Um þessar mundir er um það bil ár frá því að kórónuveirufaraldurinn byrjaði að setja mark sitt á hversdagslíf á Íslandi. Afleiðingarnar hafa verið margar en atvinnuleysi verður að teljast ein af þeim alvarlegri. Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar voru 9.618 manns skráð atvinnulaus í janúar 2020. Ári seinna var fjöldinn kominn í 21.809, eða 26.403 ef við teljum fólk á hlutabótaleiðinni með. Það sem er jafnvel alvarlegra er að atvinnuleysi varir lengur á tímum faraldursins en fyrir hann. Í janúar höfðu rúm 22% atvinnulausra verið án vinnu í 6–12 mánuði og rúm 18% lengur en ár. Ári seinna höfðu rúm 33% atvinnulausra verið án vinnu í 6–12 mánuði og tæp 21% lengur en ár.
Hlutfallstölurnar ná samt ekki alveg að fanga hve stór breytingin er, því fólki sem hafði verið atvinnulaust skemur en eitt ár fjölgaði líka. Þannig að við skulum staldra við og telja haus. Í janúar 2020 voru 2.149 einstaklingar sem höfðu verið atvinnulausir í 6–12 mánuði og 1.771 sem hafði verið það lengur en ár. Ári síðar höfðu 7.233 einstaklingar verið atvinnulausir í 6–12 mánuði og 4.508 lengur en ár. Þetta er meira en þreföldun á fjölda fólks sem hafði verið atvinnulaust í 6–12 mánuði og margföldun upp á um 2,5 á fjöldanum sem hafði verið án vinnu lengur en ár.
Svo má ekki gleyma því að atvinnuleysi snertir mun stærri hóp en bara hina atvinnulausu, eins og til dæmis fjölskyldur þeirra.
Meira en bara brauðstrit
Allt skiptir þetta máli því atvinnuleysi hefur ekki aðeins slæm áhrif á fjárhag fjölskyldna heldur hefur það ýmsar aðrar slæmar afleiðingar fyrir bæði hin atvinnulausu og fjölskyldur þeirra. Til að skilja af hverju er mikilvægt að átta sig á því að vinna er ekki bara brauðstrit heldur hefur hún margþætta merkingu í huga vinnandi fólks. Vinnustaðurinn er vettvangur félagslegra tengsla, verkefnin stuðla í mörgum tilfellum að þróun fólks í starfi og þroska sem manneskjur, starfið sem slíkt veitir fólki hlutverk og félagslega stöðu, vinnan kemur reglu á hversdaginn og svo mætti lengi telja. Það er auðvitað mismunandi á milli starfa hvaða kostum þau eru búin og heilt yfir eru augljóslega störf sem eru betri eða verri en önnur hvað varðar flesta þá þætti sem gera starf gott eða slæmt. En jafnvel svo virðist fólk almennt frekar vilja vinna en ekki ef þess er kostur.
Skortur og heilsuleysi
Í nýlegri rannsókn Vörðu – Rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins á meðal meðlima aðildarfélaga ASÍ og BSRB er að finna vísbendingar um afleiðingar atvinnuleysis. Þannig skorti til dæmis 22,4% atvinnulausra meðlima efnisleg gæði en aðeins 5,5% launafólks. Þá mátu 16,6% atvinnulausra meðlima heilsu sína sem slæma samanborið við 12,1% launafólks. Að lokum mældust 23,2% atvinnulausra meðlima með slæma andlega heilsu samkvæmt PHQ-kvarða en aðeins 7,6% launafólks.
Það þarf samt að hafa í huga að líklega er munurinn á launafólki og atvinnulausu fólki að nokkru leyti ofmetinn. Ég hef áður sótt vísbendingar í þessa rannsókn um að atvinnuleysi hafi lent í meira mæli á þeim sem stóðu hvað verst á vinnumarkaðnum. Það þýðir að hluti af muninum var til staðar áður en hin atvinnulausu misstu vinnuna. Þau voru líklegri til að vera í verr launuðum störfum og þar af leiðandi til að búa við efnislegan skort. Það er líka þekkt að fólk sem er að glíma við líkamlega eða andlega heilsubresti er líklegra til að missa vinnuna en fólk sem er það ekki þegar dregur saman í efnahagslífinu.
