Ég sé þær fyrir mér eins og tré. Ég er börkurinn, laufskrúðið er mitt, en þær eru árhringirnir undir húðinni. Æðakerfið. Ástæðan fyrir því að ég stend hér í dag.
Innra með mér búa þær allar ennþá. Þær formæður mínar sem ég þekki, ömmur og langömmur, og hinar, langt aftur í ættum, aftur í æðum. Sveitastúlkan sem hélt til borgarinnar með barn á handleggnum. Hnakkinn kertur, hugurinn brennandi, stoltið yfir fólkinu hennar óskert til hinsta dags. Konan sem reri yfir firði til að taka á móti misvelkomnum börnum í náttmyrkri, í bjartnætti, í hjartagæsku. Ylvolgri eins og mjólk af spena. Sveitastelpan sem stóð í fjörunni og horfði út á ólgandi fjörðinn, beið móður sinnar úr vitjun með lífsblóðið dunandi í hjartanu, óþolið eftir því sem beið í borginni, í framtíðinni, iðandi undir húðinni. Enn innar: Konan sem bjó við ystu mörk og steig yfir þau, inn í myrkrið ásamt ástmanni …
Athugasemdir