Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 4 árum.

Börn: Fórnarlömb covid-faraldursins

Stór­felld fjölg­un til­kynn­inga og mála hjá barna­vernd í covid-far­aldr­in­um gef­ur inn­sýn í hvernig börn líða fyr­ir covid-far­ald­ur­inn og að­gerð­ir gegn hon­um. For­stjóra Barna­vernd­ar­stofu seg­ir að „hrein covid-mál“ séu að koma upp, þar sem for­eldr­ar sem áð­ur komu ekki við sögu barna­vernd­ar brotna und­an ástand­inu og börn­in þola af­leið­ing­arn­ar. Til­kynnt var um þús­und börn í októ­ber ein­um og sér.

Börn: Fórnarlömb covid-faraldursins

Vísbendingar eru um að sífellt fleiri börn verði fórnarlömb covid-faraldursins, í óbeinum afleiðingum af viðbrögðum gegn faraldrinum.

Á bakvið tölurnar eru börn sem lifa við vanrækslu, taka ábyrgð á heimili sínu, sem þurfa að dvelja á heimili með foreldrum undir áhrifum áfengis og fíkniefna, og verða jafnvel fyrir útskúfun jafnaldra sinna vegna skorts á hreinlæti.

Forstjóri Barnaverndarstofu segir að ný, „hrein covid-mál“ séu að koma upp. Fjölskyldur sem áður hafa ekki komið við sögu barnaverndar séu farnar að glíma við alvarleg vandamál sem koma niður á börnum. Tilkynnt var um þúsund börn í ástandi vanrækslu eða ofbeldis, bara í nýliðnum októbermánuði.

Aukning á tilkynningum um heimilisofbeldi

Mikil fjölgun hefur orðið á tilkynningum um heimilisofbeldi á þessu ári. Tvær konur hafa látið lífið vegna heimilisofbeldis og málum á borði Barnaverndar

hefur fjölgað til muna. 

Frá fyrsta janúar þessa árs og þar til 22. nóvember hafa 930 mál er varða heimilisofbeldi borist embætti ríkislögreglustjóra. Yfir sama tímabil árið 2018 voru málin 800. Mál þar sem börn voru beinir þolendur þess ofbeldis eru orðin 127 á þessu ári.

Barnavernd 

Rúmlega ellefu þúsund tilkynningar

Barnaverndarstofa hefur nú gefið út skýrslu um fjölda tilkynninga á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 ásamt mánaðarskýrslu fyrir októbermánuð til þess að meta hvort og hvaða áhrif Covid-19 faraldurinn hefur haft á tilkynningar til barnaverndarnefnda.

Tilkynningum til Barnaverndar fyrstu níu mánuði ársins 2020 hefur fjölgað um 14,3% miðað við sama tímabil árið á undan. Sé hins vegar litið aftur til ársins 2018 til samanburðar, nemur aukningin 27,5%. Þótt leiðrétt sé fyrir fólksfjölgun er aukningin veruleg.

Á þessum fyrstu níu mánuðum ársins 2020 bárust 9.750 tilkynningar er varða 7.552 börn, en oft er það svo að tilkynnar berast vegna sömu barna oftar en einu sinni. Af þessum 7.552 börnum var um 5.304 drengi að ræða og 4.154 stúlkur.

Í október 2020 bárust alls 1.336  tilkynningar vegna 1.038 barna en ekki hafa borist tilkynningar um svo mörg börn á einum mánuði á þessu ári. Sömuleiðis voru tilkynningarnar 17,7% fleiri en í sama mánuði í fyrra. Þá má sérstaklega nefna að ekki hafa fleiri tilkynningar vegna áfengis-og/eða fíkniefnaneyslu foreldris, það sem af er að þessu ári, en nú í október.

Ef tölur frá þessu níu mánaða tímabili eru lagðar saman við tölur frá október mánuði eru tilkynningar á þessu ári orðnar 11.086 vegna 8.590 barna á tíu mánuðum.

Aldursdreifing barnanna fyrir árið 2019Ef aldur barnanna, sem barnaverndanefndir hafa til meðferðar, er skoðaður, má líta á tölur sem teknar eru saman fyrir árið 2019. Af þeim tölum má sjá að dreifing aldurs fyrir árið 2019 er eftirfarandi: Í 24,9% tilvika voru börn á í aldursflokknum 0 til 5 ára, 26,4% voru 6 til 10 ára, 25,2% 11 til 14 ára, 19,8% voru 15 til 17 ára og 2,8% þeirra voru 18 til 19 ára. Ófædd börn voru 0,9% af heildar hlutfallinu. Séu þessi hlutföll yfirfærð á þau 8590 börn sem tilkynnt hefur verið vegna fyrstu tíu mánuði ársins væri aldri þeirra gróflega skipt á eftirfarandi hátt:
Hefur áhyggjur af ástandinuHeiða Björg, forstjóri barnaverndar, rýnir í aukningu á tilkynningum

Forstjóri Barnaverndarstofu

Heiða Björg Pálmadóttir, forstjóri Barnaverndar, segir í samtali við Stundina að Barnaverndarstofa hafi áhyggjur af því að  það ástand sem ríkir vegna Covid-19, séu kjöraðstæður fyrir aukningu á ofbeldi gegn börnum. „Tilkynningum til barnaverndar hefur fjölgað töluvert á þessu ári og það sem við sjáum einna helst er að tilkynningum um ofbeldi og vanrækslu hefur fjölgað,“ segir Heiða. 

