Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 2 árum.

Ólígarkinn okkar

Kjör­ræð­is­mað­ur Ís­lands og fiskinn­flytj­andi í Hvíta-Rússlandi er kall­að­ur „veski“ ein­ræð­is­herr­ans Al­eks­and­ers Lukashen­ko. Ís­lensk stjórn­völd harð­lega gagn­rýnd og sögð hafa beitt sér gegn því að ESB beiti hann við­skipta­þving­un­um.

Andrei lá illa meiddur á steinsteyptu en ísilögðu torginu. Viðstaddir óttuðust hið versta. Kylfur, skildir og hermannastígvél óeirðalögreglunnar höfðu engu eirt. Um allt Sjálfstæðistorgið var illa áttað, alblóðugt fólk. 

Á öðrum stað í borginni hafði lögreglubíl verið lagt í veg fyrir og stöðvað för hóps á leið að torginu. Án nokkurar viðvörunar stukku fram óeinkennisklæddir menn með lambhúshettur og hófu að berja á fólkinu með kylfum; undir ærandi hvellsprengjum. Vladimir lá meðvitundarlítill eftir í götunni og nærstaddir nánast því drógu hann í skjól og þaðan í bíl sem flutti hann á sjúkrahús.

Frá torginu brunaði nú bíll í átt að þessu sama sjúkrahúsi. Í aftursætinu voru Andrei og kona hans, Iryna, sem lýsti atburðum kvöldsins í símtali: „Við höfðum ákveðið að koma öll saman og óska eftir því að stjórnvöld semdu við okkur. Síðan birtust öryggissveitirnar og án nokkurs fyrirvara tvístruðu þeir mannfjöldanum og fóru að berja fólk með kylfum. Maðurinn minn varð illa fyrir barðinu á þeim en ég slapp næstum ómeidd.“

Iryna komst ekki lengra með frásögnina sem flutt var í beinni útsendingu á rússneskri útvarpsstöð. Bíllinn hafði verið stöðvaður af öryggislögreglunni. Farþegarnir heyrðust kvarta undan harkalegum aðförum; það væri verið að snúa upp á hendur þeirra og berja þau í andlitið. Dimm rödd heyrist segja: „Tíkur“. Svo rofnar símtalið. 

Stuttu síðar koma svo útsendarar KGB á sjúkrahúsið og ræna Vladimir af sjúkrabeði sínu.  

Tvö ár líða þar til fjölskyldur þeirra hitta þá aftur. Andrei Sannikov og Vladimir Neklyaev höfðu unnið sér það eitt til saka að hafa boðið sig fram til forseta. Næstu árum eyða þeir í fangelsi þar sem þeir hafa verið pyntaðir og lífi þeirra stöðugt ógnað. Og jafnvel eftir að þeim er sleppt eru þeir ekki lausir. Fangelsisgarðurinn hefur bara stækkað. Þeim er meinað að yfirgefa heimaland sitt, Hvíta-Rússland.

Kannski mega þeir prísa sig sæla yfir því að sleppa svona „vel“. Yfirlýstir stjórnarandstæðingar hafa átt það til að hverfa alveg af yfirborði jarðar í Hvíta-Rússlandi. 

Hundruð manna voru fangelsuð og pyntuð eftir mótmælin á Sjálfstæðistorginu í Minsk að kvöldi kjördags 19. desember 2010, en fjallað er um þau og atburðina sem lýst var hér á undan í heimildarmyndinni „Á flótta undan síðasta einræðisherra Evrópu“.

Fimm forsetaframbjóðendur voru fangelsaðir í Hvíta-Rússlandi 2010. Þúsundir kröfðust þess að forsetakosningarnar yrðu endurteknar að kvöldi kjördags. Fyrir lokun kjörstaða höfðu yfirvöld lýst Aleksander Lukashenko réttkjörinn forseta. Hann hafði fengið hátt í 80% atkvæða, að því er fullyrt var.

Eins og í fyrri kosningum í landinu, frá sjálfstæði þess 1991 – og allt til dagsins í dag – höfðu alþjóðlegir eftirlitsmenn og stofnanir talið framkvæmd kosninganna meingallaða og tilkynnt úrslit, í besta falli hæpin. 

Ísland átti sinn fulltrúa í þessum kosningum. Kjörræðismaður Íslands var umboðsmaður forsetaframboðs Lukashenko og lagði sitt á vogarskálarnar til að tryggja áframhaldandi völd mannsins sem hefur sjálfur kallað sig síðasta einræðisherra Evrópu. 

Veski einræðisherrans

„Loðnuhrogn, sem Íslendingar veiða úr Atlantshafinu og Hvít-Rússar umbreyta í „kavíar í fyrsta gæðaflokki“, er fyrir matvælamarkaðinn bylting lík þeirri sem seinna varð Facebook. Hugmynd „Santa“ var fljótt nýtt um allan heim. Í augum íslenskra sjómanna, sem höfðu nánast frá tíma víkinganna átt í vandræðum með að koma í lóg stórum hluta afla síns, varð Moshensky nánast að þjóðhetju.“

Svona hefur honum verið lýst, íslenska kjörræðismanninum í Hvíta-Rússlandi. Einum ríkasta og áhrifamesta auðjöfur heimalands síns. Manninum sem sagður er einn nánasti bandamaður Aleksanders Lukashenko og í hópi manna sem uppnefndir eru „veski Lukashenko“.

Okkar maður MoshenskyAleksander Moshensky er talinn einn áhrifamesti og ríkasti Hvít-Rússinn. Hann hefur verið stórtækur í fiskviðskiptum við Íslendinga – ekki síst eftir að Rússar settu innflutningsbann á íslenskan fisk.

Þrátt fyrir að hann sé talinn einn áhrifamesti ólígarkinn í Hvíta-Rússlandi og hafa efnast í skjóli ólýðræðislegra stjórnvalda sem skeyta hvorki um lög né mannréttindi, eru íslensk stjórnvöld sögð hafa beitt sér ítrekað gegn því að þessi stórtæki fiskkaupandi sæti refisaðgerðum af hendi Evrópusambandsins. Sem taldar eru áhrifamesta vopnið gegn velgjörðarmanni hans, Aleksander Lukashenko. 

Kóngurinn af Brest

Aleksander Moshensky er fæddur árið 1970 og menntaður stærðfræðingur. Hann ólst upp í héraðinu Brest í vesturhluta Hvíta-Rússlands og er oft kallaður „kóngurinn af Brest“.

Konungsdæmi hans nær í dag langt út fyrir heimahéraðið. Ársvelta fyrirtækjasamsteypu hans er í kringum 220 milljarðar króna. Hún samanstendur af 40 fyrirtækjum, þar sem hátt í 25 þúsund manns starfa á starfsstöðvum í Rússlandi og Úkraínu auk Hvíta-Rússlands. 

