Árið 2020 hófst með snjóflóðum, eldgosaviðvörun á Reykjanesskaga og útbreiðslu Covid-19 í heiminum. Á sama tíma útskrifaðist ég úr viðskiptafræði við Háskóla Íslands og fór á ráðstefnu í Slóveníu.
Verðum við nokkuð strandaglópar í Slóveníu? velti einn ferðafélaga minna fyrir sér þegar við vorum á leið út. Ég gat ekki annað en hlegið, og benti á að ef við yrðum fastar úti þá hefðum við allavega MacDonald’s og góðan bjór sem kostaði ekki neitt, sem væri nú lán í óláni.
Eldgosið lét ekki á sér kræla, en daginn fyrir heimför fréttum við ferðafélagarnir af hugsanlegu smiti á Íslandi. Við urðum heldur betur stressaðar að hugsa út í það að til að komast heim þyrftum við að fara í gegnum þrjá alþjóðaflugvelli. Eitthvað sem við höfðum ekkert pælt sérstaklega í fyrr en veiran minnti hressilega á sig:
Ekki snerta neinn óþarfa! sögðum við hver við aðra alla leiðina heim til Íslands. Spritt, spritt, spritt, er nokkuð safe að fara á klósettið hérna?!
Við komumst þó klakklaust á leiðarenda og rétt svo sluppum við sóttkví þar sem reglurnar um það komu síðar og Slóvenía var ekki áhættusvæði. Ég sneri aftur í háskólann þar sem ég stunda nú nám í almennri bókmenntafræði.
Þrátt fyrir breyttar aðstæður vegna kórónuveirunnar setti ég mér það markmið þegar í upphafi faraldursins að láta ekkert stöðva mig og hafa bjartsýni að leiðarljósi. Þegar kórónuveiran svo kom til landsins og fólk fór að tala um rafrænar lausnir, gat ég ekki annað en hlegið með sjálfri mér. Það er nú það að þegar ég var að skrifa BS-ritgerðina mína í lok árs 2019, lét leiðbeinandinn minn mig lesa heila ritgerð um fjarvinnu og ágóðann af henni. Og viti menn, nokkrum mánuðum síðar er fjarvinna orðið heitasta trendið í samfélaginu! Eitthvað sem mannauðsstjórar og viðskiptafræðingar hafa verið að rannsaka og stagast á lengi en það þurfti víst veiru til að fyrirtæki færu að tileinka sér þessa snilldarlausn.
Sjálf er ég vön mikilli tækninotkun daglega, bæði í námi og starfi. Það urðu því ekki mikil straumhvörf hjá mér að þurfa að nýta tæknilausnir, nema hvað ég uppgötvaði hvílík snilld Zoom og vefverslanir væru.
Þó að það hafi að sjálfsögðu verið eitthvert ströggl að gera vissa hluti á árinu lærði ég að tileinka mér eitt og annað. Meðal þess helsta sem ég lærði var að sýna öðrum umburðarlyndi og að kunna að meta alla litlu hlutina, hvort sem það var að fá að hitta ættingja, fara út á land eða bara fá heimsendingu. Ég tel mig vera frekar bjartsýna manneskju og í ástandinu hefur verið kostur að vera jákvæð. Ég lærði alveg upp á nýtt hvað jákvæðni getur hjálpað mikið, og var minnt reglulega á það hvað lífið er dýrmætt og mikilvægt að njóta hvers augnabliks.
Þegar ég lít yfir árið sem er að líða verð ég að segja að það var alls ekki svo slæmt. Ég upplifði bæði góða og slæma hluti, kláraði viðskiptafræðina, hóf nám í bókmenntafræði, fór til Slóveníu og ferðaðist innanlands auk þess sem ég fékk tíma til að sinna ritstörfum.
Einnig upplifði ég minn skerf af áföllum, fráfall ástvinar og kórónuveirusmit í fjölskyldunni ásamt því að þurfa að fresta tveimur utanlandsferðum. Það má vera að einhverjir telji árið 2020 hafa verið versta ár lífs síns, en ég kýs að líta á björtu hliðarnar og segja að 2020 hafi verið afar lærdómsríkt ár og alls ekki svo slæmt. Ég er þakklát fyrir að búa á Íslandi, þar sem fólk tekur kórónuveirunni alvarlega, og fyrir fjölskylduna og vinina sem ég á. Þá er ég þakklát fyrir að vera uppi á þessari öld, þar sem við höfum tækni og bóluefni. Að lokum er ég þakklát fyrir allt sem ég hef lært á árinu, og allar góðu minningarnar sem urðu til. Ég geng inn í nýtt ár sterkari og tilbúnari til að takast á við lífið og nýjar áskoranir.
Athugasemdir