„Við héldum að árið í fyrra yrði metár en við erum búin að slá það met all hressilega.“

Þetta segir hún einnig endurspeglast í tölum frá Barnahúsi en árið 2019 var metfjöldi skýrslutaka í húsinu, eða 150 mál. Þá var hlutfallið þannig að í tveimur þriðju af tilfellum var tekin skýrsla vegna kynferðisofbeldis en einn þriðji skýrslna vegna líkamlegs eða heimilisofbeldis. Það sem af er ári eru komnar 228 skýrslur inn á borð hjá Barnahúsi og þá er hlutfallið helmingur kynferðisofbeldi og helmingur líkamlegt- og heimilisofbeldi. „Við héldum að árið í fyrra yrði metár en við erum búin að slá það met all hressilega. Hlutfall líkamlegs- og heimilisofbeldis er að breytast rosalega hratt frá áramótum,“ segir hún. 

Neysla foreldra

Hún segir hluta af þeirri aukningu sem má finna hvað varðar tilkynningar um vanrækslu og heimilisofbeldis, megi rekja til aukinnar vímuefna- og áfengisneyslu foreldra í faraldrinum en það fellur undir vanrækslu ef foreldrar barna eru í neyslu.

Enn fremur segir hún að formönnum barnaverndanefnda sveitafélagana komi saman um að tilfinning þeirra sé að tilkynningum, sérstaklega er varðar vanrækslu, hafi fjölgað vegna neyslu foreldra. 

Aðspurð um hvers vegna svo skyldi vera segir hún að í árferði sem slíku, sem Covid-19 hefur skapað, sé tilhneiging til þess að áfengis- og vímuefnaneysla fólks aukist. „Þú notar áfengi eða vímuefni þegar þér líður illa. Fólk er búið að búa við það ástand í fleiri mánuði vegna veirunnar. Það er óvissa, fjárhagslegar áhyggjur og heilsufarslegar áhyggjur,“ nefnir hún.

Í því samhengi nefnir hún einnig að þegar skemmti- og vínveitingastöðum hafi verið lokað vegna sóttvarnaráðstafana, hafi neysla fólks breyst, tilfærst af fyrrnefndum stöðum og inn á heimilin. „Fólk sem áður fór út til þess að neyta áfengis eða vímuefna á skemmtistöðum eða í samkvæmum, sem sendi þá börnin sín í pössun á meðan, eru núna heima hjá sér og börnin þeirra líka,“ segir hún. 

„Þetta eru líka foreldrar sem missa tökin, foreldrar sem beita röngum uppeldisaðferðum í einhverskonar uppgjöf eða vonleysi.“

Þá hafa beiðnum um varanlegt fóstur fjölgað og einn þeirra þátta sem það skýrir er neysla foreldra. „Ef við lítum til seinustu fimm til tíu ára þá er að fjölga dómum um forsjársviptingu, að börn séu tekin varanlega af heimilinu. Eitt af því sem skýrir það er að neysla foreldra og almennt neyslumynstur í samfélaginu hefur verið að breytast,“ segir Heiða. 

Þá nefnir hún að foreldrar séu að neyta harðari vímuefna. „Þegar fólk er komið í svona harða neyslu eru börnin þeirra komin í meiri hættu. Vanrækslan er meiri og þá þarf að grípa til harðari aðgerða til að vernda þau börn.“

Hrein covid mál

Þá segir hún að barnaverndarnefndirnar séu að sjá fjölgun í málum sem hún kallar „hrein covid-mál“. „Þar að segja fjölskyldur sem við höfðum ekki áhyggjur eða afskipti af áður, en svo veldur álagið vegna Covid því að það riðlast allt hjá þeim fjölskyldum og niðurstaðan er þessi. Það koma mál í Barnahús þar sem aðstæður eru þannig.“

Sömuleiðis er um fjölskyldur að ræða sem barnavernd hefur haft afskipti af áður, svokölluð opin mál. „Þá er það líka tilfinning sem formenn barnaverndanefndana lýsa sem er sú að þungu málin á borðunum hjá þeim séu að þyngjast,“ segir Heiða.

Heiða segir að þegar komi að líkamlegu ofbeldi gegn börnum sé mörg þeirra mála sem komi upp á borð ekki dæmi um foreldra sem séu vondir eða ætli sér að beita ofbeldi. „Þetta eru líka foreldrar sem missa tökin, foreldrar sem beita röngum uppeldisaðferðum í einhvers konar uppgjöf eða vonleysi,“ segir hún. 

Eftir því sem líður á faraldurinn, þeim mun verra verður ástandið fyrir börninHákon Sigursteinsson, framkvæmdastjóri barnaverndar, segir að líta þurfi til afleiðinga faraldursins til lengri tíma

Ástandið versnar eftir því sem líður á faraldurinn

Hákon Sigursteinsson, framkvæmdastjóri barnaverndar, segir í samtali við Stundina, að erfitt sé að meta hvort sú aukning sem hefur orðið á tilkynningum til barnaverndar, sé vegna aukningar á ofbeldi eða vegna þess að meðvitund fólks um hugsanlegt ofbeldi sem afleiðing einangrunarinnar hafi aukist og þess vegna berist fleiri tilkynningar. Í því samhengi nefnir hann herferðina sem farið var í upphafi faraldursins.