Veldi Aleksanders Moshensky rekur upphaf sitt til ársins 1993. Faðir hans heitinn, Mikhael, stofnaði ásamt þýskum viðskiptafélaga, fyrirtæki sem flutti fyrst inn rækju og vann í neytendaumbúðir en síðan síld undir eigin vörumerki, Santa Bremor, sem er enn hryggjarstykkið í veldinu. Sonurinn tók við eftir fráfall föður síns um aldamótin og kynnti fljótt til sögunnar íslensk loðnuhrogn, sem brauðálegg, við miklar vinsældir. Santa Bremor er í dag risi í sjávarútvegi fyrrum Sovétríkjanna. Í landluktu landi.

Veldið heitir í dag Santa Group og er annað stærsta fyrirtæki Hvíta-Rússlands. Savutchkin, mjólkurvinnslan, er líkt og Santa Bremor, stór angi þess. Þriðja stærsta mjólkurvinnsla í Austur-Evrópu sem selur vörur sínar til fjölda landa. Keðja yfir 200 matvöruverslana, hótel og veitingastaðir eru einnig hluti af veldi Moshensky, auk vöruflutningafyrirtækis og stærstu matvælaheildsölu landsins.  

„Lukashenko var sá sem opnaði dyr Rússlands fyrir Moshensky“

Bestur í Belarus

Moshensky hefur ár eftir ár verið ýmist efstur á lista eða meðal efstu manna í vali á áhrifamestu mönnum í viðskiptalífi Hvíta-Rússlands. Það kom því eflaust fáum á óvart þegar Moshensky var í vali fjölmiðla í Hvíta-Rússlandi árið 2018 útnefndur fremstur meðal jafningja þegar velja átti þann athafnamann sem skarað hefði fram úr þann aldarfjórðung sem liðinn var frá sjálfstæði landsins. 

Efnahagslíf Hvíta-Rússlands er talið eitt það miðstýrðasta í heimi. Ólíkt því sem var í Rússlandi fylgdi lítil einkavæðing lokum Sovéttímans. Ríkið er því enn umsvifamikið og ráðandi á flestum sviðum og vald forsetans þar nánast ótakmarkað. Þess vegna eru umsvif Moshensky og auðsöfnun áhugaverð.

Þessu ægivaldi ríkisins fylgir svo spilling, ógagnsæi og misnotkun löggæslu og dómstóla. Það hefur því reynst jafn auðvelt að svipta menn eignum sínum eins og frelsi, fyrir litlar eða engar sakir. Því hafa fyrrum kollegar Moshensky  fengið að kynnast, þegar þeir féllu í ónáð í forsetahöllinni í Minsk. 

Vinir á góðri stundu Aleksander Lukashenko, einræðisherra Hvíta-Rússlands, afhendir nafna sínum, Moshensky, Föðurlandsorðuna árið 2013. Orðan er ein æðsta viðurkenning landsins.

En ekki Moshensky. Hann er í náðinni.

Þegar ríkasti maður landsins, og fram til þess, nánasti samstarfsmaður Lukashenko, Yury Chyzh, féll í ónáð árið 2016, sagði hvít-rússneski fjölmiðillinn charter97 Moshensky hafa tekið sæti Yuri. Haft var eftir ónafngreindum heimildarmönnum, að það væri ekkert leyndarmál að „Aleksander [Moshensky] væri uppáhald“ Lukashenko og fylgdi forsetanum jafnvel í árlegt skíðafrí til Sochi í Rússlandi.

Lukashenko hefur undanfarin ár vakið athygli í brekkum skíðasvæðanna í Sochi í Rússlandi, en þó ekki síður skíðafélagi hans, Vladimir Pútín Rússlandsforseti. Samband þeirra tveggja var löngum nokkuð stirt. En eftir því sem alþjóðasamfélaginu hefur ofboðið ástandið í Hvíta-Rússlandi hefur vinátta Rússlandsforseta við kollega sinn í Minsk vaxið. Og veitt Rússum færi á að nýta Hvíta-Rússland til innárasar í Úkraínu, sem dæmi.

Gaman samanVladimir Pútín, forseti Rússlands, og Aleksander Lukashenko, forseti Hvíta-Rússlands, skelltu sér einu sinni sem oftar saman í brekkurnar í Sochi í febrúar 2019.

Þetta batnandi samband leiðtoganna er, í sömu grein, sagt hafa nýst Moshensky í viðskiptum í Rússlandi, en þar á hann orðið stórt sjávarútvegsfyrirtæki auk þess sem fyrirtæki hans eiga þar orðið sinn stærsta markað. 

„Það vita allir að Lukashenko var sá sem opnaði dyr Rússlands fyrir Moshensky og veitti honum þar með stuðning til að hefja stórfelldan innflutning til Rússlands,“ var haft eftir ónafngreindum heimildarmanni, sem sagður var þekkja vel til, í frétt charter97.

Lukashenko gerði Moshensky að formanni sameiginlegs viðskiptaráðs Hvíta-Rússlands og Rússlands, sem stofnað var árið 2018. Formannsstólnum deilir Moshenski með rússanum Dimitry Mazepin, einum þekktasta ólígarka Rússlands, eiganda Uralkali efnarisans og aðalstuðningsaðila Haas-liðsins í Formúlu 1. 

Kollegar í RússlandiDmitry Mazepin, er einn þekktasti ólígarki Rússlands, en hann er vellauðugur og var helsti stðningsmaður Haas-liðsins í Formúlu 1. Nokkrum dögum fyrir innrásina í Úkraínu færði hann þó eignarhald annars kappakstursliðs yfir á breskt nafn. Haas-liðið hefur síðan sagt upp samstarfi við hann og rekið son hans, sem var annar ökumanna liðsins. Milli þeirra Mazepin og Vlaidimirs Putin er gott samband, sem sést best á því að Mazepin var kallaður til fundar með Putin, sama dag og sá síðarnefndi fyrirskipaði innrásina inn í Úkraínu. Kjörræðismaður Íslands deilir formennsku í viðskiptaráði Rússa og Hvít-Rússa með Mazepin.

Laurent Vinatier, sérfræðingur í málefnum fyrrum Sovétríkjanna, lýsti viðskiptalífi Hvíta-Rússlands í grein sem hann kallaði Árangur einræðisherrans árið 2012. Þar sagði Vinatier mikilvægasta hæfileika athafnamanns í landinu vera þann að geta haldist í náð hins eiginlega forstjóra alls viðskiptalífsins; Aleksander Lukashenko. Aleksander Moshensky er þar nefndur sérstaklega á nafn í þessu samhengi.

