Eitt andlát gæti mögulega tengst bólusetningu við COVID-19 á Íslandi. Í fjórum öðrum tilvikum er talið ólíklegt að andlát hafi orsakast af aukaverkunum bólusetninga. Þetta er niðurstaða óháðra sérfræðinga á meintum alvarlegum aukaverkunum bóluefna gegn COVID-19 á vegum Lyfjastofnunar.
Matið er sett fram á skalanum frá því að ólíklegt sé að bóluefni hafi orsakað veikindi eða andlát, að mögulegt sé að bóluefnið hafi gert það og að líklegt sé að svo sé. Þetta eina andlát sem kannað var og ekki hægt að útiloka að sé afleiðing bólusetningar er þó aðeins talið ólíklegt til mögulegt, á þessum skala.
„Embætti landlæknis fylgist viku fyrir viku með tölfræði dauðsfalla sem og tíðni ákveðinna sjúkdómsgreininga sem gætu tengst þekktum aukaverkunum þeirra fjögurra bóluefna sem nú eru í notkun,“ segir í tilkynningu Lyfjastofnunnar um rannsóknina. „Hingað til hafa engar greinanlegar breytingar orðið á sk. umframdauðsföllum eða tíðni þeirra greininga.“
Hefur orsakað veikindi
Líklegt er að bólusetning með Astra Zeneca hafi valdið einum einstaklingi veikindum; svokölluðum VITT, eða Vaccine induced thrombocytopenia and thrombosis. Það er þekkt aukaverkun bæði Astra Zeneca og Janssen bóluefna. Samkvæmt Lyfjastofnun er það talið gerast hjá einum af hverjum 100 þúsund bólusettum. Samtals hafa um 86 þúsund verið bólusettir hér á landi með þessum tveimur efnum.
Meirihluti fólks eldra en 16 ára hefur nú verið bólusett með einhverju af þeim fjórum bóluefnum sem eru í notkun á Íslandi. Eftir bólusetningu síðustu daga er hlutfallið komið í 75 prósent, samkvæmt vefnum covid.is.
Í tilkynningu Lyfjastofnunar segir að 18 þúsund manns verið fullbólusettir með bóluefni Astra Zeneca og tæpleg 42 þúsund hafa fengið fyrri skammt. Til viðbótar hafa 26 þúsund fengið Janssen bóluefni en aðeins þarf einn skammt af því til að teljast fullbólusettur.
Athugasemdir