Í umræðum um stjórnarskrárákvæði um náttúruauðlindir hefur komið upp ágreiningur um hvernig orða beri ákvæði um gjaldtöku, hvort nota beri hugtakið „fullt gjald“ eða „eðlilegt gjald“. Sumum finnst þetta aukaatriði og deilur um keisarans skegg á meðan aðrir, þ.m.t. undirritaður, telja það skipta máli.
Í eignarréttarákvæðum núverandi stjórnarskrár, jafnt sem stjórnarskrá stjórnlagaráðs, er kveðið á um fullt gjald fyrir eignir, t.d. vegna eignaruppnáms, og í meðförum dómstóla getur það aðeins tengst markaðsgjaldi. Í dag er því verulegur munur á „fullu gjaldi“ og „eðlilegu gjaldi“, það síðarnefnda býsna teygjanlegt hugtak, bæði lagalega og réttarfarslega.
Ákvæðið eitt og sér er þó ekki nóg, greinargerðin sem fylgir því og skýrir þann ásetning sem að baki liggur, er ekki síður mikilvæg. Í frumvarpi Samfylkingar og Pírata um nýja stjórnarskrá, þar sem talað er um eðlilegt gjald, er fjarri því skýrt að um markaðsgjald sé að ræða. Þar er meira að segja vísað í lög um útdeilingu aflaheimilda, sem gerir ákvæðið enn óljósara og ógagnsærra. Auðvitað er hægt að breyta þeirri greinargerð og skýra ásetninginn sem að baki liggur, en mun einfaldara væri að nota ákvæði stjórnlagaráðs þar sem þetta er skýrar. „Fullt gjald“ er gegnsætt hugtak vegna þess sem áður segir um tengingu við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, á meðan „eðlilegt gjald“ er það ekki.
„Í frumvarpi Samfylkingar og Pírata um nýja stjórnarskrá, þar sem talað er um eðlilegt gjald, er fjarri því skýrt að um markaðsgjald sé að ræða. “
Þau sem gagnrýna greinargerðina sem fylgir ákvæði stjórnlagaráðs hafa bent á að þar komi fram að ríkið geti gert samninga um nýtingu auðlinda, sem opni fyrir mögulega hentistefnu stjórnvalda hverju sinni. Því má svara með því að greinargerðina verður að skoða í heild sinni og tenging við markaðsgjald, sem kemur líka fram í greinargerðinni, þýðir að ríkið getur ekki gengið til samninga við einn aðila um nýtingu tiltekinnar auðlindar ef annar aðili er tilbúinn að greiða meira fyrir hana. Fullt markaðsgjald á þar að auki að vera meginreglan, þótt geri megi undantekningar í nafni rannsókna, almannahagsmuna eða starfsemi sem er ekki í hagnaðarskyni. Ákvæðið á að leggja áherslu á meginregluna og „fullt gjald“ gerir það en „eðlilegt gjald“ gerir það ekki.
Ákvæði í stjórnarskrá um náttúruauðlindir, sem er ekki afdráttarlaust um fullt markaðsgjald fyrir fyrirtæki og lögaðila sem nýta sameiginlegar auðlindir Íslands, er verra en ekkert. Með því er búið að festa í stjórnarskrá ákvæði sem auðveldlega réttlætir t.d. núverandi fyrirkomulagi við úthlutun aflaheimilda. Veiðileyfagjaldið í dag, sem er brotabrot af markaðsvirði aflaheimilda, er nefnilega „eðlilegt gjald“ í augum tiltekinni hagsmunaaðila og stjórnmálafólks sem gengur erinda þeirra.
Kjartan Jónsson er formaður félagsins Okkar auðlind, heimspekingur og framkvæmdastjóri Múltikúlti íslensku.
Athugasemdir