„Eftir því sem líður á faraldurinn, því verra verður ástandið fyrir börnin.“

Þó tekur hann fram að mikilvægt sé að huga að áhrifum Covid á þennan málaflokk til lengri tíma litið. „Þeir sem eiga erfitt með að þola slíka einangrun geta leiðst út í áfengis-eða vímuefnaneyslu eða óæskilega hegðun. Með tilliti til þess að ala upp barn samhliða er það mjög slæmt. Ég tel að eftir því sem líður á faraldurinn, þeim mun verra verður ástandið fyrir börnin.“

Fleiri konur með barni í neyslu

Eins og kom fram í máli Heiðu hjá Barnaverndarstofu hefur tilkynningum er varðar áfengis-og vímuefnaneyslu foreldra fjölgað. Hákon segir það geta tengst auknu framboði á vímuefnum á Íslandi. „Ný efni og ný lyf hafa verið að berast hingað til lands og fólk er ýmist að prófa þau eða gera tilraunir með þau.“

Þar að auki segir hann samfélagsmiðla spila þar ákveðið hlutverk. „Með þeim er orðið mun auðveldara að nálgast upplýsingar og efni. Að öðru leyti má svo velta fyrir sér hvort samfélagið sé að breytast með tilliti til þessa, erum við sem samfélag að leita eftir sælu sem lífið sjálft er ófært um að færa okkur?“ spyr Hákon. 

Þá segir hann að aukning á tilkynningum er varða líf ófæddra barna megi setja í samhengi við aukna neyslu. „Það sem af er þessu ári hafa borist 72 tilkynningar er varða konur í neyslu sem ganga með barn miðað við þær 64 sem bárust allt árið í fyrra.“

Á þessu ári hefur til að mynda barn verið tekið úr umsjón móður á fæðingardeild. 

Fjölþætt vandamál

Að sögn Hákonar eru flestir þjónustuþegar barnaverndar fólk sem vill börnum sínum allt það besta, en samhliða uppeldinu er tiltekinn vandi til staðar.

Það má skipta vandanum í þrjá flokka sem eru neysla áfengis-og vímuefna, geðrænn vandi eða vandi sem tengist þroska eða almenni færni. Jafnframt sé þá oft um ræða samvinnandi vanda þegar kemur að geð- og fíknivanda. „Í okkar vinnu erum við að fást við fjölþættan og flókinn vanda sem snertir mörg önnur kerfi en okkar. Það sem við sjáum er að það er tiltekinn hópur fólks í samfélaginu sem eru notendur á mörg eða öll kerfin, hvort sem það er heilbrigðiskerfið, félagslega-, dóms- eða skólakerfið.“

Í því samhengi segir hann mikilvægt að kerfin vinni vel saman. „Þar af leiðandi skipir það rosalega miklu máli að þessi kerfi bjóði upp á góða stigskipta þjónustu og vinni að þörfum barna eins fljótt og hægt er með snemmtækri íhlutun og öflugri samvinnu aðila á borð við ungbarnaeftirlitið, mæðravernd, heilsugæslu, leikskóla, grunnskóla og svo framvegis.“

En einmitt þessi krafa um samvinnu kerfanna fyrir hönd barnanna er að sögn Hákonar í fullu samræmi við nýtt Farsældarfrumvarp félags- og barnamálaráðherra sem er núna til vinnslu á Alþingi.

Missa tækifæri eftir áföll

Hluti af þeim fjölþætta vanda sem Hákon bendir á eru áföll sem þjónustuþegar barnaverndar hafa orðið fyrir. 

Áföllin eru að sögn Hákonar stór þáttur í því að þeir foreldrar sem þiggja þjónustu barnaverndar ná ekki sama brautargengi og aðrir foreldrar. „Annars vegar erum við að tala um áföll sem fólk verður fyrir gegnum sitt lífshlaup, hvort sem það er stórt áfall eða röð minni áfalla sem leiða svo til þess að einstaklingar fá ekki sömu tækifæri og aðrir til að blómstra í lífinu. Hins vegar erum við að tala um áföll sem geta til að mynda orðið strax við fæðingu. Ef einstaklingur fæðist inn í aðstæður sem eru ekki viðunandi, vegna ytri aðstæðna eins og neyslu eða veikinda eða á foreldra sem eru ekki með foreldrafærni sem telst æskileg, getur það skapað ný áföll.“

Þá nefnir hann sem dæmi að í mörgum þeim tilvikum er varða tilkynningar um vanrækslu er foreldri sem á langa áfallasögu að baki.

Það geti orðið til þess að áföllin flytjist á milli kynslóða. Einstaklingar sem hafa sjálfir upplifað ofbeldi eða vanrækslu geti, þegar þeir verða foreldrar, þurft á þjónustu barnaverndar að halda. „Flestir okkar foreldrar elska börnin sín en hafa ekki þá seiglu, úthald, færni eða lífssögu sem býður þeim nægilega vel upp á það að standa sig eins vel í foreldra hlutverkinu eins og þau myndu óska sér. Þess vegna skiptir það höfuðmáli fyrir okkur sem samfélag að styðja foreldra eins vel og hægt er. Það er engin skömm fólgin í því að fá aðstoð við uppeldi barna, hvort sem það er í gegnum stórfjölskylduna eða stofnanir samfélagsins,“ segir Hákon.

Alvarlegustu atvikin varða líkamlegt ofbeldi og vanræksluSigurður Örn Magnússon fer í útköll á vegum barnaverndar og hefur því yfirsýn yfir ástand barnanna sem tilkynnt er vegna

Fjórar tegundir vanrækslu

Sigurður Örn Magnússon, deildastjóri bráða- og viðbragðsteymis hjá Barnavernd Reykjavíkur, lýsir í samtali við Stundina hvers eðlis vanræksla og ofbeldið er sem tilkynnt hefur verið á árinu.