„Fyrir Lukashenko eru þeir fyrst og fremst verkstjórar sem sjá um að framfylgja skipunum hans“
Laurent Vinatier,
sérfræðingur í málefnum fyrrum Sovétríkja

Með leyfi forseta

Tengsl Moshensky við Lukashenko voru til umfjöllunar á fréttavefnum UDF, sem haldið er úti af samtökum stjórnarandstæðinga, árið 2018. Þar er upphaf veldisins rakið til aðgangs að tollfríu iðnaðarsvæði og skattfríðindum, sem úthlutað var til útvalinna af Lukashenko. Sjálf forsenda reksturs Santa Bremor er einnig sögð undirseld duttlungum Lukashenko, enda innflutningur sjávarafurða, og þar með öll aðföng, háð sérstökum leyfisveitingum hans. 

Moshensky er líka sagður hafa notið þessarar velvildar forsetans við kaup á verðmætum ríkiseignum. Árið 2018 gerðu hann og Lukashensko einkasamning um kaup Moshensky á meirihluta í risastórri ostaverksmiðju af ríkinu, fyrir hátt í sjötta milljarð króna. Þessi einkavæðing vakti spurningar, enda var engum öðrum gert kleift að bjóða í hlut ríkisins sem í ofanálag var sagt hafa fengið undarlega lágt verð fyrir eignina. Ári síðar seldi ríkið Moshensky svo mjólkurvinnslu  fyrir tæpa 3 milljarða króna, samkvæmt frétt fjölmiðilsins Belsat.

Mjólkurpósturinn MoshenskyLukashenko og Moshensky skála í einni af afurðum mjólkurvörufyrirtækisins Savutchkin. Moshensky hefur verið uppnefndur Mjólkurpóstur Lukashenko, vegna sambands þeirra tveggja.

Engan byltingar-bisness

Þegar Moshensky tók þátt í að tryggja Lukashenko embætti árið 2010, sagðist hann  „áhugamaður um stöðugleika“ sem fengist frekar  með Lukashenko en einhverjum „byltingar-bisness“, hafði Interfax eftir Moshensky, sem sagði hlutverk sitt að koma skoðunum forsetans til skila og tala fyrir þeim, bæði við fólk og fyrirtæki.

Frambjóðendur stjórnarandstöðunnar kvörtuðu á sama tíma til kjörstjórnar landsins yfir því að fyrirtæki Moshensky hafi bannað þeim að vekja athygli á framboðum sínum, á sama hátt og öðrum, samkvæmt upplýsingum mannréttindasamtaka.

Aðdáun Moshensky á Lukashenko virðist gagnkvæm, því hann valdi Moshensky sem fulltrúa á svokallað „Landsþing fólksins“, sem haldið er á fjögurra ára fresti í Hvíta-Rússlandi. Að nafninu til eiga þar að koma saman fulltrúar almennings og atvinnulífs og ráða ráðum sínum um málefni þjóðarinnar. Í reynd hafa þetta þó verið sagðar skrautsýningar Lukashensko.

Saman í stúkunniMoshensky og Lukashenko saman í heiðursstúkunni við róðrabrautina í Zaslavl í nágrenni Minsk, á Evrópuleikunum sem haldnir voru í Hvíta-Rússlandi í júní 2019.

Sama á reyndar við um skipan Moshensky í fjölda opinberra ráða og nefnda, sem öll heyra undir Lukashenko. Í stjórnum Viðskiptaráðs Hvíta-Rússlands, þróunarbanka Hvíta-Rússlands og ráðgjafarnefnda um viðskipti og tollamál. Hann var síðast í fyrra skipaður af Lukashenko í sérstakt opinbert frumkvöðlaráð Hvíta-Rússlands.

Moshensky er einnig formaður Róðrasambands Hvíta-Rússlands og á sæti í stjórn „Íþróttafélags forsetans“, sem hefur meðal annars það hlutverk að velja fulltrúa þjóðarinnar til keppni á alþjóðavettvangi. Með honum í stjórn þar sitja tveir elstu synir Lukashenko. 

Fulltrúi Íslands

Viðskipti Aleksanders Moshensky við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hófust um aldamótin. Fram að því hafði Moshensky keypt síld af Norðmönnum en vildi auka við framleiðslu sína og fór þess vegna ásamt fylgdarliði sínu til Íslands að leita viðskiptatengsla. Næstu árin fór Moshensky því að kaupa loðnuhrogn og frosna síld frá Íslandi.

Á næstu árum styrkti Moshensky þessi tengsl sín og heimsótti Ísland reglulega. Eftir eina slíka heimsókn árið 2004 barst utanríkisráðuneytinu bréf frá Jakobi Sigurðssyni, aðstoðarforstjóra SÍF, Sölusambandi íslenskra fiskframleiðenda, þar sem hann vildi vekja athygli íslenskra stjórnvalda á manni sem hann taldi henta prýðilega í hlutverk kjörræðismanns í Hvíta-Rússlandi. Aleksander Moshensky væri bæði vel tengdur íslenskum fyrirtækjum og ekki síður yfirvöldum í Hvíta-Rússlandi.

Utanríkisráðuneytið tók strax vel í beiðnina, samkvæmt upplýsingum um aðdraganda skipunarinnar, sem Stundin fékk aðgang að í krafti upplýsingalaga. Í gögnunum sést að eina skoðunin sem utanríkisráðuneytið virðist hafa framkvæmt sjálfstætt á Moshensky, var fundur hans með íslenska sendiherranum í Moskvu. 

Annars var byggt á upplýsingum sem Moshensky afhenti sjálfur eða í gegnum starfsmann Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, sem Moshensky hefur átt í miklum viðskiptum við, auk þess sem náin vinátta mun hafa skapast milli hans og forstjóra Vinnslustöðvarinnar.

Á sérstöku umsóknareyðublaði um stöðu kjörræðismanns tiltók Moshensky helstu upplýsingar um sjálfan sig. Og þó að í umsókninni sé tekið fram að ræðismannsefnið þurfi að skila inn meðmælabréfum, íslenskum og erlendum, virðist sem íslensk stjórnvöld hafi látið tvö meðmælabréf Hvít-Rússa duga ásamt upphaflegu bréfi SÍF-stjórans. Hin tvö undirrituðu kjörræðismenn Póllands og Úkraínu í Hvíta-rússlandi.

Aleksander Moshensky varð kjörræðismaður Íslands í Hvíta-Rússlandi þegar Geir H. Haarde undirritaði skipunarbréf hans haustið 2006.

Slíkum titli fylgja engin formleg völd eða fríðindi, starfið er ólaunað og veitir ekki formlega stöðu diplómata. Engu að síður gefur titillinn ákveðna vigt, sérstaklega þegar kemur að því að fá og viðhalda aðgengi að embættis- og viðskiptalífi viðkomandi landa.

