Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð út tvívegis í Reykjavík í dag. Fyrst að Mánatúni en þar var töluverður viðbúnaður lögreglu og götum lokað. Þrír voru síðan handteknir í tengslum við málið í dag.
Morgunblaðið greindi fyrst frá því að aðgerðir hefðu staðið yfir í Mánatúni. Um hádegisbil var sérsveitin að störfum við Hverfisgötu. Stundin hefur haft samband við lögreglu á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóra í dag og fékk staðfest að sérsveitin hafi verið með viðbúnað við Mánatún snemma í morgun en varðist að öðru leyti allra fregna af málinu.
Fréttatilkynning var svo send á fjölmiðla um hálf fjögur þar sem segir að þrír séu í haldi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir að grunsamlegur hlutur fannst í ruslagámi í Mánatúni í Reykjavík á fjórða tímanum í nótt. Sérsveit ríkislögreglustjóra hafi verið kölluð til aðstoðar vegna málsins. Ekki kemur fram í tilkynningunni hvort aðgerðir sérsveitarinnar á Hverfisgötu um hádegisbil tengist málinu. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni verða ekki veittar frekari upplýsingar í dag en lögregla vonast til að geta tjáð sig meira um málið á morgun.
Athugasemdir