Þema þraut dagsins snýst um Pólland.
Fyrri aukaspurningin er þessi:
Myndin hér að ofan er tekin í nágrenni stórrar pólskrar borgar í suðurhluta landsins. Hvað er í frásögur færandi um það sem á myndinni sést?
***
Aðalspurningar:
1. Í hvaða pólsku borg upphófst verkalýðshreyfingin Samstaða með Lech Wałęsa í broddi fylkingar árið 1980?
2. Í suðurhluta Póllands rísa tveir fjallgarðar og skammt á milli þeirra. Hvað heita þeir? Nefna þarf báða.
3. Hvað heitir annars höfuðborg Póllands?
4. Pólskur fótboltakarl hefur undanfarinn áratug verið einn helsti markaskorari Evrópufótboltans og er nýgenginn til liðs við Barcelona frá Bayern München. Hvað heitir hann?
5. Allt frá 1386 til 1791 var Pólland í nánu en mis-formlegu og mis-virku sambandi við eitt nágrannaríkjanna og sambandsríki þeirra var eitt það allra stærsta í Evrópu á 17. öld. Hvaða land var þetta?
6. Árið 1795 hvarf Pólland af landakortinu þegar þrjú nágrannaríki luku við að skipta því á milli sín og leið á löngu þangað til sjálfstætt Pólland birtist aftur á landakortinu. Hvaða þrjú ríki voru þetta? Athugið að hér þarf að gæta nákvæmni í svari.
7. Ein manneskja fædd í Póllandi hefur bæði setið á Alþingi og í borgarstjórn Reykjavíkur. Hver er það?
8. Pólverjar hafa átt fjölda frábærra kvikmyndagerðarmanna og hér skal spurt um einn þeirra. Hann fæddist 1941 og lést langt fyrir aldur fram 1996. Þá var hann orðinn heimsfrægur fyrir magnaða sjónvarpsseríu sem hann gerði eftir Boðorðunum tíu og gerði líka kunnar kvikmyndir eins og Tvöfalt líf Veróníku og litaþríteikinn: Blár, Hvítur og Rauður. Hvað hét hann?
9. Þegar Jónas Hallgrímsson og félagar í Fjölni skrifuðu um Pólland á 19. öld þýddu þeir nafnið á íslensku, það er orðstofninn „pol“. Útgáfa Fjölnis af nafni Póllands náði þó ekki fótfestu, þótt rétt væri. Hvað vildu þeir kalla Pólland?
10. Kona ein fæddist í Zamość í Póllandi 1871, var af Gyðingaættum en hafði pólsku að móðurmáli. Hún var vinstrisinnuð og byltingarsinni og þurfti að gjalda fyrir það með lífinu 1919, reyndar ekki heima í Póllandi heldur í Þýskalandi. Hvað hét hún?
***
Og af því þetta eru nú allt svo léttar spurningar, þá er hér ein sérstök aukaspurning sem gefur stig kennt við pólska bæinn Szczebrzeszyn:
Pólland á landamæri að nokkrum ríkjum. Hvað eru þau mörg?
***
Seinni aukaspurning:
Hér að neðan má sjá einn frægasta Pólverja sögunnar. Hvað hét hann?
***
Svör við aðalspurningum:
1. Gdansk.
2. Súdetafjöll og Karpatafjöll.
3. Varsjá.
4. Lewandowski.
5. Litháen.
6. Prússland (Þýskaland getur því miður ekki talist rétt), Austurríki (það er hins vegar nógu nákvæmt!) og Rússland.
7. Pawel Bartoszek.
8. Kieślowski.
9. Sléttumannaland, en ég ætla að gefa líka rétt fyrir Sléttuland.
10. Rosa Luxemburg.
Svar við Szczebrzeszyn spurningunni:
Nágrannaríkin eru sjö: Þýskaland, Tékkland, Slóvakía, Úkraína, Belarús, Litháen og Rússland (Kaliningrad-hérað). Ekki er nauðsynlegt að hafa öll nágrannaríkin rétt, talan sjö er svarið sem gefur hið eftirsótta Szczebrzeszyn-stig.
***
Svör við aukaspurningum:
Fyrri myndin er tekin í frægum saltnámum. Stytturnar eru úr salti.
Neðri myndin er af Copernicusi.
Athugasemdir