Verst á árinu: Covid auðvitað. Best á árinu: Trump tapaði.
Bóluefnið er á leiðinni en ekkert bólar hinsvegar á bóluefni við trumpisma, heimsku og mannvonsku. Við þraukum því áfram, en brátt hillir semsagt undir Covid- og Trump-frían veruleika. Þá verður tekið á því. Þá mun þakið springa af Kringlunni, leikhúsin verða opin 24/7 og Bubbi mun spila af sér fingurna. Örlítið borgarþorp rís umhverfis Leifsstöð, fólk nennir ekki lengur inn í bæ á milli ferða, fleygir sér frekar á Miðnesheiði áður en lagt verður í hann til Malasíu. Loftslagsváin mun hverfa að eilífu í loftslagspartíinu mikla, fólki finnst það hafa goldið sína skuld, við umhverfið og jöklana, verið heilt ár í stofufangelsi með grillinu og gríslingunum. You only live once.
Það sem ég lærði á árinu var að njóta þess að draumurinn um áreitis-minni tilveru skyldi loks rætast og maður fékk að lifa einn og rólegur með sínum, konunni og krökkunum. Maður var loksins laus við rassaköstin í samfélaginu: mætingarskyldu, viðverutékk, viðburðaklasa, bæjarhátíðir, fjölskyldufestivöl, drykkjudaga, þjóðhátíðir, menningarsprengjur, þemavikur og markaðsmánuði, allt þetta alltof vel auglýsta áreiti sem heldur okkur á skjánum. Allt tekið burtu! Draumalíf! Einu breikin fólust í heimsóknum til ömmu og afa. Þetta er listamannslífið sem við öll þráum, að fá að sinna okkar verkum í friði frá heiminum. Eina vandamálið er að við þráum ekkert meir en athygli frá þeim sama heimi. Hann náði okkur í lok árs, þegar hann var búinn að læra á ástandið, og sérhver morgunn hófst á svari við beiðni um nokkur orð á Zoom eða Teams. „Eða þú getur líka bara tekið sjálfur upp smá video og sent okkur.“ Við lærðum að vera okkar eigin hljóð- og tökumenn. Hvað næst? Lýsing og leikmynd?
„Sitthvað lærði ég meira um dauðann á þessu ári, við að sitja hjá og yfir deyjandi manni“
„Það þarf að kenna fólki að deyja,“ var setning sem faðir minn sagði á einum af sínum síðustu dögum. Ég get ekki sagt að ég hafi lært það, en sitthvað lærði ég meira um dauðann á þessu ári, við að sitja hjá og yfir deyjandi manni. Pabbi hóf sína niðurferð í ágúst og dó í byrjun október. Það voru gefandi stundir að sitja hjá honum og fá að klára spurningalistann áður en hann fór, ekkert ósagt var eftir, nema þessi mystería með dauðann. Hann sagðist finna fyrir návist hans og hún væri rosaleg, „rosaleg alveg“, og síðan datt hann inn í óráðið. Eftir á að hyggja voru þetta einskonar dauðahríðir sem gengu yfir hann, náfrænkur fæðingarhríðanna, upphaf lífsins og lok þess hefjast með óræðum hryðjum. Alltaf kom pabbi út úr þeim með nýjar og nötrandi upplýsingar, fréttir að handan, magnaðar sýnir, og lærdóm eins og þennan: „Það þarf að kenna fólki að deyja.“
Við lærðum ekki að deyja en við lærðum að óttast dauðann meira en áður. Óttinn fylgdi okkur hvert sem við fórum, hver einasta snerting í búðinni, mjólkurfernan, hrökkbrauðið, pinn-takkarnir á posanum, gat innihaldið smit. Sérhverri snertingu dagsins fylgdi tilhugsunin: Er Covid kannski hér? Er ég að smitast akkúrat núna? Og ég sem er á leið í heimsókn til mömmu … Sérhver dagur, sérhver hurðarhúnn, sérhver sprittbrúsi, gat verið upphafið að hörmungum. Uns einhverntíma í nóvember að í mann kom einhver kæruleysisvottur og hálfan dag hugsaði maður æ, fokk it, ég nenni ekki lengur að hugsa um þessa helvítis veiru, sama hugsun og grípur stríðsmanninn eftir fjóra mánuði í skotgröf, æ, fokk it, ég dey þá bara. En svona má ekki hugsa. Við höfum sloppið hingað til en aðrir voru ekki svo heppnir, fólkið á efri hæðinni fékk alltsaman Covid og konan þar endaði á Covid-deildinni. Mágkona mín, starfsmaður sömu Covid-deildar, slapp heldur ekki og eyddi fjórum vikum fjarri manni og börnum, í sóttkví og einangrun.
Hjúkrunarfræðingurinn hún fékk hinsvegar enga launahækkun, launauppbót eða almennan virðingarauka ríkisvaldsins. Við lærðum það nefnilega líka á árinu að ríkið lærir aldrei, peningavaldið lærir aldrei. Jafnvel eftir hálft ár af lífshættulegum faraldri, þar sem framlínustarfsfólk leggur lífsgæði sín og sinna í hættu á hverjum degi, jafnvel þá er ekki öruggt með framlögin úr ríkissjóði, jafnvel þá er ekki öruggt með virðingu frá fjárveitingavaldinu. Landspítalinn þarf enn að herða sínar ólar og hjúkrunarfræðingar enn að berjast fyrir sínum lágu launum. Mikilvægustu störfin í samfélaginu eru enn í höndum vanlaunaðra kvenna. Og það á víst ekkert að breyta því. Þær sem hlupu hraðast allt þetta ár voru ekki verðlaunaðar með neinu öðru en einum nýjum skó í lok árs, ekki skópari, heldur einum nýjum stökum skó (þessi var jólabónusinn hjá Landspítalanum, 7.000 króna úttekt í einni skrýtinni skóbúð). Hvað gerir fólk við einn skó? Jú, setur hann út í glugga …
Þjóðin setur skóinn þann út í glugga í þeirri veiku von að jólasveinninn skenki henni lærdóminn sem við þráum öll, þann eina sanna lærdóm sem árið 2020 ætti að kenna okkur: Að heilbrigt heilbrigðiskerfi skal ganga fyrir öllu. Að þjóðir með eitt heilbrigðiskerfi koma betur út úr Covid en þjóðir með tvö heilbrigðiskerfi, hvað þá þjóðir með 300 heilbrigðiskerfi eins og Bandaríkin. Veiran er nefnilega hrifnari ef einkareknu heilbrigðiskerfi en ríkisreknu. Við erum öll almannavarnir.
Athugasemdir