Þegar fyrstu Icesave samningalotunni var að ljúka var okkur fyrst sagt að búast við „glæsilegri niðurstöðu“. Síðar kom þó í ljós að 1000 milljarða skuldaklafi auðmanna gat fallið á almenning.
Fyrstu covid-aðgerðir ríkisstjórnarinnar í vor gerðu ráð fyrir að covid-faraldrinum lyki í lok maí og í lok mars spáði Seðlabankinn eingöngu minniháttar samdrætti í ár og hagvexti á næsta ári. Þetta var m.a. byggt á úreltum gögnum sem tóku ekki tillit til „lockdown“ stefnunnar sem þá var byrjuð um allan heim. Fyrir vikið varð svartsýnasta sviðsmynd Seðlabankans þriðjungi mildari en grunnsviðsmynd ríkisstjórnarinnar er í dag.
Hvaðan kom öll þessi bjartsýni? Vissu menn virkilega ekki að bráðsmitandi sjúkdómar gufa ekki upp af sjálfu sér? Vissu menn virkilega ekki að fleiri ár tekur að þróa og dreifa öruggu bóluefni?
Svarið liggur í pólitíkinni. Í stjórnmálum vill enginn vera boðberi slæmra frétta og því varð ofan á mottóið: „Það sem þú veist ekki getur ekki skaðað þig“. Stjórnmálamenn vildu ekki vita í hvað stefndi því þá hefðu þeir þurft að taka erfiðar ákvarðanir. Framsýni vék fyrir skammsýni. Örfá fyrirséð sumarsmit voru kölluð bylgja og landinu lokað í skyndi. Gagnslitlar grímur sem yfirvöld afneituðu fram í júní urðu skyndilega mesta þarfaþing og þegar ofurtrú á þær olli hópsmiti í Landakoti var almenningi refsað með grímuskyldu á börn niður í 6 ára aldur. Hvergi í heiminum nema hér eru þjóðir búnir að telja þrjár bylgjur og í engum af nágrannaþjóðunum er gengið jafn hart fram gegn börnum og hér. Gagnrýni læknis á Landspítalanum á aðgerðirnar hefur svo verið svarað með brottrekstri úr starfi. Málfrelsið er dautt og aðhaldið því horfið. Neikvæðar afleiðingar sóttvarnaraðgerða eru lítið skoðaðar því þær draga úr réttlætingunni og í lengstu lög hafa yfirvöld forðast að skilgreina endastöð sóttvarnaraðgerða. Fyrr en nú.
Í október tilkynnti sóttvarnarlæknir að harðar aðgerðir yrðu að vera þar til bóluefni kæmi. En hvenær er það? Fram að þessu hafa íslensk stjórnvöld endurspeglað boðskap bóluefnafyrirtækja í þessum efnum. En það er eðli sölumanna að fegra söluvöruna. Það er ekki nóg að bóluefni sleppi í gegnum fasa 3 prófanir, heldur þarf líka að rýna prófanirnar, framleiða það, skipuleggja dreifingu á því og dreifa því nægjanlega vítt.