Ræðismannstitill í Hvíta-Rússlandi er sagður hafa aðra þýðingu en víðast hvar. Fjölmiðillinn RadioFreeEurope fjallaði í ársbyrjun í fyrra um hvernig ræðismannsskrifstofur þjóða eins og Austurríkis, Bangladesh, Ekvador, Gvatemala, Chile og Simbabve, eru allar hjá þekktum hvít-rússneskum athafnamönnum. 

Einn undirmanna Moshensky, hjá Santa Bremor, er til að mynda ræðismaður Ungverjalands, sem hefur ólíkt flestum Evrópusambandsríkjum lagst gegn sameiginlegum refsiaðgerðum gegn Lukashenko og stuðningsmönnum hans.

Í umfjölluninni er sérstaklega fjallað um íslenskan ræðismannstitil Moshensky, sem fullyrt er að hafi nýst honum til að verjast þeim þvingunum sem plagað hafa aðra úr hópi svokallaðra „veskja“ Lukashenko.

Það vekur óneitanlega athygli að sjá hve oft er vitnað til ræðismannstitils Moshensky þegar um hann er fjallað í erlendum fjölmiðlum. Titlinum er óspart flaggað til dæmis í samskiptum hans við erlend ríki.

Kjörræðismaður heimsækir sendiráð PakistanaMynd sem pakistanska sendiráðið í Minsk birti á samfélagsmiðlum í febrúar 2021, þar sem sagt var frá heimsókn Aleksander Moshensky, viðskiptamanns og kjörræðismanns Íslands, í sendiráðið.

Pakistanska sendiráðið í Minsk birti myndir af Moshensky og sendiherranum í febrúar í fyrra á Twitter þar sem sagði: „Í dag tók sendiherrann á móti herra Alexander Moshensky, einum þekktasta kaupsýslumanni Hvíta-Rússlands, eiganda JV Santa Bremor fyrirtækjasamsteypunnar og heiðurskonsúl Íslands í Hvíta-Rússlandi.“

Vörn fyrir veskið

Áður en leiðtogi Hvíta-Rússlands hóf beinan stuðning við innrás Rússa í Úkraínu í lok febrúar, og eftirlét Rússum landsvæði undir eldflaugapalla, hafði Evrópusambandið alls fimm sinnum á síðustu tveimur árum hert á refsiaðgerðum gegn einstaklingum í stjórnmála- og viðskiptalífi Hvíta-Rússlands.

Alls eru nú 183 hvít-rússneskir einstaklingar og 26 lögaðilar, það er fyrirtæki eða félagasamtök, á svörtum lista Evrópusambandsins. Því fylgja mjög íþyngjandi aðgerðir af hálfu aðildarríkja sambandsins; frysting eigna, ferðabann og bann við því að stunda viðskipti við viðkomandi. 

Í hópnum eru nú fjölmargir svokallaðra ólígarka landsins. Rökin fyrir aðgerðum gegn þeim eru til að mynda augljós tengsl við Lukashenko sjálfan; að hafa auðgast á hinum ógegnsæju einkavæðingaraðgerðum hans, setið í opinberum ráðum eða nefndum og notið skattfríðinda af hálfu stjórnvalda í Minsk. 

Öll eiga þessi rök við um Aleksander Moshensky og fyrirtæki hans. Því hefur sú spurning oftsinnis komið upp: hvers vegna maður, sem manna í millum er uppnefndur „veski Lukashenko“, skuli ekki sæta refsiaðgerðum ESB, jafnvel þó vitað sé að nafn hans hafi ítrekað verið á lista þeirra sem stóð til að refsa, en verið fjarlægt stuttu áður en aðgerðirnar fengu formlegt samþykki.

Þetta hefur þó ítrekað gerst. 

Samkvæmt heimildum Stundarinnar og frásögnum viðmælenda, virðist  hagsmunagæsla íslenskra stjórnvalda fyrir hönd Moshensky vega þar þungt.

Dularfullt hvarf Fiski-barónsins

Eftir forsetakosningarnar árið 2010 fóru augu margra að beinast að Hvíta-Rússlandi og þrýstingur á alþjóðasamfélagið að beita sér gegn kerfisbundinni kúgun og mannréttindabrotum jókst. Sérfræðingar sem unnu skýrslu fyrir Evrópuþingið bentu á það í skýrslu árið 2012 að ekki væri nóg að ráðast í hefðbundnar þvingunaraðgerðir gegn stjórnvöldum og spilltum embættismönnum. 

Hópur auðmanna, sem í skjóli stjórnarinnar í Minsk fjármagnaði og efnaðist af völdum hennar á víxl, ætti ekki að fá að stunda viðskipti eins og hverjir aðrir innan Evrópusambandsins. En jafnframt var þess getið að í valdi auðs síns hefðu þeir aðgang að öflugum lobbíistum. Sjö nöfn auðmanna eru nefnd í skýrslunni. Einungis tveir þeirra hafa nú, áratug síðar, ekki sætt refsiaðgerðum. Moshensky er annar þeirra.

Engu að síður hefur nafn hans margsinnis verið nefnt í aðdraganda þess að herða á viðskiptaþvinganir ESB gegn Hvít-Rússum:

„[E]r líklegt að listi Evrópusambandsins muni innihalda nafn auðjöfursins, Aleksanders Moshensky, sem er grunaður um að vera fjárhagslegur bakjarl hvít-rússneskra stjórnvalda og hafa auðgast í krafti þess,“ sagði í frétt EuroRadio í júní 2012. Á sama tíma hafði sjónvarpsstöðin Belsat eftir Gunnari Wiegand, sendifulltrúa ESB, að Moshensky yrði líklega látinn sæta viðskiptaþvingunum. 

Fjölmiðillinn EU Observer í Brussel hafði í  árslok 2011 sagt hann í sigti ESB og að ráðherrar Evrópusambandsins hefðu hert á gildissviði þvingana svo þær mættu ná til „einstaklinga og lögaðila sem auðguðust í krafti stuðnings“ við stjórnina í Minsk. Nafn Moshensky og tveggja annarra voru nefnd líklegust. 

Þegar svo aðgerðirnar voru kynntar voru kollegar Moshensky úr stétt ólígarka báðir á listanum. En ekki hann. Kollegarnir fengu þó aðgerðunum hnekkt með dómi nokkrum árum síðar. En vera þeirra á listanum hafði ein og sér neikvæð áhrif á viðskipti þeirra.

Næsta áratug stækkaði veldi Moshensky gríðarlega. Velta fyrirtækjasamsteypu hans nánast tvöfaldaðist. Hann komst yfir verðmætar ríkiseignir og fékk auk þess áfram að auka við auð sinn, án afskipta Lukashenko. Að sama skapi margfölduðust viðskipti hans við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki.

