Það hefur mikið verið rætt um að standa vörð um íþróttir kvenna upp á síðkastið. Nokkrir karlar hafa geyst fram á ritvöllinn og skrifað um þetta mikilvæga mál auk þess sem enn stærri hópur karla og kvenna ræðir þetta á af miklu andríki á samfélagsmiðlum. Og það er hárrétt að við þurfum að standa vörð um íþróttir kvenna.
Í gær bárust þær fréttir að þjálfarar Breiðabliks vilja banna stúlkum að sækja partý eftir mót af ótta við áreitni drengja frá öðrum heimshlutum. Ég á von á því að þessir ágætu íþróttaforkólfar sem hefur verið ó svo annt um öryggi kvenna í íþróttum stígi núna fram og fordæmi slíkar aðgerðir og krefjist þess í kjölfarið að öll lið taki af festu á slíkum málum og láti ábyrgðina hvíla á þar sem hún á heima. Hjá gerendum. Hjá þeim þjálfurum og liðum sem að líða og jafnvel upphefja ofbeldismenningu og kvenfyrirlitningu. Því að nákvæmlega þarna liggur vandi íþróttahreyfingarinnar. Í kerfisbundinni og rótgróinni kvenfyrirlitningu.
Þegar konur fóru að stunda íþróttir máttu þær helst ekki svitna. Og alls ekki reyna á sig. Og guð forði þeim frá því að fá tónaða vöðva. Það þótti svo ljótt. Og mögulega gera þær ófrjóar. Öll þátttaka þeirra miðaði að því að þóknast formerkjum karlaveldisins. Þegar ljóst var, eftir hálfa öld þar sem konur iðkuðu allskonar íþróttir, að konur ættu ekki á hættu að verða ófrjóar (ófrjósemi v/íþróttaiðkunar er reyndar karlavandamál en það var ekki viðurkennt fyrr en eftir tugþúsundir pungsparka) tók karl-konan við sem refsivöndur kvennaíþrótta. Til dæmis hætti kvennalið á Akureyri að mæta á handboltaæfingar á fimmta áratugnum eftir að hafa lesið grein í bandarísku blaði um konur sem væru svo góðar í íþróttum að þær færu að breytast í karlmenn. Þær voru hræddar við að þeim færi að vaxa skegg.
Á tímum kalda stríðsins fékk þessi ímynd byr undir báða vægi í formi kaldastríðsáróðurs. Íslensku blöðin spöruðu ekki hæðnina til að lýsa íþróttakonum frá Austur-Evrópu sem karlkonum og í rauninni neituðu að viðurkenna góðan árangur þeirra á þeim forsemdum að þær væru ekki alvöru konur. Lyfjanotkun austantjaldsríkjanna er auðvitað ekkert leyndarmál, en í þeim tilfellum þar sem um lyfjamisferli var að ræða voru það lyfin sem voru vandamálið, ekki kyn keppendanna.
Síðar meir þróaðist þessi hugmynd um íþróttakonuna sem einhverslags ekki-konu yfir í lesbíu og var þá sérstaklega tengd þeim íþróttum sem voru síðustu vígi karlanna, t.d fótbolta, bardagaíþróttum og kraftlyftingum. Skilaboðin voru alltaf þau sömu. Konum er óhætt að stunda íþróttir svo framarlega sem þær verði ekki of góðar í þeim, of grófar, of massaðar, þá verða þær ófrjóar/karlar/lesbíur. Á bak við þetta er svo hugmyndin um að konur séu á einhvern hátt ekki jafn verðugar körlum í íþróttum. Þær megi vera með, en ekki taka of mikið pláss. Þetta skapar frjóan jarðveg fyrir kerfisbundna mismunun sem í sinni ýktustu mynd verður að meðvirkri ofbeldismenningu eins og nýleg dæmi úr íslenskum íþróttaheimi sýna.
Hugmyndinn um karlinn sem „svindlar“ í íþróttum og keppir sem kona er rótgróið afsprengi þessarar hugsunar og blindar mörgum innan íþróttahreyfingarinnar sýn þegar kemur að því að ræða málefni trans kvenna af sanngirni. Sé íþróttahreyfingunni alvara með að standa vörð um sanngirni í kvennaíþróttum, þá er mál eins og það sem kom upp í Breiðablik það sem þarf að beina sjónum sínum að. Ekki trans konur sem vilja fá að stunda sína íþrótt í friði.
Höfundur er sagnfræðingur og fyrrverandi landsliðskona í sundi
Athugasemdir