Játning hefur komið upp við rannsókn lögreglunar á morðinu sem átti sér stað í Rauðagerði 28 í febrúarmánuði. Þetta kom fram á upplýsingafundi lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu sem var nú að ljúka.
Albani hefur játað að hafa orðið Armando Beqiri að bana með því að hafa skotið hann níu sinnum fyrir framan heimili sitt. Albaninn sem um ræðir hefur búið hér á landi í sjö ár.
Menn tengdir skipulagðri brotastarfsemi fluttir til landsins
Fjórtán hafa verið handteknir við rannsókn málsins og eru þeir, fyrir utan einn Íslending, frá Albaníu, Rúmeníu, Spáni, Ítalíu, Portúgal, Eistlandi, Serbíu, Lithán og Hvíta- Rússlandi.
Einhverjir þeirra hafa verið búsettir á Íslandi um einhvern tíma en einhverjir komu til Íslands skömmu áður en morðið var framið en þeir tengjast hópum manna í skipulagðri brotastarfsemi sem lögregla hefur til rannsóknar vegna aðkomu sinnar að málinu.
Morðið var skipulagt
Morðið á Armando var að sögn lögreglu skipulagt og tengist að einhverju leiti gagnaleka sem upp kom í janúar þess efnis að Anton Kristinn Þórarinsson, einn sakborninga, hafi verið upplýsingagjafi lögreglunar. Lögreglan vildi þó ekki gefa upp hver væri talinn höfuðpaur málsins né hver aðkoma eina Íslendingsins sem hefði stöðu sakbornings væri að málinu.
Rannsókn lögreglu leiddi þó í ljós að hópur manna ætlaði sér að ráðast gegn sakborningi í málinu og fjölskyldu hans.
Lögreglan lagði hald á fíkniefni og vopn
Skotvopnið sem var notað til að skjóta níu sinnum af, fannst fyrir um hálfum mánuði í sjó. Þá hefur lögregla einnig fengið heimildir til að fara yfir gögn úr símum og tölvum ásamt því að fá upptökur úr öryggismyndavélum. Þar að auki hefur lögregla lagt hald á fíkniefni og vopn vegna málsins.
Þá kom einnig í ljós á fundinum að fórnarlambið hafi einnig tengst skipulagðri brotastarfsemi.
Athugasemdir