Undirritaðar hafa með greinaskrifum sínum hvatt til þess að umræðunni um kynferðisofbeldi sé snúið þangað sem hún á heima og að ábyrgðin sé sett á þá sem fremja ofbeldi en ekki á þolendur sem segja frá. Við erum langt í frá einar um að óska þess, eins og umfjöllun í síðasta tölublaði Stundarinnar, Nauðgunarmenning og ofbeldi þrífst á mýtum um gerendur, ber merki.
Hvað er átt við með skrímslavæðingu?
Orðið skrímslavæðing merkir yfirleitt að ofbeldismenn eru gerðir að ómennskum skrímslum. Þeir sem mæla hvað harðast gegn slíku tali segja að það komi í veg fyrir að þeir sem beita ofbeldi játi afbrot sín og leiti sér hjálpar. „Þetta er alls ekki gert til þess að skrímslavæða ofbeldismenn, heldur þvert á móti.“
Til að átta okkur betur á eðli skrímslavæðingarinnar og geta þannig unnið gegn henni er ágætt að skoða fyrst hverjir það eru sem helst beita henni fyrir sig. Við fyrstu sýn mætti ætla að það séu þolendurnir sjálfir. Ætli það komi kannski frá konunum sem dvelja í Kvennaathvarfinu?
Í febrúar síðastliðnum gaf Kvennaathvarfið út skýrsluna „Líðan og upplifun þolenda heimilisofbeldis og persónuleikaeinkenni ofbeldismanna“. Drífa Jónasdóttir, afbrotafræðingur og verkefnastýra hjá Kvennaathvarfinu, vann rannsóknina, sem hún segir að ekki hafi verið ætlað að búa til einkennalista til að hjálpa fólki að greina ofbeldismenn í umhverfi sínu. Markmiðið sé þvert á móti „alls ekki gert til þess að skrímslavæða ofbeldismenn“. Samkvæmt Drífu eru þessir menn sem beita konurnar ofbeldi eins dæmigerðir og meðalkarlmaðurinn á Íslandi. Það sem meira er staðfestir rannsóknin, það sem allir vita sem eitthvað hafa kynnt sér heimilisofbeldi og annað kynbundið ofbeldi, að þolandinn, sem er í langflestum tilfellum kona, er gjarnan með afsakanir á reiðum höndum fyrir ofbeldinu og reynir ef eitthvað er að axla ábyrgðina sjálf.
Samkvæmt doktorsrannsókn Hildar Fjólu Antonsdóttur um réttlæti í hugum brotaþola felst það meðal annars í því að hafa rödd, vera trúað, finna stuðning og tilheyra. Hildur Fjóla segir enn fremur í viðtali í Stundinni: „Ég hef heyrt frá þolendum að gerendur eru engin skrímsli, þetta eru venjulegir menn, þetta var bekkjarfélagi minn, pabbi minn, þetta var einhver nákominn mér. Þetta er ekki manneskja sem ég myndi álita sem skrímsli og undir öðrum kringumstæðum ekkert skrímsli.“
Miðað við þessar tvær rannsóknir kemur áherslan á að skrímslavæða ofbeldismennina ekki frá þolendum. Þær konur sem verða fyrir kynbundnu ofbeldi vita fullvel að það eru ekki ókunnug skrímsli sem beita þær ofbeldi. Konur verða aðallega fyrir ofbeldi og kynferðisofbeldi náinna aðila á meðan karlar verða frekar fyrir árásum ókunnugra.
Karlar í meirihluta
Hverjum er hagur í því að tala um að ekki megi skrímslavæða ofbeldismennina? Varla þolendum miðað við rannsókn Kvennaathvarfsins og doktorsrannsókn Hildar Fjólu. Gyða Margrét Pétursdóttir, dósent í kynjafræði, og Ívar Karl Bjarnason, sjálfstætt starfandi fræðimaður, skrifuðu grein þar sem þau skoðuðu hvernig orðræða um kynferðisofbeldi og gerendur birtist í umfjöllun um afturköllun á ráðningu meints geranda til kennslu við háskóla. Samkvæmt niðurstöðum þeirra voru karlar í meirihluta þeirra sem tjáðu sig um afturköllunina í fjölmiðlum: „Skiptast viðhorf til meints geranda brotanna eftir þeim línum þar sem hann er, í krafti skrímslavæðingar kynferðisbrotamanna, ýmist álitinn vera ógeðfellt skrímsli eða, vegna ósamræmanleika mannkosta hans við ímynd skrímslisins, ólöstuð hetja,“ segir í grein Gyðu og Ívars.
