Björn Zoëga, forstjóri Karolinska-sjúkrahússins í Svíþjóð og ráðgjafi nýs heilbrigðisráðherra, segist ætla að hætta sem ráðgjafi ef hann getur ekki sinnt starfinu samhliða því að vera forstjóri sænska sjúkrahússins. Hann segir að hann sinni ráðgjafastarfinu í frítíma sínum frá starfi sínu sem forstjóri. Þetta kemur fram í viðtali við Björn í sænska blaðinu Dagens Nyheter. Ráðgjafastörf Björns á Íslandi samhliða forstjórastarfinu hafa því vakið athygli þar í landi og er yfirskrift fréttarinnar að forstjórinn fái aukastarf sem ráðgjafi á Íslandi.
Í fréttinni í sænska blaðinu er haft eftir Birni, sem áður hefur starfað sem forstjóri Landspítalans á Íslandi: „Það mun koma í ljós á næstu mánuðum hvort það gengur að sinna báðum störfunum samtímis. Ef það gengur ekki þá mun ég hætta að vera ráðgjafi, það erum við heilbrigðisráðherrann sammála um.“
Líkti Birni við Leo Messi
Ráðning Björns sem ráðgjafa heilbrigðisráðherra, Willums Þórs Þórssonar, var tilkynnt um miðjan desember á vef stjórnarráðsins.
Samkvæmt tilkynningunni á Björn að aðstoða við breytingar sem til stendur að gera á starfsemi Landspítalans. Um ráðninguna sagði Willum Þór heilbrigðisráðherra: „Ljóst er að Landspítalinn er hryggjarstykkið í okkar heilbrigðiskerfi. Spítalinn verður að geta sinnt sínu mikilvæga hlutverki nú og í framtíðinni. Þá er gott samspil spítalans við aðra þætti heilbrigðiskerfisins lykilatriði. Umtalsverðar breytingar á rekstri og yfirstjórn Landspítalans munu eiga sér stað á næstunni og því er gríðarlega mikilvægt að sérfróðir aðilar með þekkingu á rekstri slíkrar stofnunar séu til að veita ráð við slíka vinnu.“
„Ég mun gera þetta í frítíma mínum og svo mun ég fara þangað einhverjar helgar“
Eitt af því sem vakti nokkra athygli í fréttaflutningi af ráðningu Björns voru þau orð Willums Þórs að það að fá Björn til starfa á Íslandi væri eins og ef knattspyrnumaðurinn Leo Messi kæmi í íslensku fótboltadeildina. „Ætli þetta sé ekki eins og að fá Messi í Val og íslensku deildina,“ sagði heilbrigðisráðherrann sem sjálfur er gamall og landsþekktur fótboltaþjálfari sem meðal annars starfaði í Þrótti og KR.
Bíður eftir leyfi frá yfirvöldum
Í frétt sænska blaðsins Dagens Nyheter er haft Birni að hann muni sinna starfinu á Íslandi um helgar og og í frítíma sínum. „Ég mun gera þetta í frítíma mínum og svo mun ég fara þangað einhverjar helgar. Ég hef ekki í hyggju að hætta á Karolinska,“ segir hann og undirstrikar að hann sé ekki þátttakandi í því ferli að ráða nýjan forstjóra yfir Landspítalann.
Í sænska blaðinu kemur einnig fram að Björn hafi í fyrra verið með mánaðarlán upp á 241 þúsund sænskar krónur, tæplega 3.5 milljónir íslenskra króna, fyrir störf sín á spítalanum. Þá segir einnig að yfirvöld í Stokkhólmshéraði, sem rekur Karolinska-spítalann, muni þurfa að taka afstöðu til þess hvort hann fái að sinna þessu aukastarfi eða ekki. Fram kemur að þessi ákvörðun muni liggja fyrir á næstu dögum.
Athugasemdir