Á ríflega tuttugu ára tímabili hefur íbúum á öllum svæðum á Íslandi, utan suðvestursvæðinu, fækkað. Þrátt fyrir að landsmönnum hafi fjölgað um tæplega 92 þúsund á árabilinu 1998 til 2020, um tæp 34 prósent, hefur sú fjölgun dreifst ærið misjafnlega. Mest hefur íbúum á Suðurnesjum fjölgað, um 77,1 prósent en á Vestfjörðum hefur íbúum fækkað um 16,7 prósent á sama tímabili.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri grænbók um byggðamál sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur lagt fram til samráðs. Í grænbókinni eru lögð fram lykilviðfangsefni til að takast á við neikvæða búsetuþróun, sem felast í jöfnun á aðgengi að grunnþjónustu, upbyggingu fjölbreytts atvinnulífs, innviðauppbyggingu, umhverfismálum og sjálfbærni.
Tveir þriðju búa á höfuðborgarsvæðinu
Um 64 prósent allra landsmanna búa nú á höfuðborgarsvæðinu og er það um tvöfalt hærra hlutfall en gengur og gerist á hinum Norðurlöndunum. Þannig búa um 36 prósent Dana á Kaupmannahafnarsvæðinu, um 30 prósent Norðmanna í Osló og næsta nágrenni og um 26 prósent Finna í Helsinki og nágrannabyggðum. Í grænbókinni segir að þessi staða hafi, ásamt fámenni hér á landi, orðiðr til þess að „umræðan um byggðamál hér á landi hefur haft tilhneigingu til að kristallast í andstæðunum höfuðborgarsvæði – landsbyggð.“
„Umræðan um byggðamál hér á landi hefur haft tilhneigingu til að kristallast í andstæðunum höfuðborgarsvæði – landsbyggð“
Segja má að suðvestursvæðið markist af Borgarfirði í vestri til Mýrdals í austri. Á því svæði hefur íbúum fjöldað um 45 prósent á tímabilinu og búa nú um 80 prósent landsmanna þar. Alls staðar annars staðar fækkar íbúum, í heild um 12 prósent, ef frá eru talin Akureyri og nágrenni og Fljótsdalshérað og Fjarðarbyggð þar sem íbúum hefur fjölgað um annars vegar 22 prósent og hins vegar 16 prósent.
Mislangt að sækja matvöruna
Á vef Byggðastofnunar má sjá breytingar á íbúafjölda einstakra sveitarfélaga á tímabilinu. Ef rýnt er í þær tölur má sjá að fækkun í íbúafjölda er mismunandi í sveitarfélögum innan sömu landshluta er ærið misjöfn. Nálægð við sterka byggðakjarna virðist þar ráð verulegu um. Þannig fækkaði íbúum í Ísafjarðarbæ og í Bolungarvík um 13,5 prósent á tímabilinu, á meðan að íbúum í Strandabyggð fækkaði um 29 prósent rúm. Á Norðurlandi vestra fækkaði íbúum í Húnaþingi vestra um 14,5 prósent á meðan að íbúum í Sveitarfélaginu Skagafirði fækkaði um 6,4 prósent, svo dæmi séu tekin. Fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifæri og meiri þjónusta hafa þar væntanlega mikið að segja. Að sama skapi hefur uppbygging sterkrar ferðaþjónustu að líkindum einnig haft áhrif. Þannig fjölgaði íbúum Skútustðahrepps í Suður-Þingeyjarsýslu á tímabilinu um 9,2 prósent en í hreppnum hefur um árabil verið rekin öflug ferðaþjónustu í kringum Mývatn. Í næsta sveitarfélagi, Þingeyjarsveit, fækkaði íbúum hins vegar um 23,9 prósent á sama tímabili.
Meðal þess sem fram kemur í grænbókinni er að aðgengi að dagvöruverslun er mjög misjöfn milli svæða. Þannig búa því sem næst allir íbúar suðvesturhornsins í innan við 30 kílómetra fjarlægð frá dagvöruverslun og langflestir íbúar á Norðurlandi eystr, Austurlandi og Suðurlandi einnig. Í þeim landshlutum þar sem byggðaþróun hefur verið hvað neikvæðust, á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra, er hlutfallið verulega lægra, og raunar einnig á Vesturlandi. Um tíundi hver íbúi á þessum svæðum býr lengra í burtu en 30 kílómetra frá dagvöruverslun.
Athugasemdir