„„Dagblaðið“ Dagens Nyheter hefur soðið saman sögu sem verður gefin út þann 21. nóvember. Leitað hefur verið að manneskjum sem setja fram það sem kallast „vitnisburðir“. […] Hér fá þær að stíga fram nafnlaust með ógeðfelldar ýkjur, lygar og rógburð. Hvaða saga er þetta, hvaða drama er þetta? Þetta er samsæri. Þetta er plott,“ segir sænska skáldkonan Katarina Frostenson, eiginkona þekktasta viðfangs Svíþjóðar í Metoo-umræðunni, Jean Claude-Arnault, í varnarbók sinni um hann, K, sem kom út í fyrra. Frostenson kallar konurnar sem stigu fram og sögðu frá hátterni eiginmanns hennar „hinar öfundsjúku“.
Átján konur stigu fram árið 2017, sumar undir nafni og aðrar nafnlaust, og vændu Arnault um misalvarlega kynferðislega áreitni og kynferðisofbeldi, allt frá lærasnertingum og kynfæra- og rassakáfi til nauðgana, í dagblaðinu Dagens Nyheter. Sú umfjöllun leiddi til lögreglurannsóknar á Arnault og loks fangelsisdóms fyrir tvær nauðganir haustið 2018.
Athugasemdir