Nauðsynlegt er að opna frekari umræðu um fæðingarþunglyndi í íslensku samfélagi, bæði þegar kemur að almenningi en ekki síður innan heilbrigðisgeirans. Ekki síst er mikilvægt að sinna ungum mæðrum sérstaklega í þessum efnum. Þetta segir Lísbet Dögg Guðnýjardóttir en hún hefur glímt við mjög erfiða andlega líðan síðustu mánuði eftir að hafa eignast dóttur sína í maí síðastliðnum.
Lísbet er viðmælandi Eddu Falak í hlaðvarpsþættinum Eigin konur. Lísbet eignaðist dóttur sína rétt nýlega orðin 19 ára í vor sem leið. Hún segir að meðgangan hafi verið henni mjög erfið, andlega og líkamlega. Bæði syrgði hún það sem hún væri að missa af, svo ung sem hún væri, en einnig varð hún mjög líkamlega veik á meðgöngunni. Fleira kom þó til sem hafði mjög slæm áhrif á líðan hennar. Lísbet lýsir því að hún hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi í sambandi og að meintur gerandi hennar hafi hafið nám í sama skóla og hún, skömmu áður en hún varð ólétt. Það hafi valdið henni afskaplega mikilli vanlíðan, svo mikilli að hún hafi þurft að draga sig úr námi að miklu leyti, sem og úr félagslífi.
Ekki planið að verða ólétt
Lísbet ætlaði sér sannarlega ekki að verða ólétt svo ung. „Ég kemst ekki að því að ég sé ólétt fyrr en ég er komin sjö vikur á leið. Ég var búin að vera veik í tvær vikur og ég kemst ekki að því fyrr en vinkona mín skipaði mér að taka óléttutest. Við vorum að fara á djammið og hún sagði bara: Sorrý, þú kemur ekki með mér á djammið fyrr en þú sýnir mér neikvætt óléttutest. Ég tek testið og það koma tvær eldrauðar línur. Það var svolítið sjokk því það var ekki planið.“
„Þær hlustuðu aldrei á mig, sama hversu oft ég kom grenjandi í skoðun“
Lísbet var töluvert veik fyrsta þriðjung meðgöngunnar. Í kringum tuttugustu viku meðgöngu datt hún og það orsakaði grindargliðnum sem ágerðist og ágerðist. Þá fékk hún mikla bjúgsöfnun. Ljósmæður hafi sagt henni að þetta væri eðlilegt. „Þær vildu alltaf meina að það væri ekki neitt að mér, ég væri svo ung og svo hraust. Svo ég tók bara þrjóskuna á þetta. Það er ekki fyrr en mamma fer að skipta sér að að það er talað um að ég sé mögulega með meðgöngueitrun. Þær hlustuðu aldrei á mig, sama hversu oft ég kom grenjandi í skoðun.“
Ástand Lísbetar var orðið mjög erfitt, hún lýsir því að hún hafi til að mynda ekki getað klætt sig sjálf í sokka. Hún hafi orðið mjög bjúguð á meðgöngunni. Þá hafi andlegt ástand hennar farið mjög versnandi. Þegar grindargliðnunin ágerðist fór Lísbet að líða mjög illa með sig auk þess sem henni leið eins og hún væri útundan í félagslífi. „Ég eiginlega bara gleymdist. Vinkonur mínar hafa alveg sagt við mig: Sorry hvað ég var ekki nógu dugleg að bjóða þér með. Ég var öll föstudags og laugardagskvöld heima grátandi að horfa á snöpp frá þeim, þar sem var ógeðslega gaman en ég var bara föst upp í rúmi. Ég var líka bara að syrgja það að eiga aldrei aftur þetta líf. Nú væri komin ábyrgð á mig og ég yrði bara að standa mig.“
Gerandi hóf nám við sama skóla
