Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 4 árum.

Bjartsýn þrátt fyrir gjörbreyttan rekstur á Laugavegi

Eig­end­ur fjög­urra versl­ana við Lauga­veg sem eiga ekki allt sitt und­ir versl­un við ferða­menn hafa gjör­breytt starfs­hátt­um sín­um til að lifa af COVID-krís­una. Þeir þakka því smæð sinni og sveigj­an­leika að geta hald­ið áfram rekstri og segj­ast all­ir bjart­sýn­ir með að lifa af, þó að enn ríki mik­il óvissa.

Bjartsýn þrátt fyrir gjörbreyttan rekstur á Laugavegi
Stendur vaktina Margir af nágrönnum Jóhanns Ludvigs á Laugavegi hafa lokað í kjölfar samkomubannsins vegna covid-19. Hann heldur sinni verslun hins vegar opinni og horfir til viðskipta við íbúa hér á landi í stað ferðamanna. Mynd: Davíð Þór

Þegar gengið er niður Laugaveg þessa dagana er engu líkara en að manni hafi verið kippt áratug aftur í tímann í það minnsta. Á undanförnum árum hefur þar varla verið þverfótað fyrir ferðamönnum en nú eru þeir fáu sem þar eru á ferli flestallir heimamenn. Í gluggum verslana sem eiga fyrst og fremst í viðskiptum við ferðamenn eru miðar sem á stendur: „Við snúum aftur þegar þessu ástandi lýkur.“ Enginn veit hins vegar hvenær ástandinu lýkur, eða hvort lífið verði nokkurn tímann eins á Laugaveginum. En þrátt fyrir að tómlegt sé um að litast standa nokkuð margir verslunarmenn enn vaktina á Laugavegi, ekki síst þeir sem stóla á viðskipti heimamanna. Flestir þeirra hafa reynt að aðlagast ástandinu og breytt viðskiptaháttum sínum, jafnvel á róttækan hátt en með ágætis árangri. 


600% auking í vefverslun í mars

Í samkomubanni hafa fleiri tíma til að elda góðan mat og baka. Eigendur Kokku á Laugavegi finna vel fyrir því. Þar hefur vefverslun aukist til muna og sjá þeir fyrir sér að bæta við starfsfólki, ef fram heldur sem horfir. 

Um miðbik Laugavegar er hið rótgróna fjölskyldufyrirtæki Kokka, sem selur allar mögulegar tegundir af gæða-eldhúsáhöldum. Stefna fyrirtækisins er að leiðbeina viðskiptavinum í gegnum „frumskóg eldhúsáhaldanna og aðstoða við val, notkun og viðhald“, líkt og segir á heimasíðu fyrirtækisins. Stefnan hefur ekki breyst með tilkomu COVID-19 en það hefur þurft sveigjanleika og útsjónarsemi til að framfylgja henni í breyttu umhverfi, eins og Guðrún Jóhannesdóttir, ein eigenda Kokku, segir frá. „Þetta er búið að vera skrýtið ástand, við skulum alveg segja það. Þetta er búið að vera erfitt líka, af því að það er erfitt að vera í framlínu. Það tók okkur öll, bæði okkur og viðskiptavinina, smá tíma að átta okkur á hvað við þyrftum að gera, hvernig við þyrftum að haga okkur, halda fjarlægð og svo framvegis, en það er alveg að síast inn. Fólk er að verða mjög meðvitað um það núna að það þurfi að passa sig. Það spritta sig allir við innganginn og passa sig að halda fjarlægð, þannig að það er frábært.“

Flókið í framkvæmd en spennandi áskorun

Viðskiptin í versluninni gáfu fljótt eftir með samkomubanninu en á móti varð sprenging í vefverslun fyrirtækisins. Nú sinnir einn starfsmannanna sem áður var í versluninni alfarið vefversluninni, heiman frá sér. „Við vorum með 600% aukningu í mars og það er meiri aukning í apríl. Ég er ekki komin með tölurnar en það er búin að vera ótrúleg sprenging. Það er heilmikil aukavinna í kringum það allt saman. Við erum líka að keyra út á höfuðborgarsvæðinu allar pantanir sem koma inn á morgnana og reynum að fara líka samdægurs með allt í póst, þannig að það er aukið álag þar. Svo erum við líka með sóttvarnarlínu í fyrirtækinu, þannig að við erum bara þrjú á þessari vakt og svo eru aðrir á helgarvakt, þannig að þetta er búið að vera flókið í framkvæmd en spennandi áskorun í rauninni.“