En á meðan versnaði ástand mannréttindamála í Hvíta-Rússlandi. Enn var þrengt að frjálsri tjáningu, blaðamönnum og hverjum þeim sem andmælti stefnu stjórnarinnar í Minsk. Dauðarefsingum beitt til að fullnusta dóma, sem þóttu hæpnir í besta falli.

Hátt í 900 manns sitja nú í fangelsi í Hvíta-Rússlandi fyrir skoðanir sínar, að sögn mannréttindasamtaka. Frásagnir af ógeðfelldum pyntingum og skipulögðum kynferðisbrotum gegn konum í haldi, hafa vakið óhug heimsbyggðarinnar. Á fjórða tug lögmanna hefur verið svo sviptur réttindum sínum, fyrir það eitt að reyna að tala máli skjólstæðinga sinna úr hópi samviskufanga.

Tsikanovskaya mætir

Steininn tók úr í ágúst árið 2020 þegar enn einu sinni var efnt til forsetakosninga í Hvíta-Rússlandi og augljóst þótti að brögð væru í tafli. Enn einu sinni fagnaði Lukashenko sigri með 80% stuðning þjóðarinnar. Og aftur var ljóst að mikið vantaði upp á að framkvæmd kosninganna, hvað þá að úrslitin sem kynnt voru, stæðust skoðun.

Siarhei Tsikhanovskyi, ríflega fertugur baráttumaður fyrir mannréttindum, sem hafði meðal annars haldið úti vinsælli Youtube-rás, tilkynnti um framboð sitt gegn Lukashenko í byrjun maí. Hann var handtekinn tveimur dögum seinna og gefið að sök að hafa ráðist á lögreglumenn. Myndbönd af handtöku hans og aðdraganda hennar gefa þó ekkert slíkt til kynna. 

Tsikhanovsky hefur setið í fangelsi síðan og má jafnvel vænta þess að dúsa þar fram yfir sextugt eftir að hafa verið sakfelldur fyrir að hafa á vídeó-bloggi sínu hvatt til ólöglegrar uppreisnar gegn stjórnvöldum.

Eiginkona hans, túlkurinn og enskukennarinn Svetlana Tsikhanovskaya, ákvað hins vegar  að bjóða sig fram í mótmælaskyni við handtöku eiginmanns síns. Og jafnvel þó Svetlana hafi þurft að dvelja í felum stóran hluta kosningabaráttunnar, henni og börnum hennar verið hótað mannráni, fundir stuðningsmanna hennar leystir upp eða bannaðir, mátti ljóst vera að hún hefði notið margfalt meiri stuðnings en hinar opinberu tölur gáfu til kynna.

Henni tókst að safna að baki sér fjölda hreyfinga og fylkinga sem mótframbjóðendum Lukashensko hafði áður mistekist. Sem sýndi sig þegar allt að 70 þúsund manns mættu á kosningafund hennar, þrátt fyrir yfirvofandi hótanir yfirvalda.

Fjöldi þjóða neitar að viðurkenna Lukashenko sem forseta og segir Tsikhanovskayu raunverulegan lýðræðislega kjörinn leiðtoga þjóðar sinnar. Ísland þar á meðal. Sjálf flúði hún land ekki löngu eftir kosningarnar og hefur síðan verið andlit lýðræðissinna í Hvíta-Rússlandi og ferðast um og vakið athygli ráðamanna á ástandinu í heimalandinu. Til dæmis hingað til Íslands í boði íslenskra stjórnvalda. 

Viðbrögð almennings í Hvíta-Rússlandi við forsetakosningunum og eftirleik þeirra, vöktu athygli. Þúsundir streymdu út og mótmæltu því sem sagt var valdarán Lukashenko. Næstu daga og vikur héldu mótmælin áfram en öryggislögreglan svaraði af hörku. Talið er að hún hafi myrt á annan tug manna. Hundruð manna sættu fangelsun og pyntingum.

Moshensky aftur í sigti ESB

Alþjóðasamfélagið gat illa litið undan og Bandaríkin og ESB hertu enn refsiaðgerðir. Í árslok 2020 lá á borði Ráðherranefndar Evrópusambandsins langur listi dómara, stjórnmálamanna og viðskiptajöfra sem stutt höfðu eða auðgast af stuðningi við Lukashenko.

Íslenski ræðismaðurinn í Hvíta-Rússlandi var ofarlega á þeim lista fólks sem mátti nú vænta harðra refsiaðgerða, enda hefur það vakið athygli hvernig Moshensky hefur ítrekað verið gestur Lukashenko, meðal annars við embættistöku hans 2020 og í nýársfagnaði ári síðar. Í umfjöllun dagblaðsins Nashaniva í aðdragandanum var þó sérstaklega getið um að kannski hefði Moshensky tekist að koma nafni sínu af listanum. 

Vísað var í óstaðfestar heimildir þess efnis að Moshensky hefði ræst út og notið aðstoðar íslenskra stjórnvalda til að koma sér undan því að lenda í hörðum refsiaðgerðum ESB. „[Moshensky] sannaði fyrir stjórnvöldum á Íslandi – landi sem hann flytur inn milljóna dollara virði af fiski – að verði hann fyrir refsiaðgerðum þýði það umtalsvert tap fyrir Íslendinga. Og að sögn hafi íslensk stjórnvöld brugðist við og beitt sér til þess að hafa áhrif á ákvörðun Evrópusambandsins.“

Valdaránið variðLögregla og hin alræmda leyniþjónusta Hvíta-Rússlands, KGB, hafa fangelsað og pyntað hundruði almennra borgara sem reynt hafa að mótmæla gölluðum kosningum og valdníðslu. Svo var einnig árið 2020 þegar síðast var kosið í landinu.

Sagði Íslandslobbí fiskisögu

Moshensky var inntur eftir þessu í sömu frétt og svaraði því ekki skýrt hvort íslensk stjórnvöld hefðu beitt sér fyrir hans hönd. Hann kallaði röksemdir um áhrif viðskipta sinna á fjarveru sína af listanum vera „fiskisögu“. Nær væri að líta til þess að fyrirtæki hans hefðu ekkert haft með ofbeldi gegn mótmælendum í Hvíta-Rússlandi að gera. 

„Sú ákvörðun byggir ekki á því hver selur fisk, heldur því hvort Santa Bremor sé fyrirtæki sem eigi að sæta refsiaðgerðum,“ sagði Moshensky sem gekkst þó við því að hafa gripið til aðgerða í því skyni að koma sér og fyrirtæki sínu undan refsiaðgerðum, en neitaði að svara hverjar þær væru. 