Hvað varðar vanrækslu segir Sigurður hana hafa margvíslegar birtingarmyndir. Í flokkunarkerfi barnaverndar er vanræksla flokkuð í fjóra flokka: Líkamleg vanræksla, vanræksla varðandi umsjón og eftirlit, vanræksla varðandi nám og tilfinningaleg vanræksla.

Svöng og illa klædd börn

Líkamleg vanræksla er flokkuð sem svo að foreldri hefur brugðist skyldu sinni til að sinna grunnþörfum barns til að mynda að fæða það, klæða, þrífa það og hýsa. 

Sigurður segir það hafa komið upp árið 2020 að börn fái ekki nægilegan mat. „Oft er þá ekki til peningur á heimilum fyrir mat. Þá eru börn til dæmis að mæta í skóla og leikskóla svöng. Í sumum tilfellum eru þau ekki skráð í mat í skólanum og nestisbúnaður þeirra er ekki nægilega góður. Eitt dæmi um það eru börn sem mæta með útrunnið eða myglað nesti í skólann eða leikskólann.“

Þá hefur barnavernd einnig borist tilkynningar um að hreinlæti barnanna sé ábótavant. „Við fáum upplýsingar og tilkynningar frá skólum og leikskólum þar sem er sett út á hreinlæti, að börnin séu skítug, fötin þeirra séu skítug. Það eru til dæmis dæmi um það að börn séu böðuð svo sjaldan að þau lykti illa. Við höfum fengið nokkur dæmi frá skólum þar sem börn eru illa lyktandi sem hefur svo áhrif á félagslega stöðu barnsins í skólaumhverfinu. Ég veit um eitt dæmi þar sem börn hafa ekki viljað leika við barn út af slíku,“ segir Sigurður. 

„Þá eru börn til dæmis að mæta í skóla og leikskóla svöng.“

Einnig eru dæmi um að óviðunandi klæðnað varðandi að verja börn gegn veðri. „Það eru nokkur dæmi um það að börn hafi ekki mætt í sokkum eða hlýjum fötum í skóla eða leikskóla, fötin þeirra séu götótt eða fatnaðurinn of lítill,“ segir hann þá. 

Enn fremur eru þess dæmi að heilbrigðisþjónustu sé ábótavant hjá barni en það getur þýtt að barn fái ekki viðeigandi meðferð við veikindum sínum vegna vanrækslu. „Á þessu ári höfum við fengið tilkynningar um að heilbrigðisþjónustu sé ekki sinnt vegna foreldra og við höfum þá í þeim tilvikum komið því í farveg,“ segir Sigurður.

Ekkert rúm til að sofa í

Heimili barnanna geta verið í mikilli óreiðu og húsakosti getur verið ábótavant. Það getur birst í því að húsnæði barnsins er óíbúðahæft, skortur er á nauðsynjum fyrir eðlilegt heimilishald, börnum geti vantað rúm til að sofa í eða búið er að taka hita eða rafmagn af vegna fjárskorts. Þá getur vantað upp á að líkamlegu öryggi barna sé gætt í húsnæðinu, þau hafi aðgang að rafmagnssnúrum sem þau leggja sér til munns.

„Stundum þarf vettvangsteymi á vegum Reykjavíkurborgar að koma inn í aðstæður til að þrífa heimili“

Sigurður segist kannast við þessi atriði og nefnir dæmi um óreiðu á heimili. „Við komum oft inn í aðstæður þar sem við erum að glíma við foreldra sem eiga við andlega erfiðleika að stríða sem birtist meðal annars í söfnunaráráttu og þá er mikil óreiða á þeim heimilum og börn geta vart fótað sig,“ segir Sigurður.

Hann bendir þó á að í þeim tilfellum er kallað til félagslegar heimaþjónustu, úrræði sem Reykjavíkurborg býður upp á. Þá er komið inn á heimilið og tekið til og komið á reglu. „Stundum þarf vettvangsteymi á vegum Reykjavíkurborgar að koma inn í aðstæður til að þrífa heimili því foreldrar hafa ekki getuna til þess.“

Grátandi börnum ekki sinnt

Vanræksla varðandi umsjón og eftirlit er skilgreind á þann hátt að foreldri veitir barninu ekki nauðsynlega umsjón og eftirlit og því hefur öryggi barns og velferð verið í hættu. Þetta á við þegar barnið hefur ekki líkamlega, hugræna eða tilfinningalega burði til að vernda sig sjálft í aðstæðunum.

Sigurður segir aukna áfengis-og vímuefnaneyslu tengjast tilkynningum um vanrækslu af þessu tagi. „Það eru mjög mikið af tilkynningum þar sem börn eru í aðstæðum þar sem foreldrar þeirra eru að nota vímuefni og eru undir áhrifum,“ segir Sigurður.

Annað sem hann segist hafa tekið eftir varðandi þá foreldra sem hann sinnir er aukin vanlíðan. „Við fáum tilkynningar frá spítalanum ef foreldrar eru með lífsleiða hugsanir og sjálfskaðandi hugsanir og í einhverjum tilvikum hafa reynt að enda líf sitt. Ég myndi segja að það væri aukning á þessu, þessari vanlíðan hjá foreldrum sem tengja má við ástandið vegna Covid.“

Foreldrar ekki til staðar andlega

Birtingamyndir þessa tegundar vanrækslu eru ýmsar. Það getur átt við þegar foreldri er til staðar en fylgist ekki nægilega vel með barni sínu þannig að það getur farið sér að voða, þegar barn er skilið eftir eitt án þess að hafa til þess aldur og þroska, barn er skilið eftir hjá óhæfum aðila, barn er ekki verndað og janfnvel í hættu vegna annarlegs ástand foreldris eða barni leyft eða hvatt til að taka þátt í ólöglegu eða ósiðlegu athæfi.