Kannski kemur það þeim sem beita ofbeldi vel að viðhalda skrímslavæðingunni? Þá geta þeir alltaf bent á að þeir séu ekki skrímsli.
Að skrímslavæða þolendur
Í Stundinni 2. október síðastliðinn fjölluðum við um það hvernig kenningum um falskar minningar hefur verið beitt hér á landi. Í okkar augum er kýrskýrt að tilgangurinn með því að halda þeim á lofti er að beina athyglinni að þolendum og frá þeim sem beita þær ofbeldi. Það er gert með því að kalla þær lygara, geðveikar eða með falskar minningar. Þá eru þær ósjaldan sakaðar um að vilja hefna sín, ekki vegna harma sinna heldur vegna miður eftirsóknarverðra persónueinkenna þeirra sjálfra, gremju og haturshugar. Við viljum því halda því fram að á vissan hátt sé þar með verið að skrímslavæða þolendur.
„Hversdagslegt“ kynjamisrétti
Tom Meagher er Ástrali sem hefur mikið skrifað um hættuna við skrímslavæðingu. Konu hans, Jill, var misþyrmt kynferðislega og hún myrt. Tom sem upplifði á eigin skinni hversu „venjulegur“ morðingi eiginkonu hans var segir mikilvægt að skoða þennan hræðilega atburð í félagslegu, stofnanalegu og menningarlegu samhengi. Samfélag sem sættir sig við „hversdagslega“ kynferðisáreitni í fjölbreyttu formi, eins og nauðgunarbrandara og vanvirðingu gagnvart konum, vanabindur og viðheldur misrétti sem konur blæða fyrir.
Tom bendir jafnframt á að það sem einkennir ofbeldi karla gegn konum sé að það sé ekki framið af fólki sem fellur að staðalímyndum hins dæmigerða illmennis né beitt gegn fórnarlambinu sem við tengjum svo sterkt við. Ofbeldinu er beitt í kyrrþey og þjáning þess sem fyrir því verður fer fram í þegjanda hljóði. Gerandinn er kunnugur og oftast náinn fórnarlambinu.
Rétt er að taka fram að morðingi Jill Meagher var þeim ókunnur og auk þess dæmdur kynferðisbrotamaður. Þess vegna er ekkert óeðlilegt að skrímslamyndin hafi komið upp í huga eiginmanns hennar og að hann hafi viljað ná fram hefndum.
Tom bætir því við að hann hafi fengið gríðarlegan stuðning sem hafi gert honum að horfa fram hjá því að meirihluti þessara kvalara væru ekki skrímsli sem reyna að leynast í fjöldanum heldur vinir fórnarlambanna, kunningjar, eiginmenn, unnustar, bræður og feður.
Setjum ábyrgðina á þá sem beita ofbeldinu
Það væri svo þægilegt ef gerendur ofbeldis þekktust úr og að við gætum í því skyni notað listann frá Kvennaathvarfinu yfir persónuleikaeinkenni ofbeldismanna. Langstærsti hluti þeirra sem beita kynferðisofbeldi beita valdi sínu gegn einhverri sem er þeim náin, innan veggja heimilisins en ekki á víðavangi. Því miður eru enn þá svo margir sem kjósa að standa með ofbeldismanninum af því að það virðist svo þægilegt og á þann hátt finnst fólki það ekki vera að taka afstöðu. Það er auðvitað rangt af því að með því er verið að taka afstöðu með ofbeldinu og þar með þeim sem beitir því. Með því að segja „en hann er alls ekkert skrímsli“ eða „ég á bara góðar minningar um hann“ er verið að segja við þolendur að þær séu ruglaðar, að ímynda sér eða haldnar ranghugmyndum eins og fölskum minningum.
Með alla okkar vitneskju að vopni ættum við að geta breytt þessu, tekið ásakanir og ábyrgð af þolendum og fært yfir á þá sem beita ofbeldinu.
Athugasemdir