Þegar svo endanlegur listi ESB var samþykktur í lok árs 2020 var nafn Moshensky þar hvergi sjáanlegt, frekar en áður. 

„Það komst einhver rotta í listann og fjarlægði þaðan flest þau nöfn sem mögulega hefðu geta skaðað Lukashenko. Þau voru öll fjarlægð,“ var haft eftir Nikolai Khalezin, einum þekktasta talsmanni hóps landflótta Hvít-Rússa sem hafði þrýst á ESB um refsiaðgerðirnar. Hann vísaði jafnframt til þess að öflug hagsmunagæsla rússneskra og hvít-rússneskra stjórnvalda hefði haft áhrif. Sést hefði til Moshensky á skíðum með þeim Lukashenko og Pútín, að sögn Nikolai. 

Í maí 2021 dró enn til tíðinda í samskiptum Aleksander Lukashenko við umheiminn. Hann sendi þá herþotur til móts við farþegaflugvél Ryanair flugfélagsins og skipaði henni að lenda. Þó opinbera ástæðan hafi verið sprengjuhótun, kom fljótt í ljós að sú skýring var hreint yfirvarp. Aðalástæðan var sú að handtaka Raman Pratasevich, blaðamann og yfirlýstan gagnrýnanda Lukashenko, sem var farþegi í vélinni. Pratasevich er enn haldið í farbanni eftir fangavist og pyntingar og gæti átt yfir höfði sér allt að 15 ára fangelsi.

Stuttu síðar fannst þekktur gagnrýnandi Lukashenko, Vitaly Shishov, látinn í Kænugarði. Shisov hafði flúið Hvíta-Rússland og verið virkur í andófi gegn Lukashenko og aðstoð við þá sem flúðu ofsóknir stjórnar hans. Þó andlát Shisov hafi átt að gefa til kynna að hann hefði hengt sig, bendir margt til þess að honum hafi einfaldlega verið ráðinn bani af útsendurum Lukashenko.

Bandarískir áhrifamenn gegn Moshensky

Alþjóðasamfélagið brást aftur við með harðri fordæmingu. Í umræðum fyrir bandarískri þingnefnd kallaði David Kramer, fyrrverandi aðstoðarinnanríkisráðherra Bandaríkjanna, eftir tafarlausum aðgerðum. „Við þurfum að fara á eftir veskjum stjórnarinnar í Minsk. Mönnunum sem veita Lukashenko fjárhagslegan styrk til að sitja sem fastast,“ sagði Kramer og nefndi nöfn fimm manna sem beita ætti slíkum aðgerðum. Íslenski kjörræðismaðurinn, Moshensky, var einn þeirra.

Enn einu sinni var ákveðið að herða á viðskiptaþvingunum ESB gegn Hvíta-Rússlandi. Og aftur slapp Moshensky. Í kjölfarið birti hvít-rússneski fjölmiðillinn RadioFreeEurope fréttaskýringu þar sem sagði:

„Nokkrar sjálfstæðar heimildir segja að hann hafi átt að enda á listanum. Moshensky sjálfur viðurkenndi meira að segja að hann hefði „gert ákveðnar ráðstafanir“ svo hann þyrfti ekki að sæta neinum þvingunum,“ segir í greininni þar sem svarið er sagt liggja í sambandi hans við íslensk stjórnvöld. 

„Fyrirtæki Moshensky kaupir gríðarlegt magn sjávarafurða frá Íslandi. Og er þar að auki kjörræðismaður Íslands í Hvíta-Rússlandi. Það er því ekki óhugsandi að hinir erlendu viðskiptafélagar Moshensky hafi hent til hans bjarghring. Ástæðan er einföld: Viðskiptaþvinganirnar myndu bitna á þeim, rétt eins og honum.“

Hissa hagsmunaverðir

Samkvæmt upplýsingum sem aðgengilegar eru á heimasíðu samtaka lobbíista gagnvart ESB, hefur alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið APCO worldwide séð um að gæta hagsmuna Aleksanders Moshensky gagnvart ESB.

Sérfræðingar fyrirtækisins, sem hefur í kúnnahópi sínum alþjóðleg stórfyrirtæki, ríkisstjórnir og alþjóðasamtök, virðast þó ekki hafa þurft að hafa mikið fyrir vinnu sinni fyrir Moshensky. Íslensk stjórnvöld sáu um þá vinnu, að sögn Ástu Guðrúnar Helgadóttur, fyrrverandi alþingismanns, sem starfað hefur í fjölda ára í Brussel.

„Í seinni hluta maí í fyrra fékk ég óvænt skilaboð frá kunningja mínum í Brussel, en hann og samstarfsmenn hans voru þá að velta fyrir sér samskiptum Íslands og Evrópusambandsins í tengslum við hagsmunagæslu þeirra fyrir tiltekinn kúnna sem stundaði fiskviðskipti í Hvíta-Rússlandi,“ segir Ásta Guðrún í samtali við Stundina. Kúnninn sem um ræðir var Moshensky og kunninginn starfsmaður APCO ráðgjafarfyrirtækisins. Erindið að sögn Ástu var í raun að reyna að skilja hvernig Moshensky hefði komist hjá aðgerðum ESB.

„Ísland hefði einfaldlega lagst á árar með Moshensky og tekist að bjarga honum undan þessum þvingunum“
Ásta Guðrún Helgadóttir,
fyrrum þingmaður Pírata

„Erindi þessa fólks við mig var því í raun að reyna að átta sig á því hvernig og af hverjum svona ákvörðun væri tekin. Þetta er fólk sem hefur atvinnu af því að lobbía fyrir stórfyrirtæki og samtök og búið að gera það í áratugi. Þau höfðu aldrei séð neitt þessu líkt,“ segir Ásta, sem sat á Alþingi fyrir Pírata á árunum 2015-2017, og sat þá meðal annars í utanríkismálanefnd.

Ásta Guðrún Helgadóttirfyrrverandi þingmaður Pírata

„Mér fannst þetta auðvitað stórskrýtið en um leið vissi ég af fenginni reynslu að þetta gat vel hafa farið svona fram. Ég sat sjálf á þingi og fylgdist með því þar hvernig sérhagsmunaöfl gátu, að því er virtist mjög auðveldlega, fengið stjórnvöld til að ganga erinda sinna. Það virðist vera sem Hvíta-Rússland hafi verið notað sem milliliður til að koma sér framhjá viðskiptaþvingunum Rússa og undir voru því gríðarlegir hagsmunir, sem augljóst er að metnir voru verðmætari en þeir að þrengja að hagsmunum valdhafa í Hvíta-Rússlandi.“

Frásögn Ástu kemur heim og saman við frásagnir fjölda fólks sem Stundin hefur rætt við undanfarnar vikur, bæði úr röðum blaðamanna sem fjallað hafa um viðskiptaþvinganirnar og umræður um þær í Brussel, þeim sem reyndu að koma þeim í gegn, og eins innan íslensku utanríkisþjónustunnar. 