Að sögn Sigurðar eru dæmi um það á þessu ári að foreldrar séu ekki að sinna börnum sínum sem skyldi sem getur orðið til vanörvunar barna. „Við fáum tilkynningar um að foreldri sé til staðar á heimilinu en ekki til staðar andlega. Það getur birst þannig að barnið gráti án þess að vera sinnt, grunur sé um þroskafrávik hjá barni sem á að vera byrjað að tala eða ganga. Svo hefur maður heyrt dæmi um að barn sé með flatann hnakka vegna þess að það hafi legið of lengi og um bruna á bleyjusvæðum barna vegna þess að það er ekki skipt á þeim nógu oft.

þá eru einnig dæmi um að lítil börn séu skilin eftir hjá systkini sem er of ungt til að passa það eða skilin eftir ein heima. „Þá hefur það komið fyrir að ung börn eru skilin eftir sofandi heima á meðan það er farið með annað barn á æfingu eða í skólann. Foreldrar bera það stundum fyrir sig að það hafi bara verið í stutta stund en barn á aldrei að vera skilið eitt eftir, það er með öllu óviðunandi að skilja kannski eins árs gamalt barn eftir eitt heima.“

Einnig hefur komið upp á þessu ári að börn séu látin í pössun hjá ættingjum sem eiga við vandamál að stríða, hvort sem það er misnotkun lyfja eða neysla vímuefna, sem setur barnið í hættu. Enn fremur eru þess dæmi um að foreldrar gefi börnunum sínum vímuefni.

Tekur eftir aukningu á ofbeldismálum

Sigðurður segist taka eftir aukningu á málum er tengjast heimilisofbeldi á þessu ári. „Andlegt ofbeldi og tilfinningalegt ofbeldi flokkast undir heimilisofbeldi. Við vitum um börn sem horfa upp á foreldra eða einhvern annan heimilismann í átökum og það er klár aukning í því á þessu ári,“ segir hann. 

„Svo hefur maður heyrt dæmi um að barn sé með flatann hnakka vegna þess að það hafi legið of lengi.“

Tilfinningalegt ofbeldi er skilgreint af barnavernd sem ofbeldi sem foreldri beitir með því að gera lítið úr barni, gerir óraunhæfar kröfur til þess, fær barnið til að sinna sínum þörfum eða lætur það verða vitni að ofbeldi.

Þá hefur tilkynningum um hávaða fjölgað. „Það er aukning í tilkynningum er varða öskur og læti og það sé verið að tala niðrandi til barna og ég held að það tengist ástandinu í Covid, foreldrar eru með styttri þráð,“ segir Sigurður.

Styttri þráður getur einnig birst í að foreldrar beiti börnin sín andlegu og líkamlegu ofbeldi í refsingarskyni við óhlýðni. „Við höfum verið að fá tilkynningar um það að ef börn eru óþekk eða óhlýðin, sinna ekki náminu sínu eða sína einhvern hegðunarvanda eru foreldrar að öskra á börnin sín, segja ljóta hluti við þau, setja þau í kalda sturtu, þau eru slegin, rassskellt, kýld, sparkað í þau, hlutum hent í þau, þeim er hótað að vera sleginn með beltum og stundum er látið verða af því.“

Tilkynnendur

Í lögum um barnavernd segir að tilkynna skuli um aðstæður barns þegar ástæða er til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofni heilsu sinni eða þroska í alvarlega hættu.

Einnig ber að tilkynna þegar sá sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málefnum barna og verður í starfi sínu var við að barn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða að barn stofni heilsu sinni eða þroska í alvarlega hættu.

Hjá Barnavernd eru tilkynnendur flokkaðir í ellefu flokka. Það er þá barnið sjálft, ættingjar, nágrannar, önnur barnaverndarnefnd, félagsþjónusta, lögregla, skólaþjónusta, leikskóli, heilbrigðisþjónusta, foreldrar barns og aðrir. 

Lögregla

Lögreglan á Suðurnesjum

Lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Suðurnesjum segist taka undir það að  málum er varða heimilisofbeldi hafi fjölgað á tímum Covid og að hann finni fyrir því í sínu starfi.

Eitt af því sem hann nefnir í þessu samhengi sé að foreldrar og börn séu meira á heimilum sínum vegna ástandsins og börn verði því í auknum mæli vitni að átökum á milli foreldra sinna. Í þeim tilfellum verði börn ekki fyrir beinu ofbeldi af hálfu foreldra sinna en ofbeldið sé frekar af andlegum toga. 

Þá bendir hann á að mikil fjölgun sé á málum er tengist börnum frá því í fyrra. Auk þess segir hann að meirihluti þeirra mála sem eru uppi á þeirra borðum á þessum tíma séu vegna aðila sem þau hafa ekki þurft að hafa afskipti af áður.

 „Yngsta barn sem var á heimili þar sem heimilisofbeldi átti sér stað á milli foreldra var tæplega mánaðargamallt.“ 

Hann segir að mat þeirra lögreglumanna sem vinni í þessu málaflokki, sé að áfengis-og fíkniefnaneysla sé algeng og tíðari eftir að Covid skall á og að það hafi ótvíræð áhrif á börn sem við það búa.

Hrædd börn

Í útköllum er varða heimilisofbeldi segir lögreglufulltrúinn börnin lýsa yfir miklum ótta, að þau séu í uppnámi og almenn vanlíðan sé algeng.

