Framboð Hildar Björnsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins í borginni, skilaði 1,6 milljóna króna hagnaði. Þetta kemur fram í uppgjöri framboðsins sem skilað var til Ríkisendurskoðunar og birtist á föstudag. Samkvæmt uppgjörinu verður hagnaðurinn af framboðinu lagður inn í félagið Frelsisborgin. Helsti keppinautur hennar skilaði líka afgangi en eyddi um hálfri milljón minna.
Mamma með hámarksframlag
Samkvæmt uppgjörinu styrktu 28 einstaklingar og sextán fyrirtæki framboð Hildar um samtals 10,9 milljónir króna. Móðir Hildar styrkti hana um 300 þúsund krónur, sem eru þau mörk sem kalla á að nafn styrkjanda sé gefið upp. Keyptar voru auglýsingar og kynningar fyrir 5,4 milljónir og rekstur kosningaskrifstofu kostaði 3,9 milljónir; samtals 9,3 milljónir.
Jón Skaftason, eiginmaður Hildar er skráður stjórnarformaður Frelsisborgarinnar, samkvæmt fyrirtækjaskrá Skattsins. Auk hans er Hildur sjálf í stjórn félagsins sem og Sandra Hlíf Ocares. Hún gaf kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins og sóttist eftir þriðja sæti en hafnaði í því áttunda.
Athugasemdir (1)