Hér er fyrst þrautin frá í gær.
Þar sem númer þessarar þrautar endar á núlli, þá snúast allar spurningarnar um sama efni.
Nú er það sólkerfið okkar.
Fyrri aukaspurningin:
Myndin hér að ofan sýnir ferjumann nokkurn. Eitt af tunglum sólkerfisins (sem sveimar umhverfis Plútó) heitir eftir honum. Hvað heitir ferjumaðurinn?
Aðalspurningar:
1. Minnsta reikistjarna sólkerfisins er jafnframt næst sólu. Frægur rokksöngvari, sem hét í rauninni Bulsara að eftirnafni, tók sér sem listamannsheiti enska útgáfu á nafni þessarar reikistjörnu. Hvað hét hann?
2. Venus heitir næsta reikistjarna frá sólu. Fræg tennisstjarna heitir Venus og reyndar er systir hennar Serena enn frægari tennisstjarna. Hvert er eftirnafn þeirra systra?
3. Við þriðju reikistjörnuna, Jörðina, er, eins og menn vita, aðeins eitt tungl sem við köllum því einfaldlega Tunglið. Frægur enskur trommuleikari á hippatímanum hét Moon eins og Tunglið heitir á ensku. Keith Moon hét hann fullu nafni. Hann þótti gríðarlega kröftugur og skemmtilegur trommuleikari en átti við ógurlegt drykkjuvandamál að stríða og dó alltof ungur af þeim sökum. Í hvaða hljómsveit barði hann húðirnar?
4. Mars er fjórða reikistjarnan. Hún heitir eftir stríðsguði Rómverja eins og flestir vita, en Mars er rómverska útgáfan af gríska stríðsguðinum, sem heitir ... hvað?
5. Júpíter er fimmta reikistjarnan. Júpíter er ekki algengt mannsnafn en þó fæddist á tilteknum stað árið 1711 maður sem nefndist Jupiter Hammon. Foreldrar hans hétu Opium og Rose. Jupiter gerðist skáld og rithöfundur sem var síður en svo sjálfsagt um menn af hans sauðahúsi. Um fimmtugt eða um 1760 gaf Jupiter út ljóð og seinna ritgerðir þar sem hann fjallaði um hlutskipti sitt. Hvaða hlutskipti var það? Hvað var svona óvenjulegt við að Jupiter Hammon gæfi út ritsmíðar sínar og yfirleitt að hann kynni að lesa og skrifa?
6. Ekki er algengt að fólk heiti eftir sjöttu reikistjörnunni, Satúrnusi. Þó tók bandarískur íþróttakappi að nafni Perry Satullo sér nafnið Perry Saturn og keppti með góðum árangri undir því nafni á síðasta áratug síðustu aldar. Hann er enn að, þótt kominn sé á efri ár íþróttamanna, og leggur jafnvel að velli mun yngri andstæðinga, sem kannski er ekki að furða því flestir vita satt að setja að þessi íþróttagrein er tómt blöff. Í hvaða íþrótt keppir Perry Saturn?
7. Sjöunda reikistjarnan heitir Úranus. Um árið 1000 hét frægur herforingi Níkefor Úranus. Hann þjónaði keisaranum Basil Búlgarabana í styrjöldum þessa keisara við Búlgara, Araba, Persa og fleiri. Herjum hvaða ríkis stýrði Níkefor Úranus fyrir keisara sinn?
8. Áttunda reikistjarnan er Neptúnus. Hann er, eins og hinar reikistjörnar, nefndur eftir fyrirbæri úr rómversku og/eða grísku goðafræðinni. Hvaða goðmagn var Neptúnus?
9. Einn Íslendingur heitir Neptúnus. Hann er nú rétt tæplega þrítugur og ber nafnið með sóma. Það mun hafa verið móðir hans sem valdi honum þetta ágæta nafn, en hún er ljóðskáld og óhrædd við að fara ótroðnar slóðir. En hún hefur vissulega fetað troðnar slóðir líka, meira að segja verið árum saman á Alþingi Íslendinga. Hvað heitir hún?
10. Gríðarlegur fjöldi smástirna og stórra loftsteina hafa hlotið nöfn, ekki síst smástirnin sem leynast milli Júpíters og Mars. Þar af heitir eitt Iceland og tvö heita eftir frægum íslenskum náttúrufyrirbærum. Annað þeirra er hið lang, langstærsta í sínum flokki náttúrufyrirbæra - hér á landi. Hitt er eitt af þeim stærstu í öðrum flokki fyrirbæra, og um leið það langfrægasta. Frægð þess síðarnefnda hafði þegar fyrir mörgum öldum borist langt út fyrir landsteinana. Nefnið að minnsta kosti annað.
Seinni aukaspurning:
Hvaða reikistjarna er þetta?
Svörin:
1. Freddie Mercury, söngvari Queen.
2. Þær Serena og Venus bera ættarnafnið Williams.
3. Keith Moon trommaði í The Who.
4. Ares.
5. Hann var svartur á hörund og alla ævi þræll í New York-nýlendu Breta í Ameríku, síðar Bandaríkjunum. Lykilorðin hér eru „þræll“ og „Ameríka“.
6. Fjölbragðaglímu, „Wrestling“.
7. Býsans-ríki, austurrómverska ríkinu eða Miklagarði. Þetta er allt rétt en „Rómaveldi“ er rangt.
8. Sjávarguð.
9. Birgitta Jónsdóttir.
10. Vatnajökull og Hekla.
Fyrri aukaspurning:
Karon.
Seinni aukaspurning:
Mars.
Athugasemdir