Enn fremur lýsir hann því að á þeim heimilum sem hann sinnir útköllum vegna séu fjárhagsvandræði algeng sem valdi mikilli óreiðu í lífi barnanna meðal annars í því að ekki sé til matur handa þeim.

Hann segir algengt að börn flýji heimili sín og lögreglan þurfi því að leita af þeim því ekki eru alltaf aðrir ættingjar til staðar.

Hann segir að í þeim málum  sem lögreglan á Suðurnesjum komi að séu börn lamin, munum sé kastað í þau, þeim hótað lífláti og oft sé það svo að þau reyni að koma því foreldri sem einnig verði fyrir ofbeldi til bjargar en verða þá sjálf fyrir ofbeldi. Þá eru einnig dæmi um börn sem verða fyrir kynferðisofbeldi af hálfu nákomins aðila og að brotaþolarnir sé oft mjög ung börn.

Yngsti brotaþoli í máli er tengist heimilisofbeldi hjá lögreglunni á Suðurnesjum á þessu ári er tæplega þriggja ára og yngsta barn sem var á heimili þar sem heimilisofbeldi átti sér stað á milli foreldra var tæplega mánaðargamallt. 

Álagið á heimilunum er hættulegraMargrét Edda Yngvadóttir er félagsráðgjafi á þjónustumiðstöð Breiðholts en ásamt þeirri vinnu fer hún í útköll á vegum barnaverndar

Félagsráðgjafi mætir á vettvang

Margrét Edda Yngvadóttir, félagsráðgjafi á þjónustumiðstöð Breiðholts, sinnir útköllum vegna heimilisofbeldis ásamt lögreglunni og í þeim tilvikum er barn á við sögu, barnavernd. 

Hlutverk hennar á vettvangi er að vera til staðar fyrir þolendur og gerendur, veita þeim sálrænan stuðning og meta stöðu þeirra með úrræði í huga. 

Margrét segir að þegar það er ekki barn á heimilinu hafi þolandi val um að nýta sér félagsráðgjafa, sem í flestum tilvikum er raunin, en ef barn er á heimilinu sé slík þjónusta ekki valkvæð heldur skylda. 

Covid hefur slæm áhrif

Að mati Margrétar hafa þeir þættir sem hafa áhrif  heimilisofbeldi aukist í Covid, bæði á heimilum þar sem ofbeldi á sér stað og á heimilum þar sem það á sér ekki stað. „Áhrifaþættir fyrir ofbeldi á heimilum eru einangrun, fjárhagslegir erfiðleikar, félagslegir erfiðleikar, atvinnuleysi og neysla áfengis. Allt það sem við vitum að hefur áhrif á auknar líkur á ofbeldi hefur aukist á heimilum þar sem er heimilisofbeldi og á heimilum þar sem það er ekki. Það eru allir undir álagi í dag og á þessum heimilium er álagið miklu hættulegra,“ segir Margrét.

„Fólk sem var í erfiðri félagslegri stöðu fyrir er í mjög erfiðri stöðu núna.“

Hvað varðar vanrækslu á börnum segir hún hana í flestum tilvikum tilkomna vegna erfiðrar félagslegrar stöðu foreldra. „Fólk sem var í erfiðri félagslegri stöðu fyrir er í mjög erfiðri stöðu núna,“ segir hún.

Þá segist hún sjá í sinni vinnu sem félagsráðgjafi í þessum málaflokki og sem félagsráðgjafi í útköllum lögreglu, að þau heimilis sem ofbeldi ríkir séu í verra standi í faraldrinum. Þá hafi fátækt orðið meiri sem lýsir sér til að mynda í því að húsakostur þeirra fjölskylnda fer versnandi sem hefur áhrif á hag barnanna sem þar búa. „Ef það er slæmt efnahagsástand í samfélaginu þá leggst það þyngst á þessar fjölskyldur.“

Heilbrigðisþjónusta

Á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 bárust 953 tilkynningar frá heilbrigðisþjónustu eða 10% af tilkynningum. Á árinu 2020 hefur Landspítalinn sent 46 tilkynningar til barnaverndar sem er aukning frá því í fyrra þegar spítalinn sendi 33 tilkynningar en fækkun frá árinu 2018 þegar tilkynningarnar voru 51 talsins. 

Flestar tilkynningar innan spítalans bárust frá bráðadeild í Fossvogi eða 18 tilkynningar sem er fækkun frá árunum tveim þar á undan en 2019 sendi bráðadeild frá sér 19 tilkynningar og árið þar á undan 34. 

„Við sjáum enga aukningu“Jón Magnús Kristjánsson er yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi

Ekki aukning á bráðamóttöku

Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðamóttu Landspítalans í Fossvogi, segir í samtali við Stundina að samkvæmt þeim tölfræðigögnum sem hann búi yfir, sé ekki að sjá aukningu á tilkynningum til barnaverndar á bráðamóttökunni né aukning í komum vegna heimilisofbeldis, ef eitthvað er sér hann fækkun í komum vegna heimilisofbeldi.

Þá tekur Jón undir með framkvæmdastjóra Barnaverndarstofu að aukning á tilkynningum þurfi ekki að þýða aukningu á tilvikum á ofbeldi. „Það er hugsanlegt að ofbeldi hafi ekki aukist heldur einungis tilkynningum,“ segir hann.

