Árið 2020 var árið sem ég hætti að ferðast. Um mánaðamótin febrúar-mars var dagskrá um bækurnar mínar í Det Kongelige bibliotek í Kaupmannahöfn en síðan hef ég verið heima.
Í fyrra, 2019, fór ég í 16 bókmenntaferðir til útlanda og var reyndar búin að ákveða að draga verulega úr þeim á þessu ári. Jarðarinnar vegna. Eitt sinn spurði leigubílstjóri, sem keyrði mig á BSÍ í annað skiptið á tíu dögum, hvort ég væri flugfreyja. Ég hugsaði með mér: ég þarf að skrifa bók um flugfreyju.
Engu að síður voru fram undan nokkrar ferðir fljótlega eftir Kaupmannahöfn, meðal annars tíu daga upplestrarferð um austurhluta Frakklands, Grenoble, Alpana og Strasbourg. Ég lá andvaka við að reyna að hugsa upp afsakanir til að geta verið heima og skrifað. Eitthvað sem væri ekki mér að kenna eins og til að mynda (saklaust) eldgos. Stuttu síðar bárust fréttir um hraða útbreiðslu víruss í austurhluta Frakklands og öllum bókmenntaviðburðum var aflýst.
Árið 2020 er árið sem ég lauk við skáldsögu um manndýrið, Dýralíf, erfiðustu skáldsögu sem ég hef skrifað. Ég missti líka af ferðalögum um Covid-laust Ísland í sumar því ég var að skrifa. Sama dag og ég lauk við bókina og sendi handritið til Benedikts, útgefanda míns, fæddist Ísey Ava Melkorkudóttir Allikivi sem er skírð eftir sögupersónu í Ungfrú Ísland og höfundi bókar. Þannig að ég varð amma.
Árið 2020 er árið sem samfélagsmiðlar komust langt með að skrásetja alla heimsbyggðina og við Íslendingar komust að því okkur til furðu að erlend ríki væru að kortleggja okkur. Og reyndar er þetta líka árið sem við bættum verulega við neyslu okkar og hentum, samkvæmt fréttum frá Sorpu, fleiri ísskápum, raftækjum og eldhúsinnréttingum en nokkurn tíma áður í sögunni. Þá dettur mér í hug orðtæki sem ég heyrði einhvern tímann í Frakklandi og sel ekki dýrara en ég keypti: því stærri eldhús og flottari græjur, því verri matur.
Það sem ég lærði á árinu
Ég lærði ekki neitt á árinu 2020. Líf mitt hefur ekki verið eins og textinn sem sunginn var í skólanum þegar ég var barn og snerist um að „vita meira og meira, meir í dag en í gær“. Þvert á móti þá veit ég minna í dag en í gær. Á endanum mun ég ekki vita neitt, ég verð autt hvítt blað eins og við fæðingu og þar með verður hringnum lokað.
Þegar ég var 25 ára vissi ég talsvert margt. Ég hafði búið á stúdentagarði í París í nokkur ár og nágrannar mínir í húsinu voru margir pólitískir flóttamenn frá Suður-Ameríku, menntamenn og listamenn að flýja herforingjastjórnir. Sumir höfðu komist undan við illan leik, einn nágranni minn hafði verið pyntaður og flestir þekktu einhvern sem sat í fangelsi eða sem höfðu horfið. Í París umpóluðust átakalínur heimsins og ég fékk eldskírn í að skilja tengsl stórfyrirtækja við stríð og öfgastjórnarfar.
Ég fór að lesa suður-amerískar bókmenntir í frönskum þýðingum og horfa á bíómyndir frá þessum heimshluta. Sama ár kynntist ég njósnara frá erlendu stórveldi, indælum strák, miklum tungumálamanni sem einhverra hluta vegna dúkkaði upp í öllum partíum án þess að honum hefði beinlínis verið boðið.
Síðan þá hefur lífið farið í að aflæra það sem ég vissi. Ég er enn að vonast til að ég hafi rangt fyrir mér í öllu sem ég hef komist að. Það eina sem ég get sagt með vissu – og ég vona að það sé í lagi þótt ég vitni í Dýralíf – „er að sólin kemur upp og hún sest, að maðurinn fæðist og hann deyr, að ekkert er endanlegt eða kyrrt og að maðurinn er landkönnuður í heimi hins síkvika og breytilega ljóss“.
Athugasemdir