Úr röðum hvít-rússneskra lýðræðissinna sem barist hafa fyrir veru Moshensky á listanum er altalað að íslensk stjórnvöld séu fyrst og fremst ástæða þess að Moshensky hafi sloppið til þessa.

Í samtölum við einstaklinga innan íslensku utanríkisþjónustunnar var því lýst hvernig íslenska sendiráðið í Brussel hafði fylgst náið með allri umræðu um mögulegar auknar viðskiptaþvinganir gegn valdamönnum í Hvíta-Rússlandi ef vera kynni að Aleksander Moshensky, kjörræðismaður Íslands og mikilvægur viðskiptavinur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja, ætti á hættu að lenda í sigti ESB. Sendiráðið hafi svo einnig haft milligöngu um að þrýsta á um það að Moshensky yrði hlíft.

Sendiherra Íslands neitar að svara

Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Brussel, neitaði að svara því með hvaða hætti hann eða aðrir embættismenn sendiráðsins hefðu beitt sér fyrir hönd Moshensky, eða hvernig staðið hefði verið að því, í samtali við Stundina. 

„Ég verð að vísa þér á utanríkisráðuneytið vegna þessa,“ var það eina sem Kristján vildi láta hafa eftir sér um málið. Spurður hvers vegna hann vildi ekki svara þessum spurningum, sagði hann að sér þætti eðlilegt að ráðuneytið svaraði fyrir málið.

Ráðuneytið grennslaðist fyrir

Stundin fékk að lokum skriflegt svar frá utanríkisráðuneytinu, þar sem samskiptum íslenskra stjórnvalda við ESB, vegna Moshensky, var ekki lýst nánar en að í lok árs 2020 hafi verið brugðist við orðrómi um að Moshensky kynni að verða á þvingunarlista ESB. 

„Íslensk stjórnvöld leituðu eftir frekari upplýsingum meðal samstarfsríkja innan ESB og miðaði eftirgrennslan stjórnvalda að því að upplýsa hvort að til stæði að setja ræðismanninn á lista, og ef svo væri, á hvaða forsendum. Þá var leitast við að skilja hvaða áhrif það mundi hafa á útflutning íslenskra fyrirtækja til Belarús ef þvingunaraðgerðir beindust að honum eða fyrirtækjum hans. Var þetta gert í því skyni að hafa svigrúm til að bregðast við ef svo væri enda hefði vera hans á slíkum lista haft afleiðingar fyrir þjónustu hans í þágu íslenskra hagsmuna,“ sagði í svari utanríkisráðuneytisins. Jafnframt að Ísland hefði í þessum „samtölum“ lagt áherslu á „stuðning Íslands við aðgerðir ESB“.

Utanríkisráðuneytið tiltekur sérstaklega að Moshensky hafi ekki verið á þvingunarlista ESB, þá eða núna, en svarar því ekki hvort það tengist eitthvað samtölum íslenskra stjórnvalda við ESB áður en endanlegir listar voru samþykktir. Enda liggur fyrir, meðal annars samkvæmt yfirlýsingum Moshensky sjálfs, að nafn hans hefur ítrekað verið á listanum sem lagður er fyrir ráðherraráð ESB.

Ekki náinn bandamaður, segir ráðherra

Stundin óskaði einnig eftir viðbrögðum sitjandi utanríkisráðherra við gagnrýni á stöðu Moshensky sem kjörræðismanns. Einkum og sér í lagi í samhengi við stuðningsyfirlýsingar ráðherrans við Svetlönu Tikhanovskayu og lýðræði og mannréttindi, þá sem saka stjórnvöld um valdarán og mannréttindabrot.

Svetlana Tikhanovskaya hefur á undanförnum árum lagt höfuðáherslu á að bæði Bandaríkin og ESB útfæri viðskiptaþvinganir sínar frekar en nú er, og þá í auknum mæli gegn þeim sem hafa hagnast á samstarfi við stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi, meðal annars Aleksander Moshensky. 

Í skriflegu svari utanríkisráðherra til Stundarinnar segir að stuðningur íslenskra stjórnvalda við Svetlönu Tikhanovskayu sé skýr og eindreginn og staða ræðismannsins hafi engum skugga varpað á gott samband hennar og stjórnvalda á Íslandi. 

„Það hefur verið mat ráðuneytisins að það sé orðum aukið að kjörræðismaður Íslands sé mjög náinn bandamaður Lúkasjenkós“
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir
utanríkisráðherra, úr skriflegu svari

„Í samtölum við Svetlönu hefur verið rætt um stöðu ræðismannsins og hún upplýst um að Íslandi sé ekki kunnugt um mannréttindabrot eða skoðanakúgun innan hans fyrirtækja. Þá er rétt að taka fram að það hefur verið mat ráðuneytisins að það sé orðum aukið að kjörræðismaður Íslands sé mjög náinn bandamaður Lúkasjenkós og því hefur ekki þótt vera tilefni til þess að endurskoða stöðu hans hvað sem síðar kann að verða,“ sagði í svari Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra til Stundarinnar.

Samkvæmt heimildum Stundarinnar hefur Svetlana þó viðrað áhyggjur sínar af þeirri staðreynd að Moshensky skuli vera kjörræðismaður Íslands. Það kemur reyndar ekki sérstaklega á óvart. Opinber talsmaður Svetlönu, Franak Vyacorka, sagði í viðtölum við fjölmiðla eftir að ljóst var að Moshensky og annar þekktur ólígarki, sluppu á síðustu stundu undan aðgerðum ESB í desember 2020, að „myrkraverk hefðu verið framin þegar tókst að lobbía og hvítþvo" þekkta bandamenn Lukashenko. 

Í áréttingu við fyrra svar ráðherra sagði um það:

„Að sjálfsögðu vitum við af afstöðu Svetlönu Tikhanovskayu til ræðismannsins og hlustum á það sem þau hafa sagt.“

Kjósa
1
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (8)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Sigga Svanborgar skrifaði
    Þessi rakning er svo lýsandi fyrir vinnubrögð íslenskra embættismanna. Ráðningu kjörræðismanna hefur alltaf verið í höndum spilltra manna sem ráða inn sína líka......til að viðhalda meintum mikilfengleika sínum
    3
  • Sigmundur Guðmundsson skrifaði
    ENN eitt skítabixið á vakt Sjálfstæðisflokksins !!!
    3
  • Jón Ragnar Björnsson skrifaði
    Var ekki sett viðskiptabann með fisk á Rússland eftir hertöku þeirra á Krímskaga? Man ekki betur er íslensk sjávarútvegsfyrirtæki andmæltu, en hættu því fljótt.

