Í Stóru málunum þessa vikuna verður rætt það ofbeldi sem getur fylgt pólitískri umræðu, hvort sem í netheimi eða raunheimi. Bjartmar og Valur fengu til sín þá Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR og Helga Gunnlaugsson, afbrotafræðing og prófessor við félagsfræðideild Háskóla Íslands, til að ræða málið. Mikil umræða skapaðist, þegar skotið var bíl Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra Reykjavíkurborgar, um þá hörðu pólitísku umræðu sem á sér stað í íslensku samfélagi.
Ragnar Þór segir að honum hafi verið ítrekað hótað, bæði í bréfum, tölvupósti og símtölum. Í eitt skiptið fékk hann sent til sín bréf þar sem honum voru sendar nákvæmar dagsetningar hvenær ætti að taka hann af lífi.
„Það ofbeldi sem kom inn á okkar heimili og þær hótanir, voru mjög alvarlegar. Það var mjög vanstilltur einstaklingur sem við ályktuðum svo að hann væri að taka út úr mjög harðri orðræðu sem hefði átt sér stað í aðdraganda lífskjarasamninganna. Hann notaði orð í bréfum, sem komu úr umræðunni, sem hann kom með á heimilið okkar. Ég get sagt ykkur það að það voru dagsettar aftökur á mig persónulega í bréfinu sem við fengum. Fyrst var þetta póstlagt, en síðar var einstaklingurinn farinn að koma með þau í eigin persónu að heimilinu mínu, þá létum við fagaðila í málið. Þetta var mjög veikur einstaklingur og lögreglan tók á þessu og hann fær væntanlega viðeigandi hjálp og aðstoð.“
Þáttinn í heild sinni má sjá hér að ofan.
Athugasemdir