Íslendingar munu fá sitt bóluefni frá Svíþjóð. Í nýlegu viðtali Sigríðar Anderssen við Anders Tegnel útskýrði hann að meira að segja þótt að bóluefni yrði tilbúið í byrjun næsta árs, þá mundi það taka Svía a.m.k. ár að láta framleiða það og dreifa í nægjanlega miklu magni að einhver hjarðónæmisvörn færi að virka. Lofandi milliniðurstaða í bóluefnaprófunum Pfizer í vikunni ætti ekki að hafa mikil áhrif á þetta mat Tegnel, því fyrsta niðurstaða fasa 3 prófana er ekki að vænta fyrr en í lok mánaðar, eða mánuði fyrir áramót. Enn fremur veldur hraðafgreiðsla bóluefnaprófananna sem styttir 3. prófunarfasann niður í 2 mánuði verulegri óvissu með öryggi bóluefnisins. Til marks um það kemur fram í fréttatilkynningu Pfizer að fyrirtækið muni fylgjast með heilsu sjálfboðaliðanna í tvö ár eftir að þeir fengu seinni sprautuna af öryggisástæðum. Dreifing bóluefnisins meðal almennings verður því 4 fasa prófun bóluefnisins því sumu öryggi er ekki hægt að flýta. Það er því ekki alltaf kostur að vera fyrstur. Óvissan um bóluefnið sem Ísland eru þegar búið að kaupa er líka verulegt þar sem tveir sjálfboðaliðar í bóluefnaprófununum hafa veikst alvarlega. Í samhengi allt þetta hafa yfirlýsingar ráðamanna tengt bóluefninu verið misvísandi og til þess fallnar að byggja upp falskar vonir. Þó að heilbrigðisráðherra ætli að gera Ísland tilbúið að dreifa bóluefni í upphafi næsta árs, er það marklaust hjal því bóluefnið verður ekki komið þá. Þó að sóttvarnarlæknir lýsi yfir að mögulega verði hægt að hefja bólusetningu á fyrri hluta næsta árs, verður enn langt í land að hjarðónæmi náist, enda mun bólefnið fyrst fara bara til forgangshópa. Mánuðir gætu liðið þar til almenn dreifing hefst.
En ef við gefum okkur samt að mat Anders Tegnels gangi eftir, þá er hjarðónæmi á fyrri hluta 2022 að bjartsýnismat miðað við orð hans. Fyrir ferðasumarið 2022 gildir þó öðru máli, því flestir skipuleggja fríin sín fram í tímann og ef sóttvarnaraðgerðir dragast fram á mitt ár eru líkur á fáir komi. Þrjú ferðasumur gætu því tapast og fyrsta viðspyrnuferðasumarið verður því mögulega ekki fyrr en 2023.
Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar frá í október er gert ráð fyrir um 1000 milljarða rekstrarhalla á ríkissjóði fram til 2025. Þegar forsendur þessarar áætlunar eru skoðaðar sést hins vegar yfirvöld gera ráð fyrir hagvexti á næsta ári og að hingað komi rúmlega 900 000 ferðamenn!
Þetta er útilokað ef haldið er áfram á núverandi braut.
Vanþekking er ekki vörn gegn veiru. Ekki er dugar að stinga hausnum í sandinn til að forðast það óumflýjanlega. Ef þrjú ferðasumur tapast mun kreppan verða margfalt dýpri og valda ólýsanlegum hörmungum. Mörg þúsund milljarða skuldum verður varpað á herðar komandi kynslóða og lífskjör munu lækka til langrar frambúðar. Öfugt við það sem gerðist í Hruninu verður ekki verður hægt að beita gjaldeyrishöftum til að semja burt þessar skuldir því þær verða í erlendri mynt og þarf að borga að fullu. Erfitt er að ímynda sér allar hörmungar kreppunnar sem koma skal, þar sem bæði langtímaatvinnuleysi og sár fátækt munu verða viðvarandi. Eitt og hálft ár af sóttvarnaraðgerðum mun líka taka sinn toll af heilsu og lífi landsmanna og miðað við lélegan árangur fram að þessu má allt eins búast við að náttúrulegt hjarðónæmi verði langt komið þegar bóluefnið loks kemur í dreifingu, ef það kemur. Þannig að meira að segja þótt að yfirvöld gæfust ekki upp á miðri leið, þá gæti allar hörmungarnar verið til einskis.
Það er kominn tími til að íslensk yfirvöld taki ábyrgð og hætti þessum sjálfsblekkingum og að blekkja íslenska þjóð. Aðeins með opinni og gagnrýnni umræðu má komast hjá þeim hamförum sem yfirvöld er að leiða þjóðina í. Framtíð þjóðar er að veði.
Höfundur er verkfræðingur og formaður Frjálshyggjufélagsins
Athugasemdir