    Var ástæðan sú að þau fundu greiða leið til Rússlans gegn um Hvíta Rússland?
    9
    • ÁHG
      Árni Hafþór Guðnýjarson skrifaði
      Þú ert allur að koma til.
      1
  • Hlynur Jörundsson skrifaði
    Ólíkt höfumst við að. Siðmenntaðar þjóðir eins og Kýpur reka fyrirvaralaust og án skýringa ræðumenn sína ef grunur leikur á spillingu en við verjum þá.
    9
  • ÁHG
    Árni Hafþór Guðnýjarson skrifaði
    Enn ein sköminn sem við megum bera fyrir Íslenska auðmenn.
    17
  • SVB
    Skjöldur Vatnar Björnsson skrifaði
    Þetta er nú stríð elítunnar svo að mafíurnar í mörgum löndum er að vinna í málinu. Lífi almennra borgara er alltaf fórnað í svona leikjum.
    10
  • PB
    Páll Bragason skrifaði
    Reginhneiksli ef satt og rétt.
    9
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Ólígarkinn okkar

Pólverjar æfir vegna ólígarkans okkar
FréttirÓlígarkinn okkar

Pól­verj­ar æf­ir vegna ólíg­ark­ans okk­ar

Áhrifa­mikl­ir pólsk­ir stjórn­mála­menn brugð­ust í vik­unni harka­lega við frétt­um af því að ólíg­arki frá Bela­rús, sem ít­rek­að hef­ur ver­ið reynt að beita við­skipta­þving­un­um, vegna tengsla hans við ein­ræð­is­stjórn­ina í Minsk, hefði kom­ið sér fyr­ir í Var­sjá. Um er að ræða ís­lenska kjör­ræð­is­mann­inn í Bela­rús, sem fer allra sinna ferða í skjóli vernd­ar sem sendi­full­trúi Bela­rús. Óá­sætt­an­legt er að hann sé full­trúi Ís­lands, seg­ir sér­fræð­ing­ur.
Úkraínskt orkufyrirtæki flutt af nafni ólígarka í skúffufélag í Smáíbúðahverfinu
AfhjúpunÓlígarkinn okkar

Úkraínskt orku­fyr­ir­tæki flutt af nafni ólíg­arka í skúffu­fé­lag í Smá­í­búða­hverf­inu

Ís­lensk­ur banka­mað­ur, Karl Kon­ráðs­son, er sagð­ur hafa keypt helm­ings­hlut í úkraínsku orku­fyr­ir­tæki ný­ver­ið af Al­eks­and­er Mos­hen­sky, kjör­ræð­is­manni Ís­lands og ólíg­arka í Bela­rús. Áð­ur hafði Karl eign­ast breskt fé­lag Mos­hen­skys fyr­ir slikk. Þá og nú átti Mos­hen­sky á hættu að sæta við­skipta­þving­un­um, vegna tengsla sinna við stjórn­völd í Bela­rús.
Tugir milljarða í skattaskjól í gegnum Smáíbúðahverfið
RannsóknÓlígarkinn okkar

Tug­ir millj­arða í skatta­skjól í gegn­um Smá­í­búða­hverf­ið

Kjör­ræð­is­mað­ur Ís­lands í Bela­rús hef­ur á und­an­förn­um ár­um flutt tugi millj­arða króna til dul­ar­fulls af­l­ands­fé­lags á Seychell­es-eyj­um með að­stoð fé­lags sem stýrt er úr heima­húsi Reykja­vík. Um er að ræða ávinn­ing af fisk­við­skipt­um og sér­kenni­leg­um lán­veit­ing­um til fyr­ir­tækja kjör­ræð­is­manns­ins í Aust­ur-Evr­ópu, sem allt bend­ir til að séu gerð til að koma hagn­aði und­an skött­um.
Gagnrýndi stjórnvöld fyrir hræsni í málefnum Belarús
FréttirÓlígarkinn okkar

Gagn­rýndi stjórn­völd fyr­ir hræsni í mál­efn­um Bela­rús

Þór­hild­ur Sunna Æv­ars­dótt­ir þing­kona Pírata sak­aði ís­lensk stjórn­völd og ut­an­rík­is­ráð­herra um hræsni, í um­ræð­um um bar­áttu lýð­ræð­is­sinna í Bela­rús á Evr­ópu­ráðs­þing­inu í gær. Ís­lensk stjórn­völd gætu ekki lát­ið sér nægja að sitja fyr­ir á mynd­um og segj­ast styðja stjórn­and­stöðu lands­ins, á sama tíma og þeir hefðu ná­inn sam­verka­mann ein­ræð­is­stjórn­ar­inn­ar í embætti kjör­ræð­is­manns.
Ólígarkinn okkar fastagestur í einkaþotum einræðisherrans
AfhjúpunÓlígarkinn okkar

Ólíg­ark­inn okk­ar fasta­gest­ur í einka­þot­um ein­ræð­is­herr­ans

Al­ex­and­er Mos­hen­sky, kjör­ræð­is­mað­ur Ís­lands í Hvíta-Rússlandi, hef­ur flog­ið hátt í þrjá­tíu sinn­um með einka­þot­um ein­ræð­is­stjórn­ar Lukashen­ko á síð­ast­liðn­um ára­tug, sam­kvæmt gögn­um sem lek­ið var ný­lega. Ein­göngu fjöl­skylda og nán­ustu banda­menn Al­eks­and­ers Lukashen­ko nota þot­urn­ar. Bæði þot­urn­ar og flest­ir far­þega henn­ar hafa ver­ið sett í ferða­bann um Evr­ópu og Norð­ur-Am­er­íku.
Úkraína frysti eignir Moshensky-fjölskyldunnar
FréttirÓlígarkinn okkar

Úkraína frysti eign­ir Mos­hen­sky-fjöl­skyld­unn­ar

Úkraínsk yf­ir­völd eru sögð hafa kyrr­sett eig­ur og fryst banka­reikn­inga fyr­ir­tæk­is­ins Santa Kholod í Kænu­garði. Yf­ir­völd þar telja hví­trúss­nesk fyr­ir­tæki fjár­magna inn­rás Rússa með óbein­um hætti, vegna stuðn­ings ein­ræð­is­stjórn­ar Lukashen­ko. Santa Kholod er hluti af fyr­ir­tækja­keðju Al­eks­and­ers Mos­hen­sky, kjör­ræð­is­manns Ís­lands, fiskinn­flytj­anda og ólíg­arka í Hvíta-Rússlandi. Sagð­ur hafa skráð fyr­ir­tæki á dótt­ur sína til að verj­ast þving­un­um ESB.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár