Íslenskir notendur samfélagsmiðilsins TikTok hafa undanfarna daga gagnrýnt harðlega dreifingu kynlífsmyndbands á miðlinum. Að því fram kemur er um að ræða myndband af fólki með þroskahömlun. Landssamtökin Þroskahjálp hafa töluverðar áhyggjur af sínum skjólstæðingum og segja þörf á verulega aukinni fræðslu og vitundarvakningu um hættur í stafrænum heimi. Vonir standa til að stjórnvöld stígi inn og styðji við samtökin í þeim efnum.
Fjöldi íslenskra notenda samfélagsmiðilsins TikTok hafa gagnrýnt dreifingu annarra notenda á myndbandinu sem um ræðir. Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt dreifingu myndbandsins er Ingveldur Þóra Samúelsdóttir, en hún birti pistil þess efnis á samfélagsmiðlinum sjálfum. Ingveldur bendir í pistli sínum á að engu máli skipti hvaða augum fólk líti annað fólk, það eigi allir sömu virðingu skilið. Þá sé það að rakka fólk niður og gera grín að því fyrir hvað það geri í sínu einkalífi óásættanleg hegðun.
„Það að tveir fullorðnir einstaklingar hafi tekið þá ákvörðun að stunda kynlíf og taka það upp, með samþykki hvort frá öðru, [...] það kemur þér bara andskotans ekkert við hvað það kýs að gera,“ segir Ingveldur meðal annars og er, sem fyrr segir, fráleitt sú eina sem hefur gagnrýnt dreifingu myndbandsins.
Getur varðað fangelsi allt að fjórum árum.
Dreifing myndbandsins sem um ræðir er ólögleg. Samkvæmt almennum hegningarlögum skal hver sá sem dreifir eða birtir myndefni af nekt eða kynferðislegri háttsemi annarra án hans samþykkis sæta sektum eða fangelsi allt að fjórum árum. Tilgreint er að sé slíkt brot framið af gáleysi varði það sektum eða fangelsi allt að einu ári.
„Við höfum auðvitað áhyggjur af okkar skjólstæðingum“
Landssamtökin Þroskahjálp telja dreifingu á myndbandinu, sem og önnur viðlíka mál, mikið áhyggjuefni. „Við höfum auðvitað áhyggjur af okkar skjólstæðingum, varðandi þær hættur sem eru til staðar í þessum heimi. Við höfum áhyggjur af þessu sem þú nefnir hér, myndbirtingum eins og þessum, en líka er til staðar hætta á að fólk sé afvegaleitt en vegna fötlunar og aðstæðna sinna er þessi hópur berskjaldaður. Við erum þá að tala um hættuna á því að einhverjir óprúttnir aðilar nái sambandi við fólk með hamlanir og nýti sér það með einhverjum hætti, hvort sem er með kynferðislegum hætti eða öðrum,“ segir Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri samtakanna.
Unnur Helga Óttarsdóttir formaður Þroskahjálpar segir að vitanlega geti allt fólk tekið ákvarðanir eða gert eitthvað sem það hefði ekki átt gera, eða sjái eftir. „En það er áhyggjuefni að fólk með fatlanir eða raskanir getur í einhverjum tilvikum verið líklegra en annað til að láta undan þrýstingi.“
Bæði Unnur og Árni Múli benda á að fólk með þroskahömlun hafi sjálfsákvörðunarrétt, sem ekki megi af þeim taka. Það geti hins vegar þurft meiri stuðning en aðrir til að fara með hann. Því sé gífurlega mikilvægt að auka fræðslu fyrir þann hóp. Landssamtökin Þroskahjálp hafa haft frumkvæði að því að vekja athygli á þörfinni á þjálfun og fræðslu fyrir sína umbjóðendur varðandi nýtingu upplýsingatækni, sem og hver ábyrg nýting þeirrar tækni er. Árni Múli segir að rætt hafi verið við stjórnvöld um styrki til að auka verulega fræðslu vegna hættunnar sem er samfara notkun netsins. „Fólk þarf að skilja að setji það eitthvað inn á netið er það komið þangað til að vera og getur farið í dreifingu um allan heim. Fólk þarf að skilja afleiðingarnar,“ segir Unnur og bendir einnig á mikilvægi þess að aukin verði fræðsla um heilbrigð samskipti á netinu.
Fatlaðir verða fyrir hatursorðræðu
Þrátt fyrir að Þroskahjálp séu meðvituð um þessar hættur hafa samtökin ekki haft tök á að hleypa af stokkunum stórfelldri vitundarvakningu um málaflokkinn. Árni Múli segir að unnið sé að því og samtökin séu bjartsýn á að stuðningur til þess fáist. Útbúa þurfi fræðusluefni sem nái til sem flestra, sem sé sniðið að mismunandi þörfum fólks með þroskahamlanir, sem og að samfélaginu öllu. Náist fjármagn til þess sjá samtökin fyrir sér að slíkt fræðsluefni verði nýtt til kennslu og fræðslu í skólum en einnig að það yrði birt á samfélagsmiðlunum sjálfum. „Þetta er flókið viðfangsefni. Það eru mikil tækifæri í stafrænni þróun fyrir okkar skjólstæðinga en það eru hættur líka, og kannski meiri en fyrir aðra hópa,“ segir Árni Múli.
„Ég held það gleymist oft að fatlað fólk verður fyrir hatursorðræðu“
Mörg dæmi má sjá á TikTok um að notendur geri gys að fólki sem bindur ekki bagga sína sömu hnútum og samferðamenn sínir, meðal annars fólki sem er með þroskahamlanir. Þau Árni Múli og Unnur segja að Þroskahjálp sé meðvituð um slíkt. „Það má setja þetta í samhengi við umræðu um hatursorðræðu, sem vissulega er stórt orð. En ef fólk er viljandi að gera gys að einstaklingi vegna fötlunar hans, þá er það hatursorðræða. Það er verið að lítillækka einstaklinginn vegna þess. Þetta er mikið áhyggjuefni,“ segir Árni Múli og bætir við að Þroskahjálp séu í samstarfi við starfshóp forsætisráðuneytisins sem vinni að því að greina hatursorðræðu.
„Ég held það gleymist oft að fatlað fólk verður fyrir hatursorðræðu, og ekki síst talsmenn fatlaðs fólks sem stíga fram og krefjast réttinda. Í því er fólgin bæði atlaga að persónum, að fólki með fötlun og atlaga að tjáningarfrelsinu. Það er stóralvarlegt því það getur dregið úr fólki og minnkar líkurnar á því að það treysti sér til að taka þátt í umræðu þar um. Þar er ekki um stóran hóp að ræða og þetta er mikið áhyggjuefni,“ segir Unnur.
Athugasemdir