En fleiri þættir ollu Lísbet vanlíðan á meðgöngunni. Hún lýsir því að hafa orðið fyrir fyrir kynferðisofbeldi og þurft að vera með geranda sínum í skóla. Ofbeldið segir Lísbet hafa átt sér stað þegar hún var 14-15 ára gömul. „Við vorum í sambandi, eða eins miklu sambandi og hægt er að vera í þegar maður er 14-15 ára. Það gekk svolítið mikið á þar. Síðan hættum við saman og ég segi við bestu vinkonu mína og vin minn: Ég held að þetta hafi ekki verið heilbrigt. Þau spurðu hvað ég meinaði og ég svaraði því til að ég héldi, miðað við hlutina sem voru í gangi, að sambönd ættu ekki að vera svona.“
Lísbet lýsir því svo að hún hafi fengið símhringingu frá manninum sem upplýsti hana um að hann hyggðist hefja nám í Fjölbrautarskóla Suðurlands (FSU) þar sem hún stundaði nám. „Ég man ekki nákvæmlega hvað gerðist í þessu símtali en ég man að hann sagði mér að hann væri að koma í FSU. Þá var farið að spyrjast út að ég væri að segja að sambandið hefði verið svona eins og það var, eins og krakkar eru á þessum aldri. Hann segir við mig að ég verði bara að passa mig. Ég missi það bara. Ég er ennþá í skólanum og fer bara í eitthvað panicmode. Ég fer að hágráta, ég var ein og fólk hugsaði væntanlega: Hvað er að þessari gellu? Ég var öskurgrátandi og vissi ekki hvað ég ætti að gera.“
„En ég var alltaf að fara að mæta honum á göngunum“
Vinkona Lísbetar kom þá að og fór með hana úr skólanum. Lísbet segist lítið muna frá þessu en það næsta sem hún muni sé að hún hafi verið að segja móður sinni frá öllu sem hefði gerst, það hafði hún ekki gert áður.
Meinut gerandi Lísbetar hóf svo skólagöngu í FSU. Móðir Lísbetar upplýsir skólastjórnendur um hvað hefði gengið á í sambandinu og segir hún að stjórnendur hafi af veikum mætti reynt að koma því svo fyrir að þau væru ekki saman í tímum. „En ég var alltaf að fara að mæta honum á göngnum.“
Lísbet lýsir því að hún hafi tekið sé hálft ár í pásu frá skólanum en verið áfram í tveimur fögum. Hún segir að það hafi lagst þungt á hana hvernig henni hafi fundist hún nauðbeygð að víkja og draga sig út úr félagslífi og skólastarfi. „Ég man að ég sagði við mömmu: Mig langar ekki að lifa lengur, mér finnst svo ósanngjarnt hvað hann fær alltaf allt og ég þarf alltaf að víkja frá. Ég get sagt að ég væri ekki hér ef ég hefði ekki mömmu því. Hún er minn stærsti klettur og hefur alltaf verið.“
Ósátt við samskipti við heilbrigðisstarfsfólk
Stuttu eftir þetta verður Lísbet ólétt sem fyrr segir. Hún var þá í sambandi sem hafi verið gott en þau hafi verið nýbyrjuð saman, ung og hún að díla við sínar byrðar. Þau hafi því tekið sameiginlega ákvörðun um að hætta saman. „Þetta var bara ekki að ganga, það voru alltaf svona lítil rifrildi sem ég held að hafi verið vegna þess hvað mér leið ógeðslega illa. Ég var alltaf að reyna að finna eitthvað að. Ég veit alveg að ég var leiðinleg við hann og ég hef alveg sagt fyrirgefðu, ég veit hversu leiðinleg ég var við þig.“
Sem fyrr segir var meðgangan Lísbetar erfið, og þá fannst henni hún ekki fá nægan stuðning eða njóta nægilegs skilnings hjá heilbrigðisstarfsfólki. „Mér finnst líka heilbrigðiskerfið hérna á Íslandi þurfa aðeins þurfa að skoða sig. Ljósmæðurnar voru alltaf að segja mér að ég væri svo ung og hraust að það gæti ekki verið að það væri eitthvað að mér. Og síðan fæði ég og þær voru bara: Úff. Af því að ég fæði krakka sem er næstum því 20 merkur. Og þær voru bara: Ókei, við hefðum kannski þurft að gera fleiri rannsóknir. Þær gerðu bara ráð fyrir að ég væri einhver vælukjói.“