Guðrún segir að þrátt fyrir að færri séu á Laugavegi hafi dregið minna úr verslun í búðinni en hún bjóst við. Margir viðri sig með því að ganga upp og niður Laugaveg og stingi þá jafnvel nefinu inn í verslanir á leiðinni. „Þeir sem ég hef talað við af nágrönnum mínum, sem eru með opið hafa verið mjög ánægðir með traffíkina. En það er náttúrlega misjafnt hvað komast margir inn í hverja búð og það eru margir með fjöldatakmarkanir. Við reynum að passa að það séu alls ekki fleiri en 20 og það sé rétt bil á milli, en það hefur bara gengið vel.“

Hafa enn ekki þörf á ríkisaðstoð

Svo þetta hefur ekki haft svo slæm áhrif á reksturinn? „Nei, ég þarf ekki að sækja um ríkisaðstoð, alla vega ekki enn þá. En maður veit auðvitað ekki hvað gerist, þetta eru miklir óvissutímar og við vitum ekki alveg í hvaða átt þetta fer, þó við séum alltaf bjartsýn. Ég reyni alltaf að vera bjartsýn, mér finnst það skárra en hitt. Við sjáum það líka í rekstrinum sem við erum í að fólk hefur meiri tíma heima. Það er að baka, það er að elda og það kallar á meiri eftirspurn eftir þeirri vöru sem við erum að bjóða upp á, sem er kostur fyrir okkur. Það eru ekki allir í þeirri aðstöðu, það er auðvitað mismunandi rekstur sem verður fyrir mismunandi áhrifum af þessu ástandi, en við getum alla vega ekki kvartað.“

Hún segir ómögulegt að spá fyrir um hvernig næstu mánuðir eigi eftir að þróast. Ef þróunin haldi áfram á sama veg, áfram verði takmarkanir á samkomum og ferðalögum og aukning í vefverslun, geti hins vegar vel verið að hún þurfi að bæta við starfsfólki. „En veistu það, að ég veit það ekki. Maður veit ekkert í hvaða átt þetta fer:“

Hjálpar að vera sveigjanleg

Guðrún segir að í raun hafi ekki komið til greina að loka Kokku á meðan á ástandinu varir. „Við íhuguðum þetta allt saman, settum upp alls konar mismunandi myndir þegar við vorum að velta því fyrir okkur hvaða leið við ættum að fara. Margir hafa verið að stytta opnunartímann en við ákváðum að hafa opið í átta tíma til þess að hafa meiri sveigjanleika og geta stýrt flæðinu betur. Ef maður er bara með opið í fjóra tíma eru fleiri í búðinni á sama tíma.“ 

Að lokum segir Guðrún það hafa komið sér vel að Kokka er lítið fjölskyldufyrirtæki, því það hjálpi þeim að vera sveigjanleg. „Við brugðumst bara hratt við. Við erum bara lítil og höfum alltaf verið fljót að breytast ef þörf er á.“


„Þetta er pínkulítið gott á okkur“

Eigendur verslunarinnar Hjarta Reykjavíkur hafa notað tímann í samkomubanni til að líta inn á við. Þau sjá fyrir sér að einbeita sér að viðskiptum við heimafólk frekar en ferðamenn framvegis. 

