Auka á framlög til heilbrigðismála um 16,3 milljarða á næsta ári og fara þeir meðal annars í að fjölga hágæslurýmum um sex, endurhæfingarýmum um þrjátíu og koma á fót sérstakri farsóttardeild í Fossvogi. Rúmir fimm milljarðar eiga svo að fara í byggingu hjúkrunarheimila.
Þetta kemur fram í kynningu fjármálaráðuneytisins á nýframlögðu fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Heildarútgjöld ríkisins á næsta ári nema 1.100 milljörðum króna samkvæmt frumvarpinu.
Heilbrigðismál eru enn sem áður langstærsti útgjaldaliður ríkisins, samkvæmt frumvarpinu. Gert er ráð fyrir að 300 milljarðar fari í málaflokkinn á næsta ári. Þar af fara tæpir 84 milljarðar í Landspítalann. Útgjöld til heilbrigðismála nema tæpum 866 þúsund krónum á mann, sem er meira en tvöfalt hærra en í næsta málaflokk, málefni aldraðra, sem nema 274 þúsund krónum á hvern einstakling.
Þó tekjurnar séu hærri en stjórnvöld höfðu áður búist við, um 955 milljarðar króna, verður ríkissjóður rekinn með meira en 168 milljarða króna halla. Mestar tekjur, eða 290 milljarðar, koma úr virðisaukaskattskerfinu, 218 milljarðar fást með sköttum af tekjum einstaklinga og 107 milljarðar vegna tryggingargjalda. Fjármagnstekjuskattur skilar 32 milljörðum, samkvæmt yfirliti fjármálaráðuneytisins.
Halli ríkissjóðs verður meðal annars nýttur til að hækka framlög til loftslagsmála um einn milljarð króna, en málaflokkurinn var kynntur sem sérstakt áherslumál ríkisstjórnarinnar. Verða framlög til málaflokksins þrettán milljarðar á næsta ári, samkvæmt frumvarpinu. Af þessum milljörðum eru 600 milljónir ætlaðar til að hraða orskuskiptum í samgöngum.
Athugasemdir