„Barnaverndarnefnd á eftir að hringja, taka hana af mér“
Lísbet segir að þegar hún hafði átt barnið sitt hafi henni verið búið að líða ömurlega um langa hríð. Hins vegar hafi fæðingin værið mögnuð upplifun sem fyllti hana sjálfstrausti, trú á að hún gæti gert allt. Aftur á móti hafi hún ekki upplifað gleðina við að sjá barnið sitt nýfætt. „Hún var lögð á bringuna á mér og ég var bara svona, og hvað nú? Meira bara svona, ómægod ég gat þetta. Smá svona egóbúst. Þannig að mér finnst alveg þurfa að opna meira umræðuna um það að það sé allt í lagi að líða svona. Af því ég var bara, ómægod, það er eitthvað að mér. Barnaverndarnefnd á eftir að hringja, taka hana af mér.“
Allt í lagi að fá hjálp
Lísbet tengdi sem sagt ekki við dóttur sína nýfædda, fann ekki fyrir neinum tilfinningum í hennar garð. Hún segist halda að það sé vel skiljanlegt eftir meðgönguna sem var henni svo erfið.
„Fyrstu tvo mánuðina eftir að ég átti þá grenjaði ég allan daginn, alla daga. Bara útaf vanlíðan. Og ég náði ekki að tengjast stelpunni minni strax. Mér fannst ég ömurleg móðir. Ég hugsaði: Ég mun aldrei elska barnið mitt eins og á að elska það. Og mér fannst hún eiginlega smá vera fyrir, mig langaði að fara að djamma og eitthvað svoleiðis. Hún er núna hjá pabba sínum, og ég er bara, er allt í góðu. Og þetta kemur allt. En þetta er ógeðslega erfitt.
Ég fór til læknis til að hækka þunglyndislyfja skammtinn minn og hann sagði við mig: Það er allt í lagi þó þú takir þér pásu. Þú getur alveg látið stelpuna til mömmu þinnar eða kærastans þíns og þú mátt alveg fá tíma fyrir þig. Af því að ég var bara á einhverjum yfirsnúning, það getur enginn annar hugsað um hana, ég get bara hugsað um hana. En samt náði ég ekki þessari tengingu við hana þannig að það var bara ógeðslega mikil byrði að þurfa að hugsa um hana. Þetta var bara mjög erfitt.“
Botninum náði Lísbet þegar hún sat með dóttur sína í rúminu heima hjá sér að reyna að gefa henni brjóst, sem gekk mjög illa. „Ég brotnaði niður heima í rúminu, að reyna að gefa henni brjóst og brjóstagjöfin gekk bara ömurlega. Bæði út af því að ég náði ekki neinni tengingu við hana, og leið bara ömurlega. Og mamma kom inn og ég var bara: Ég get þetta ekki. Ég get ekki verið mamma. Ég get ekki lengur lifað. Ég var bara svo ótrúlega brotin. Þá fer mamma að skoða með mér sálfræðinga og áfallameðferð og það rann upp fyrir mér að ég gæti ekki lengur verið bara að hugsa um sjálfa mig, nú á ég einstakling sem ég þarf líka að hugsa um. Og ef ég er svona ömurlega stödd þá mun henni ekki líða vel. Þannig að ég var, ókei gerum eitthvað í þessu.“
Lísbet hefur síðan sótt áfallameðferð hjá EMDR stöðinni sem hún segir að sé að virka mjög vel fyrir sig. Hún hefur tjáð sig um líðan sína á Tiktok og fengið töluverð viðbrögð við því, konur á ýmsum aldri hafa þakkað henni fyrir að opna umræðuna. „Það er allt í lagi að fá hjálp. Það þarf ekki alltaf að vera bara, ég get þetta ein. Bara þó það sé ekki nema mamma þín. Bara fáðu einhverja aðstoð.“
Athugasemdir