Í morgun mættu þingmenn óvenjulegum gestum á leið til vinnu, en fyrir framan nefndasvið Alþingis sátu 75 tuskudýr. Talan var ekki valin af handahófi. Hver bangsi táknar barn, sem hafnað var landvistarleyfi árið 2019, samkvæmt lögum um útlendinga. Gerður Ævarsdóttir, varaforseti Ungmennaráðs UNICEF á Íslandi, telur útlendingalögin ekki hafa mannúðarsjónarmið í forgrunni.
Gerður er tvítugur nýstúdent, og hefur tekið þátt í starfi Ungmennaráðsins síðastliðin tvö ár. Ungmennaráðið er hópur ungs fólks sem vinnur náið með starfsfólki UNICEF á Íslandi að fræðslu og framkvæmd Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Samtökin hafa ítrekað gagnrýnt brottvísanir flóttabarna og bent á að aðstæður í viðtökulöndum séu langt frá því að uppfylla staðla um mannsæmandi lífsskilyrði.
Óar við frumvarpi ráðherra
Innsetning bangsanna er hluti af táknrænum mótmælum Ungmennaráðsins gegn framkvæmd stjórnvalda. Framkvæmdin byggir ekki á lagaskyldu af neinum toga, og brýtur gegn upphaflegum tilgangi Dyflinnarreglugerðarinnar, sem var að dreifa ábyrgð á flóttafólki um Evrópu, en íslensk stjórnvöld nota almennt til að réttlæta endursendingar viðkvæmra hópa. Bangsanir halda á skiltum þar sem stendur meðal annars með rithendi barns: „Áslaug Arna, er þér sama um réttindi barna?“
„Áslaug Arna, er þér sama um réttindi barna?“
Ungmennaráðinu óar við yfirvofandi þrengingum á réttindum hælisleitenda. Frumvarp dómsmálaráðherra myndi gera stjórnvöldum skylt að hafna umsókn þeirra, óháð aldri og möguleikum viðkomulanda til að uppfylla ákvæði alþjóðalaga um grundvallarréttindi barna, til dæmis frið, fjölskyldu, skólagöngu og vernd gegn hvers kyns ofbeldi, en börn í yfirfullum flóttamannabúðum eru afar berskjölduð fyrir vændi og vinnuþrælkun.
Börn sem þurftu á aðstoð að halda
Samkvæmt Gerði á aðgerðin að veita alþingismönnum tengingu við málaflokkinn. „Þetta eru ekki bara tölur á blaði, heldur raunveruleg börn, sem þurftu á hjálp okkar að halda.“ Afdrif endursendra barna eru yfirleitt óljós vegna takmarkaðra samskiptatækifæra, en árið 2018 birtu tengiliðir flóttafjölskyldu, sem endursend var til Þýskalands, almenningi myndir af tveimur smábörnum sem neyddust til að dvelja í skóglendi um hávetur.
„Bangsarnir og skiltin eiga að vekja alþingismönnum samviskubit, ef ekki hreinlega sektarkennd“
Gerður segir aðgerðinni beint að allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis, sem ber ábyrgð á málaflokknum. „Bangsarnir og skiltin eiga að vekja alþingismönnum samviskubit, ef ekki hreinlega sektarkennd. Hvað hefðu þau getað gert til að stöðva brottvísanir? Hver ber ábyrgðina? Alþingi setur vissulega lögin, en það er hlutverk okkar allra að vera á verði og vernda börn, sama hvaðan þau koma.“
Athugasemdir