Útgerðarfélagið Brim er komið yfir lögbundna hámarkshlutdeild í aflaheimildum, samkvæmt nýbirtum lista Fiskistofu. Útgerðin fer með 13,2 prósent allra aflaheimilda, mælt í þorskígildistonnum, samkvæmt útreikningum stofnunarinnar. Lögbundið hámark er 12 prósent.
Til viðbótar við þessi rúmu þrettán prósent á Brim útgerðina Ögurvík að fullu, sem fer með 0,76 prósent aflaheimilda, og útgerðina Grunn, sem fer með 0,31 prósent aflaheimilda. Grunnur á 40,8 prósent í útgerðinni Þórsbergi, sem fer með 0,25 prósent aflaheimilda. Samtals er því Brim með yfirráð yfir 14,37 prósent kvótans. Það er 2,37 prósentustigum umfram lögbundið hámark.
Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem að stærstum hluta er í eigu Guðmundur Kristjánssonar, forstjóra Brims, fer svo með 2,23 prósent aflaheimilda. KG fiskverkun, sem er í eigu bróður Guðmundar, Hjálmars Þórs Kristjánssonar og sona hans, fer með 0,66 prósent aflaheimilda. Blokkin sem þessi sex útgerðarfélög, sem tengjast í gegnum eignarhald sitt, stýrir 17,4 prósentum kvótans.
Brim hefur, samkvæmt lögunum um hámarkshlutdeild í aflaheimildum, sex mánuði til að koma sér aftur undir 12 prósenta markið.
Athugasemdir