Standi ég á miðri nútímastundu á umferðareyju umkringd háhýsum og blokkum og teppalögðum bílum og byrja að fyllast kvíðanum, sem skáldkonur allra landa lýsa einna best, fer ég oft með ljóð:
„svífur sælli en áður“
fjöður
í hvítalogni
himinninn
undir og ofaná
Eftir skáldið Guðrúnu Hannesdóttur, úr bók hennar þessa heims [2018]. Í bókinni stígur náðin niður til jarðar, vindhárin titra, burkninn sér mann og þekkir með nafni, berin ganga aftur, svo nokkur fá undur séu nefnd.
Fyrsta ljóðabók Guðrúnar, Fléttur, kom út árið 2007 og sú áttunda, Spegilsjónir, í haust hjá Partus forlagi. Áður hafði hún gefið út, skrifað og myndskreytt bækur fyrir börn og þýtt skáldsögur.
Ljóð Guðrúnar eru kynngimögnuð, orðaforðinn víðfeðminn – úr öllum heimum – litakassinn fæst ekki í venjulegri búð. Þau hverfa frá smæstu sýnum, örlitlum og stórum jarðar- og jaðarbrotum til óravíddanna í algeiminum; með íslenskuna eða íslenskunni málar hún syngur, yrkir …
Athugasemdir