Greiðsluhlutfall íslenskra heimila af heilbrigðisútgjöldum hefur lækkað um tæp þrjú prósentustig síðasta áratug. Árið 2010 stóðu heimilin undir 18,3 prósentum af heildarútgjöldum til heilbrigðismála en árið 2019 var hlutfallið komið niður í 15,6 prósent. Heimilin greiddu rúma 40 milljarða króna árið 2019 til heilbrigðismála.
Þetta kemur fram í skýrslu heilbrigðisráðherra um mat á því hvernig eigi að lágmarka kostnað sjúklinga vegna langvinnra og lífshættulegra sjúkdóma. Í fjármálaáætlun fyrir árin 2021-2025 er gert ráð fyrir að fjögurra milljarða króna hækkun á fjárveitingum sem nýta á til að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga, 800 milljörðum króna ár hvert. Áætlað er að það kosti hið opinbera um tvo milljarða króna að lækka hlutdeild heimilanna í útgjöldum til heilbrigðismála um eitt prósent og er því gert ráð fyrir að hlutdeildin verði komin niður í 13 til 14 prósent árið 2025. Ef það gengur eftir verður Ísland á pari við eða neðar en hin Norðurlöndin, sé miðað við stöðuna í dag.
Hlutdeild íslenskra heimila í heilbrigðisútgjöldum hefur síðasta áratug verið einna hæst á Norðurlöndunum, þó ívið lægri heldur en í Finnlandi þar sem hlutfallið hefur alla jafna verið 18-19 prósent. Á Íslandi var hlutfallið almennt 18 prósent til ársins 2016 en síðan hefur það lækkað og samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir árið 2019 var það rúm 15 prósent. Í Danmörku hefur sama hlutfall alla jafna verið 14 prósent síðasta áratug og 14-15 prósent í Noregi og Svíþjóð.
Athugasemdir