Í ársfjórðungsskýrslu kjarasviðs Eflingar kemur fram að launakröfur félagsmanna stéttarfélagsins sem störfuðu hjá starfsmannaleigunni Menn í vinnu hafi verið greiddar af Ábyrgðasjóði launa. Sjóðurinn tilheyrir Vinnumálastofnun, en 10. mars tilkynnti Unnur Sverrisdóttir, forstjóri stofnunarinnar, að mistök hafi ráðið því að fyrstu fjórar launakröfurnar voru greiddar og að greiðslurnar yrðu endurskoðaðar. Engu að síður fengu þær að standa, auk 42 annarra sem voru greiddar eftir að tilkynningin var gefin út.
Efling hefur unnið að máli félagsmanna sinna gegn Mönnum í vinnu ehf. frá október 2018, en starfsmannaleigunni og Eldum rétt var stefnt í fyrra fyrir vangoldin laun fjögurra starfsmanna. Þeim var gert að sök að skulda hverjum og einum starfsmanni upphæðir á bilinu 120 til 195 þúsund krónur. Málið féll Eflingu í óhag í héraðsdómi 24. febrúar, en stéttarfélagið fagnaði engu að síður sigri þar sem Ábyrgðasjóður launa ákvað 2. og 3. mars að greiða kröfur fyrrum starfsfólksins.
Athugasemdir