glímt við eftir að ég átti dóttur mína fyrir tveimur árum. Gamla brjósklosið lafir víst niður og ýtir á taugar og svo var komin útbungun í öðrum hryggjarlið líka.
Það sem gerði allt ferlið snúnara er að ég á von á barni, er gengin 28 vikur. Því þurfti að taka tillit til þess í verkjastillingu og allri umönnun. Ég var á spítalanum í tólf daga og fékk að fara heim á þrettándanum. Þessir tólf dagar reyndu mjög á mig líkamlega enda sársaukinn ólýsanlegur og ég algerlega ósjálfbjarga. Glíman við geðið var þó stærsta áskorunin. Ég fann til vegna þess að ég gat ekki verið með dóttur minni yfir hátíðarnar, ég óttaðist um ófætt barn mitt og ég var hrædd um að ná ekki bata.
„Lífið er ekki á morgun eða í gær heldur hér og nú“
Ég hef glímt við kvíða og þunglyndi frá barnsaldri. Ég þekki því vel einkennin. Líkaminn hefur líka verið veikur. Eftir að ég átti dóttur mína sumarið 2020 hef ég verið með brjósklos í baki sem hefur reynst mér erfitt.
Fyrir þann tíma hafði ég um árabil glímt við eftirköst meiðsla á hné sem ég varð fyrir á körfuboltaæfingu árið 2013. Fimm árum eftir það fór ég í aðgerð sem hjálpaði mikið. Brjósklosið er erfiðara verkefni og flóknara. Ég hef alla tíð hreyft mig mikið en vegna bakverkja þurfti ég að draga mjög úr allri hreyfingu. Ég er búin að vera í endurhæfingu vegna brjósklossins í tæpt ár og hún hafði gengið vonum framar. Vissulega blóð, sviti og fullt af tárum og ákveðið sorgarferli en líka sáttaferli. Ég hef unnið markvisst að því að finna leiðir til að sætta mig við að líkaminn minn hefur breyst til hins verra, hann er ekki eins frískur og hann var.
„Þegar ég lá á spítalanum á jóladag og það örlaði á sjálfsvorkunn í gegnum vítisverkina sótti ég bjargráðin mín“
Frá árinu 2016 hef ég notað núvitund til að komast í gegnum erfiða lífsreynslu, hver sem hún er. Ég hef á þessum tíma lært að þolinmæðin þrautir vinnur flestar, að sjálfsmildi er lykillinn að léttari huga og hve gott það er fyrir andlega líðan að minna mig stöðugt á að lífið er ekki á morgun eða í gær heldur hér og nú.
Þegar ég lá á spítalanum á jóladag og það örlaði á sjálfsvorkunn í gegnum vítisverkina sótti ég bjargráðin mín sem felast fyrst og fremst í því að leita inn á við. Það sem ég geri er að spyrja sjálfa mig hvernig mér líði, hvað ég er að hugsa og ég leita eftir hættumerkjum, hvort ég væri nokkuð að fela tilfinningar eða afneita. Þegar ég gerði þetta á spítalanum sá ég sjálfsniðurrif og afneitun. Áður en ég fékk niðurstöðurnar um að diskur í hryggjarliði hefði sprungið var ég búin að sannfæra mig um að það væri ekkert að. Ég væri örugglega að ímynda mér eða með svona lágan sársaukaþröskuld, annað fólk hefði nú bara bitið á jaxlinn og hrist þetta af sér. Ég leyfði þessum hugsunum að koma en gaf þeim ekki leyfi til að taka sér bólfestu í huganum.
„Ég óttaðist um ófætt barn mitt og ég var hrædd um að ná ekki bata“
Þessar hugaræfingar virkuðu. Ég náði að vera í núinu og svekkja mig ekki of mikið á því að allur batinn sem ég hafði náð var fokinn út um gluggann. Mér fannst líka dálítið fyndið að hafa farið í sjúkrabíl á jólanótt og dvalið á bráðamóttökunni í jólanáttfötum. Það hlýtur að vera góð saga að segja seinna, hugsaði ég. Það hjálpar mér líka mjög mikið að tala um þetta við ástvini mína og svo hef ég verið að deila ferlinu á lexaheilsa miðlinum mínum.
En það sem hefur hjálpað mér mest er að hugsa bara um einn dag í einu eða jafnvel hálfan dag í einu. Ég er ekkert að spá í morgundaginn eða gærdaginn. Að vera í núinu, eins og sagt er, hefur bjargað mér. Því dagarnir eru mismunandi, andleg líðan er upp og niður og verkir líka. Svo hef ég verið að iðka þakklæti. Ég er þakklát fyrir ótrúlega margt og það er gott að horfa á það sem er jákvætt og gott. Án þess að vera að fara inn í eitraða jákvæðni sem getur verið mjög villandi og haft slæmar afleiðingar. Þegar mér líður illa gengst ég við því, viðurkenni þær tilfinningar eins og aðrar en bæli þær ekki niður. Kúnstin er að festast ekki í sorg eða kvíða. Ég upplifi enn slæma daga og það er allt í lagi. Ég leyfi öllum tilfinningunum að koma og fara og sé svo hvað morgundagurinn býður mér upp á. Dálítið spennandi.
Athugasemdir (1)