„Það hafa komið upp getgátur hjá okkur að einangrunin sem Covid hefur í för með sér feli vandann sem komi upp í opinberum tölum hjá spítalanum.“

Þó segir hann erfitt að ná utan um fjölda þeirra er leita á bráðamóttökuna vegna heimilisofbeldis því ekki sé alltaf greint frá því við komu. „Ef ég skoða hins vegar tölur um líkamsárásir og heimilisofbeldi frá fyrsta janúar til lok október mánaðar þá voru 388 komur í fyrra vegna þessa og 392 komur á þessu tímabili þetta árið, þetta er ekki marktæk aukning sem passar við þá tilfinningu sem við sem störfum hér höfum varðandi aukningu á ofbeldi,“ segir hann þá. 

Fækkun í komum

Yfir það heila segir Jón að á þessu ári sé 20% fækkun í komum á bráðamóttökuna. „Við höfum hvatt fólk til að nota heilsugæsluna og upplýsingasímann 1700 til að fólk komi síður hingað og beri mögulega með sér smit eða smitist hér hjá okkur. Það hefur gert það að verkum að það hefur orðið fækkun í komum á bráðamóttöku, sér í lagi í þeim mánuðum þar sem samkomutakmarkanir hafa verið í gildi, þá bæði í mars og apríl og svo núna í október og nóvember.“

Þá segir hann að áhyggjur þeirra er starfi á bráðamóttökunni sé sú að fólk leiti ekki til þeirra vegna ofbeldi sem það verður fyrir vegna Covid og það gæti skýrt hvers vegna aukning um komur vegna heimilisofbeldis og ofbeldi gegn börnum sé ekki að finna í þeirra gögnum. „Það hafa komið upp getgátur hjá okkur að einangrunin sem Covid hefur í för með sér feli vandann sem komi upp í opinberum tölum hjá spítalanum. Þetta kom til umtals hjá okkur í vor en við höfum ekki getað staðfest neitt. Við höfum ekki séð að okkar tölur passi við þá umfjöllun sem hefur verið í samfélaginu og fjölmiðlum,“ segir hann.

Það eigi þá einnig við tölur um það hversu margir sæki sér þjónustu þeirra vegna neyslu-og fíknivanda. „Við höfum verið með greiningu á því hversu margir koma til okkar vegna neyslu-og fíknivanda og sú tala fer lækkandi í ár. Við höfum séð klára aukningu á komum vegna neyslu fíkniefna á síðustu árum en erum ekki að sjá að það haldi áfram inn í þetta ár,“ segir hann þá.

Ættingjar tilkynna

Fyrstu níu mánuði ársins 2020 hafa borist 560 tilkynningar frá ættingjum sem nemur 5,9% af heildar tilkynningum en í fyrra voru þær tilkynningar 402 á sama tímabili eða 4,8% af heildar tilkynningum.

Stundin fékk að segja sögu nokkura kvenna sem tilkynnt hafa til barnaverndar á þessu ári. Konurnar kusu að koma fram undir nafnleynd og því verður þeim og öðrum gefin ný nöfn og í einhverjum tilvikum breytt um kyn.

Eldri systkini sinna þeim yngri

Elísabet hefur þrisvar sinnum á þessu ári tilkynnt systur sína Báru, sem á þrjú börn,  til barnaverndar en Elísabet tilkynnti í fyrsta sinn á þessu ári. „Eftir á að hyggja hefði það átt að gerast fyrir löngu síðan,“ segir hún.

Fyrstu viðvörunarmerki fóru af stað þegar Elísabet heyrði í skólanum sem hún vinnur í að litla frænka hennar, sem sækir skólann, hafi orðið fyrir vanrækslu af hálfu foreldra sinna. „Það var svo eftir að fjórtán ára systir hennar sagði mér frá alvarlegri vanrækslu og andlegu ofbeldi sem ég ákvað að tilkynna,“ segir Elísabet sem lýsir því að hafa upplifað mjög blendnar tilfinningar við að tilkynna systur sína. 

Hún lýsir því sem svo að börnin hafi glímt við þunglyndi og kvíða vegna aðstæðna á heimilinu. „Elsti strákurinn hefur átt erfitt með að stjórna tilfinningum sínum og eldri stelpan hefur sýnt einkenni átröskunar og hefur undanfarið átt erfitt með að mæta í skólann vegna vanlíðan. Yngsta stelpan upplifir mikinn kvíða og er alla jafna mjög óróleg,“ segir Elísabet.

Bára hefur átt við áfengisvandamál að stríða frá því að börnin voru ung. „Þegar þau voru yngri drakk móðir þeirra mikið og átti erfitt með að sinna þeim. Elsti strákurinn sá reglulega um að gefa sér og systur sinni að borða og sá um að svæfa hana og vekja. Mamma þeirra var aldrei í fastri vinnu, drakk langt fram á nótt, allar helgar og vaknaði mikið seinnipartinn,“ segir hún.

