Þau lágu innst í skúffunni. Hann hafði bundið borða utan um staflann, það hefur varla verið silkiborði, frekar snæri eins og það sem lá í litlum hnyklum á vinnuborðinu hans. En þarna lágu þau. Bréfin, frá því að þau hjónin voru að rugla saman reytum sínum áratugum áður.
Það er furðuleg tilfinning að stíga inn í hús þess sem skömmu áður var lifandi, en er það ekki lengur. Þar hefur tíminn hætt að líða um stund, allt heldur niðri í sér andanum, líka þau sem stíga yfir þröskuldinn. Klukkan á veggnum hefur staðnæmst á dánarstund þess sem var að kveðja, klukkan sem var samviskusamlega trekkt upp á sunnudögum í áranna rás, en þau ná ekki að taka þá staðreynd inn. Leggja hana til hliðar, ofan í skúffu. Tíminn er ekki hér, ekki nú.
Og innst í skúffunni: bréfin.
Ég átti einu sinni litla ástarsögu sem helst blómstraði í bréfum. Ástin of ung, of viðkvæm til þess að það mætti með góðu móti segja orðin upphátt. Þau hefðu frosið í loftinu eins og sápukúlur í Síberíu, splundrast þegar þau féllu til jarðar. Þann hluta ástarsögunnar sem var páraður á línustrikuð blöð sem við slitum út úr stílabókum í skólanum á ég enn. Hinn er horfinn, brunninn upp á rafskautum, stiginn til skjásvarts himins. Læstur inni í pósthólfi sem enginn mun nokkru sinni muna aðganginn að.
Konan sem ritaði bréfin í skúffunni átti líka sinn stafla af svarbréfum en þau eru ekki lengur til. Hún brenndi þau öll meðan hendur hennar voru enn styrkar og sjónin næg. Orðin dóu með henni.
Fólkið í húsinu þar sem tíminn stendur í stað veit ekki hvort þau eiga eða mega leysa borðann utan af bréfastaflanum. Hvort þau mega lesa sig nær fólkinu sem nú er farið. En bréfin eru þarna. Sönnun um eitthvað sem var. Sem tíminn hefur ekki eytt.
Athugasemdir