Sennilega er raunverulega sagan einhvern veginn svona: Fólkið sem mátti síst við því að missa vinnuna vegna afkomu sinnar og heilsu var líklegra til að missa hana og svo versnuðu lífskjörin og heilsan enn meira vegna atvinnuleysisins. Því miður veit ég ekki um nein gögn sem gera okkur kleift að prófa þessa tilgátu.
Því lengra atvinnuleysi, því meiri áhrif
Það er hins vegar önnur vísbending í rannsókn Vörðu sem er vert að skoða. Atvinnulausir meðlimir aðildarfélaga ASÍ og BSRB voru spurð hve lengi atvinnuleysið hafði varað. Þannig skorti 13,6% þeirra sem höfðu verið atvinnulaus í þrjá mánuði eða skemur efnisleg gæði samanborið við 33,8% þeirra sem höfðu verið atvinnulaus lengur en eitt ár. Hluti af sögunni er að fólkið sem var í hvað verstri stöðu á vinnumarkaði fyrir atvinnuleysi á erfiðara með að fá vinnu á ný en fólk sem var í betri stöðu, en það er líka þekkt að þegar atvinnuleysi dregst á langinn klárar fólk sparnað, tæmir lánstraust og byrjar að ganga á eignir, en allt eru þetta bjargir sem hjálpa fólki að brúa styttri tímabil utan vinnumarkaða.
Áhrif langvarandi atvinnuleysis eru líka þekkt. Hægt og rólega byrjar fólk að gefa upp vonina á að komast aftur í starf, andleg líðan versnar og fólk festist í hjálparleysi; ekki af því það hafi það svo gott á bótum heldur vegna þess að atvinnuleysið sem slíkt er mannskemmandi. Þetta er hluti af því sem skýrir að tæp 29% meðlima aðildarfélaga ASÍ og BSRB sem höfðu verið atvinnulaus lengur en ár mældust með slæma andlega heilsu, samanborið við tæp 15% þeirra sem höfðu verið atvinnulaus í þrjá mánuði eða skemur.
Versta hugmyndin?
Það væri ekki sanngjarnt að segja að ríkisstjórnin hafi ekki gert neitt til að bregðast við auknu atvinnuleysi, en það sem hefur verið gert er klárlega ekki nóg. Hluti af skýringunni er tregða við að fjölga opinberum störfum. Fjármálaráðherra lýsti því til dæmis yfir í umræðum í þinginu að það væri versta hugmynd sem hann hefði heyrt. Dómsmálaráðherra bætti um betur með frekar banal sögu um Milton Friedman og skurðgröft.
„Í þeim aðstæðum sem hafa verið uppi í íslensku samfélagi er hið opinbera, og einkum ríkisvaldið, í raun eini aðilinn sem getur búið til störf til að mæta auknu atvinnuleysi“
Það er einkum tvennt sem gerir þennan málflutning ráðherranna vandræðalegan: 1) Í þeim aðstæðum sem hafa verið uppi í íslensku samfélagi er hið opinbera, og einkum ríkisvaldið, í raun eini aðilinn sem getur búið til störf til að mæta auknu atvinnuleysi; og 2) á meðan það er engin ástæða til að mæla með því að láta fólk grafa skurði til að fylla í þá aftur, bara til að losna við það af atvinnuleysisskrá, þá er staðan einfaldlega ekki þannig að ríkið geti einungis búið til tilgangslaus störf. Það vantar víða hendur, til dæmis í heilbrigðiskerfið, félags- og velferðarþjónustu, skólakerfið og löggæslu. Starfsmannaveltan þar er víða mikil og álagið á starfsfólk óviðunandi.
Og hérna er punkturinn: Með því að hið opinbera búi til störf er hægt að bæta opinbera þjónustu og bæta starfsumhverfi og draga úr álagi á því fólki sem þegar sinnir slíkum störfum. Það sem skiptir ekki síður máli er að með því að búa til störf væri hið opinbera að koma í veg fyrir vanda í framtíðinni. Atvinnuleysi er mannskemmandi og langvarandi atvinnuleysi getur hæglega leitt til hækkandi nýgengi örorku og aukinnar aðsóknar í starfsendurhæfingu með tilheyrandi kostnaði þegar fram líða stundir. Það verður ekki vegna þess að örorkulífeyrir sé of hár eða of auðvelt að fá hann, heldur vegna þess að stjórnvöld völdu að geyma umtalsverðan hluta vinnuaflsins á ís á meðan Covid-faraldurinn gekk yfir.
Athugasemdir