Árið 2020 er búið að vera merkilegt ár sem hefur haft mikil áhrif í mörgu tilliti. Ár sem við eigum eftir að minnast lengi, og ég er þar engin undantekning.
Hvað stóð upp úr á árinu 2020?
Út frá starfi mínu sem gjörgæsluhjúkrunarfræðingur hefur árið einkennst af mikilli óvissu og stöðugum breytingum í faglegu tilliti. Lærdómskúrfan mín hefur vaxið ógnarhratt, líkt og hjá flestu heilbrigðisstarfsfólki. Þekking dagsins í dag er ekki endilega þekking morgundagsins. Þannig hafa vikurnar liðið hver á fætur annarri. Vissulega hefur óöryggi og stundum ótti tengst þessu lærdómsferli og margar álitnar spurningar komið upp í hugann, sér í lagi í upphafi faraldursins. Spurningar eins og: Get ég treyst þessum hlífðarbúnaði? Er til nóg af hlíðarbúnaði? Mun ég smitast í vinnunni? Mun ég smita sjúklinga mína eða fjölskyldu?
Allt í einu stóð heimsbyggðin frammi fyrir heimsfaraldri sem læknavísindin áttu ekki svar eða lækningu við. Aðstæður skelfilegar víða erlendis, þar sem fjöldi fólks hefur látist og heilbrigðiskerfi lagst á hliðina vegna fjölda sjúklinga og skorts á úrræðum. En hvað þýðir það í raun og veru fyrir heilbrigðiskerfi í heimsfaraldri þegar engin lækning er til við sjúkdómi? Jú, sjúklingar leita á sjúkrastofnanir þar sem þeir njóta hjúkrunar.
„Hvað þýðir það í raun og veru fyrir heilbrigðiskerfi í heimsfaraldri þegar engin lækning er til við sjúkdómi?“
Því hefur verið haldið fram að við á Íslandi höfum verið heppin, sloppið vel. Fjölmargar tilgátur hafa verið settar fram til að útskýra hvers vegna gengið hefur jafn vel og raun ber vitni hér á landi. Það er flókið að mæla áhrif hjúkrunar, en getur verið að meginástæða þess að svona vel hafi gengið hér sé vegna þess að íslenskir hjúkrunarfræðingar séu vel menntaðir og framúrskarandi færir? Ég held það.
Hjúkrunarfræðingar eru því miður fremur falin fagstétt, sem er almennt ekki í sviðsljósinu. Fáir bera titilinn „yfir-hjúkrunarfræðingur“ eða „umsjónar-hjúkrunarfræðingur“ til að koma fram í fjölmiðlum og ræða árangur í baráttunni við Covid-19. Íslenskir hjúkrunarfræðingar hjúkra og gera það einstaklega vel. Það þekkja allir sem hafa þurft á hjúkrun að halda. Oft er það ekki fyrr en þá, sem fólk skilur í raun og veru mikilvægt framlag hjúkrunar.
Ráðamenn og stjórnvöld hafa verið óspör við að hrósa hjúkrunarfræðingum og nota til þess sterk orð á borð við að þeir séu „hryggjarstykki í heilbrigðiskerfinu“ og að ómögulegt væri að takast á við heimsfaraldur sem þennan ef ekki væri fyrir hjúkrunarfræðinga. Þetta veit ég að er satt og rétt. Þess vegna er sárt þegar þessi viðhorf endurspeglast ekki í kjaraviðræðum við þennan mikilvæga hóp sem hefur fært miklar fórnir allt þetta ár, og munu gera það öll önnur ár sem fylgja.
Hvað lærði ég af árinu 2020?
Þegar horft er í baksýnisspegilinn og árið 2020 kvatt er af mörgu að taka. Ef ég á að nefna tvennt, þá er það að fólk þarf ekki að vera sammála um leiðir og aðferðir, svo lengi sem stuðst er við rök á yfirvegaðan hátt og umræðan er opin og hreinskilin. Þarna hafa sóttvarnalæknir og landlæknir sýnt aðdáunarverða yfirvegun, festu og fagmennsku.
Hitt snýr að getu íslenska heilbrigðiskerfisins, með hjúkrunarfræðinga í forgrunni og allt um kring til að takast á við heimsfaraldur sem þennan. Þegar á reynir, þá er getan sannarlega til staðar, og frasinn „þetta reddast“ á ekki við þegar hjúkrunarfræðingar eiga í hlut, þeir eru alltaf tilbúnir. Árið 2020 var þess vegna svo sannarlega ár hjúkrunarfræðinga!
Athugasemdir