Klukkan er hálf sjö að morgni. Ég þori ekki að hella mér upp á kaffi, börnin gætu rumskað. Ég geri næstum hvað sem er til að börnin rumski ekki. Ég held á inniskónum fram til að fótatakið trufli örugglega engan og legg þá varlega frá mér, halla hurðunum að herbergjum barnanna hægt aftur. Það ískrar í hjörunum og ég stirðna eins og þjófur að nóttu. Verð að muna að smyrja þær. Verð líka að muna að kaupa WD-40. Ætli það sé hægt að fá það heimsent?
Náttsloppurinn minn er þunnur og mér er strax orðið kalt þegar ég sest fyrir framan tölvuskjáinn á tímabundinni heimaskrifstofu minni. Verð að muna að kaupa þykkari náttslopp. Skrifstofan er raunar bara eldhúsborðið í opna rýminu í litlu íbúðinni okkar. Í veikri sjálfsbjargarviðleitni sný ég baki í stofuhlutann, þar sem föndurverkefnum gærdagsins hefur verið stráð yfir allt gólfið. Verð að muna að kaupa stærri íbúð.
Ég opna skjalið sem ég er að vinna í. Klukkan er tuttugu og fimm mínútur í sjö. Ef lukkan brosir við mér næ ég einum og hálfum tíma af dýrlegum, ótrufluðum vinnutíma. Ég er búin að skrifa tvær setningar þegar það ískrar aftur í hjörum og fyrir framan mig stendur sjö ára, nývaknaður en á einhvern dularfullan hátt fullklæddur, ungur maður. Hann vill drífa sig í heimaskólann, segir hann. Svo vill hann fara í risaeðluleik hjá Hvaleyrarvatni. Og hjólatúr. Verð að muna. Að anda.
Og svo líður dagurinn. Einhvers staðar tekst mér að koma nokkrum orðum til viðbótar á blað. Ég afskrifa risaeðluleikinn en býð upp á myndir að lita, þær renna volgar út úr prentaranum á meðan ég bið auðmjúklega um lengri skilafresti og fæ þá auðfúslega.
Verð að muna. Muna þessa skrýtnu daga þegar við læddumst um og vonuðum að enginn rumskaði, þegar allir gerðu sitt besta og allir voru sammála um að það væri nóg. Verð að muna. Og kannski halda áfram á þeim í fanginu, þessum skrýtnu dögum, eins og inniskóm að morgni. Við gerum eins vel og við getum. Og það er nóg.
Athugasemdir