Fyrri aukaspurning:
Hér að ofan má sjá mynd frá útför karls nokkurs fyrir allnokkrum áratugum. Þið gætuð prófað að klikka á myndina til að sjá betur ótrúlegan mannfjöldann. Spurningin er: Hvern er verið að jarða?
***
Aðalspurningar:
1. Fyrir hvaða stofnun starfaði Vladimir Pútin 1975-1990?
2. Um og upp úr 1970 var í miklum metum hjá sumum róttæklingum lítil bók sem kölluð var Rauða kverið. Það hafði að geyma tilvitnanir í stjórnmálamann sem þá var upp á sitt áhrifamesta. Hver var hann?
3. Hverjir tóku við hervernd Íslands árið 1941, eins og það var orðað?
4. Rétt rúmlega helming allra beina í mannslíkama er að finna í fjórum tiltölulega litlum knippum — ef svo má orða það. Hvaða líkamspartar eru það?
5. Upp af hvaða firði, flóa, vík eða vogi gengur Aðaldalur?
6. Rothögg í boxi þýðir ekki endilega að einhver rotist, heldur bara svo öflugt högg að annar keppandi er þar með úr leik. Hvað nefnist samsvarandi lokahnykkur í júdó?
7. Árið 1997 dó ítalski tískukóngurinn Gianni Versace fyrir aldur fram, aðeins fimmtugur. Hvað henti hann?
8. Ögmundur Jónasson var um tíma fréttamaður, síðar varð hann þingmaður og ráðherra um tíma. En hann var líka formaður í fjölmennu stéttarfélagi um tíma. Hvaða félag var það?
9. Ríki eitt samanstendur af tveimur þokkalegum eyjum og heitir eftir báðum. Þótt ríkið hafi verið nýlenda Breta frá því um 1800 og þar til það öðlaðist sjálfstæði 1962, þá hafði það í nokkrar aldir þar á undan verið undir stjórn Spánar og höfuðborgin í landinu heitir reyndar ennþá eftir Spáni! Ríkið var fámennasta landið sem hafði komist á HM í fótbolta karla áður en það met var slegið af Íslendingum. Hvaða ríki er þetta?
10. Í hvaða hafi er þetta eyríki annars?
***
Seinni aukaspurning:
Hver er þetta?
****
Svör við aðalspurningum:
1. KGB.
2. Maó Zedong.
3. Bandaríkjamenn.
4. Hendur og fætur. (27 bein eru í hvorri hendi, 26 í hvorum fæti, 106 alls, en alls eru beinin 206.)
5. Skjálfanda.
6. Ippon.
7. Hann var myrtur.
8. BSRB.
9. Trínidad og Tóbago.
10. Karíbahafi.
***
Svör við aukaspurningum:
Á efri myndinni er verið að jarða Stalín.
Á neðri myndinni er Hildur Guðnadóttir tónskáld.
Athugasemdir