Þegar elsti strákurinn flutti frá Báru þurfti eldri systirin að taka við hans hlutverki. „Hann var svo reiður út í mömmu sína. Hún ætlaðist til þess að hann tæki ábyrgð á sér gagnvart systkinum sínum sem hún gat ekki sinnt. Þá þurfti hann að sækja systur sínar í skólann og koma þeim í tómstundir. Á endanum gat hann ekki meir og flutti til pabba síns.“

Þá var komið að eldri systurinni að sækja yngri systur sína í skólann. „Hún sótti hana alla daga, sama hvernig veðrið var og sá til þess að hún myndi vakna á morgnana. Þegar mamma þeirra varð að komast út passaði hún litlu systur sína og þær urðu að sjá um kvöldmatinn sjálfar.“

 „Elsti strákurinn sá reglulega um að gefa sér og systur sinni að borða og sá um að svæfa hana og vekja.“

Bára hætti svo að drekka en ástandið versnaði þrátt fyrir það. „Hún flutti með stelpurnar langt frá skólanum þeirra og vinum. Hún neyddi yngri stelpuna til að skipta um skóla og eldri systir hennar varð að vakna klukkan sex á morgnana til að taka strætó í skólann þrátt fyrir að mamma þeirra væri á bíl. Yngri stelpan svaf reglulega yfir sig þar sem Bára vaknaði aldrei fyrir hádegi og kom oft mjög svöng í skólann og lærði sjaldnast heima. Á einum tímapunkti var leigan hjá Báru svo há að það var ekki alltaf til matur og núna árið 2020 var reglulega morgunkorn eða hafragrautur í matinn, ef það var til mjólk,“ segir Elísabet. 

Þetta hafði áhrif á að Bára átti erfitt með að stjórna skapi sínu. „Hún hafði litla sem enga stjórn á tilfinningum sínum og það bitnaði á börnunum. Hún missti stjórn á skapi sínu og hellti sér reglulega yfir þau og í stað þess að biðjast afsökunar útskýrði hún fyrir þeim hversu erfitt hún hefði það og hversu illa hún væri stödd fjárhagslega,“ segir Elísabet.

Ástandið versnaði vegna Covid

Ástandið heima hjá Báru hafði verið, eins og kemur fram hér að ofan, slæmt í einhvern tíma en versnaði svo vegna Covid. „Bára og þáverandi maðurinn hennar misstu bæði vinnuna í Covid. Ofan á það slitu þau svo sambandi sínu á mjög slæman hátt. Eftir það átti hún hvorki efni á leigu né mat og flutti með litlu frænku mína út á land án þess að segja nokkrum frá því, líklega til að flýja skuldir en líka barnsföður sinn en hann hafði lýst því yfir að vilja fá yngstu stelpuna til sín,“ segir Elísabet þá. 

Þá segir Elísabet að Bára hafi greinst með geðhvarfasýki í byrjun árs og hafi síðar á árinu viðurkennt að hafa misnotað lyfin sín.

Tilkynnti vegna aukinnar drykkju

Í öðru tilfelli segir frá Önnu, sem tilkynnti einnig í fyrsta skipti til barnaverndar á þessu ári, fyrst í mars og nú síðast í nóvember, eða í þeim mánuðum sem tilkynningum til barnaverndar fjölgaði verulega.

Hún tilkynnti vegna fyrrverandi eiginmanns síns, Óskars, en hún segir hann hafa beitt börnin þeirra andlegu og líkamlegu ofbeldi sem hafi aukist á tímum Covid. Manninn segir hún drykkfelldann en drykkja hans hafi aukist verulega á meðan faraldrinum hefur staðið. „Í fyrra hófst líkamlega ofbeldið en hann hefur lengi beitt þau andlegu ofbeldi,“ bætir Anna við.

Mynd úr gagnasafni

Anna segir Óskar hafa uppnefnt dætur þeirra og notað líkamlegt vald til þess að refsa þeim. „Hann uppnefnir þær, kallar þær aumingja og tíkur. Hann hefur oft rekið þær í að fara þrífa eða ganga frá og í þeim tilvikum hefur hann rifið í þær eða togað í þær. Í eitt skiptið togaði hann eina þeirra upp stiga svo hún meiddi sig.“

Atvikið sem fékk hana til að tilkynna var þegar Óskar kom ofurölvi inn á heimili sitt þegar sonur þeirra var hjá honum. „Hann hafði verið brjálaður í skapinu í einhvern tíma, til dæmis í eitt skipti braut hann niður hurð en eitt kvöldið kom hann dauðadrukkinn heim og sonur minn þurfti að hjálpa honum upp stiganna og upp í rúm og sonur minn sagði mér eftir á að hann hefði fengið hálfgert áfall eftir þetta,“ segir hún.

Sprautupartý á heimili þriggja barna

„Málin sem ég hef tilkynnt vegna eru öll tengd neyslu vímuefna í kringum börn og á meðgöngu,“ segir Kristín sem tilkynnti systur sína og vinkonu. 

Systir hennar, Edda, hefur verið í neyslu í tíu ár með hléum. „Hún var farin að keyra með litla strákinn sinn undir áhrifum þegar hún var líka ólétt af öðru barninu sínu. Hún hélt miklu leyndu en þarna náði hún ekki að blekkja mig. Ég hefði hringt fyrr ef ég hefði vitað að þetta væri svona slæmt.“

„Hann uppnefnir þær, kallar þær aumingja og tíkur.“

Móðir þeirra systra sá mikið um son Eddu á þessum tíma og fékk því stuðning frá fjölskyldunni en Kristín segir aðra sögu að segja af yngra barninu. „Það er annað mál með barnið sem hún var ólétt af, barnið upplifði mikil fráhvörf í þrjár vikur eftir fæðingu og það er erfitt að segja hvaða áhrif þetta hefur á það til frambúðar.“ Edda hafði þá verið háð verkjalyfinu Oxycodone ásamt róandi lyfjum.

Kristín tilkynnti þá líka vinkonu sína. „Ég hringdi um leið og ég heyrði af því að það væri sprautupartý í gangi heima hjá henni og þrjú börn á heimilinu. Ótrúlegt en satt eru þessi börn ennþá heima hjá sér þrátt fyrir tilkynningar og staðfesta neyslu.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Afleiðingar Covid-19

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár