Þá er loksins komið að lokum ársins tuttugu hundruð tuttugu og tvö!
Árið 2022 var að mörgu leyti erfitt ár. Þetta var fyrsta árið í þó nokkurn tíma sem að mestu leyti var laust við samkomutakmarkanir. En enn þá má finna fyrir áhrifum heimsfaraldursins Covid-19 í íslensku samfélagi. Einnig er búin að vera spenna í heiminum síðasta árið. Stríð og yfirvofandi efnahagskreppa í Evrópu.
Fátt kom þó Twitter í meira uppnám en tilkynning forstjóra Coca-Cola á Íslandi um að hætta ætti framleiðslu á Svala í lok árs. En Svali hefur fylgt íslensku þjóðinni í meira en fjörutíu ár og mörgum finnst Svali mikilvægur hluti af íslenskri menningu. Coca-Cola vildi meina að Svali væri barn síns tíma en þjóðin mótmælti því. Fólk fór að kaupa Svala í rosalegu magni, gleymdi drykkur barnæsku okkar allra varð það eina sem fólk talaði um. Stofnaður var undirskriftalisti á netinu sem fékk nokkur þúsund undirskriftir þar sem fólk krafðist að hætt yrði við að stöðva framleiðslu á Svala.
„Hverju er hægt að treysta ef ekki er hægt að treysta á Svala, drykk sem fylgt hefur þjóðinni lengur en farsíminn?“
Þetta minnir að mörgu leyti á lok ársins 2021 en í nóvember í fyrra var Bónussvíninu skipt út fyrir nýrra snyrtilegra svín. Fólki fannst þessi breyting rosaleg þar sem Bónussvínið er íslenskt icon og ekki hægt að breyta því sísvona.
Heimurinn breytist hraðar nú en nokkurn tímann áður með endalausum tæknibylgjum og netinu að gefa aðgang að öllu því sem okkur gæti dreymt um. Það er bæði frábært og spennandi, en einnig yfirþyrmandi. Ekkert virðist öruggt, heimurinn er síbreytilegur og ekki alltaf bara að breytast til hins betra. Hverju er hægt að treysta ef ekki er hægt að treysta á Svala, drykk sem fylgt hefur þjóðinni lengur en farsíminn?
Ég óska öllum þeim sem kvíða fyrir nýja árinu alls hins besta og minni þau á að Svali var aldrei neitt sérstaklega góður á bragðið.
Athugasemdir (1)