Þegar annar eigenda verslunarinnar Hjarta Reykjavíkur, Jóhann Ludwig Torfason, er spurður að því hvenær hann búist við því að viðskiptin færist í eðlilegt horf á ný vill hann snúa upp á spurninguna. „Mér finnst að fyrsta spurningin sem við ættum að spyrja okkur að ætti að vera: „Viljum við að allt verði eins og það var?“ Ég hef engan hitt sem vill það.“

Hann segist hafa nýtt tímann sem myndast hefur í samkomubanninu til að horfa svolítið inn á við. Hann sjái núna að hann, eins og margir aðrir verslunareigendur, hafi fallið í þá gryfju að setja aðeins of mikla áherslu á ferðamanninn, þrátt fyrir að það hafi ekki verið hans upphaflega hugmynd með því að opna verslun. „Nú hefur fólk meiri tíma til að bremsa og skoða hvað er hægt að gera.“ 

Týpískt íslenskt að hafa öll eggin í sömu körfu

Jóhann er höfundur tveggja myndabóka sem sýna húsin í Reykjavík. Verslunin, sem jafnframt er verkstæði Jóhanns, spratt í raun upp úr þeim bókum. Þar má kaupa ýmsan varning með húsum Jóhanns á, svo sem púðaver, bolla, veggspjöld og ýmislegt fleira.  „Alveg frá fyrsta degi var augljós áhugi Íslendinga á því sem ég var að gera, ég hafði ekki undan neinu að kvarta. En svo náttúrlega af því að Laugavegurinn er eins og hann er – eða var – þá voru ekki Íslendingar að koma. Þá náttúrlega, ef 90% af viðskiptavinum þínum eru útlendingar, ferðu ósjálfrátt að sveigja þig svolítið að þeim. Mig langar svolítið til að taka skrefið til baka, fókusa dálítið á innanlandsmarkaðinn. Ég er náttúrlega neyddur til þess líka, að mörgu leyti, þar sem það er ekki öðru til að dreifa, svoleiðis. Við sjáum til hvað verður með það. En alla vega, ég held þetta hafi verið pínkulítið gott á okkur öll. Það er ljótt að segja það, en ég held það. Þetta er bara týpískt íslenskt, eins og svo margir hafa talað um. Sömu eggin í sömu körfuna og allur sá pakki. Við erum svolítið þannig týpur.“

Forsenda hás leiguverðs brostin

Þrátt fyrir að verslun við ferðamenn hafi aukist hjá Jóhanni hafa viðskipti við heimamenn líka verið honum mikilvæg. Það er vegna þeirra sem hann hefur ekki þurft að loka versluninni, enn sem komið er. „Íslendingar tóku strax vel við þessu, voru mikið að kaupa til að senda út og þess háttar. Þannig að ég hef í raun og veru verið minna háður ferðamönnum en næstu nágrannar mínir, sem eru með þessa hefðbundnu ferðamannavöru sem engir Íslendingar vilja. Þeir náttúrlega lokuðu á fyrsta degi, þegar þetta skall á. En ég hef enn þá opið.“

Íslendingarnir koma hins vegar fáir á Laugaveginn, segir Jóhann, heldur versla frekar í gegnum netið. Hjá honum líkt og mörgum í kringum hann hefur netverslun aukist til muna. „Íslendingarnir koma mjög lítið því það er búið að venja þá illa af Laugaveginum. Á síðustu þremur árum er búið að byggjast upp eitthvað ótrúlega neikvætt í garð Laugavegar, sem er ósanngjarnt en er auðvitað að einhverju leyti af því að það fylltist allt af ferðamönnum og það var ekkert pláss fyrir Íslendinga. Nú er pláss fyrir þá og þeir þurfa bara að ná því að það sé óhætt að koma. Þetta er gatan okkar, besta gatan okkar, og þeir eiga auðvitað erindi hingað, nú sem áður.“

Spurður að því hversu lengi hann geti haldið sér í rekstri undir þessum kringumstæðum segir hann það velta á ýmsu, ekki síst því hvernig leiguverð þróist. „Það sem hlýtur að gerast núna er að forsendan fyrir svona gríðarlega háu leiguverði við Laugaveginn og Skólavörðustíginn er algjörlega brostin. Ég get alveg eins verið með þessa verslun á Sauðárkróki í dag. Það hlýtur að spila inn í rekstrarplön allra rekstraraðila.“


Reiknuðu með skelfingu en finna fyrir bjartsýni

Verslunin Vonarstræti var aðeins búin að vera opin í nokkra mánuði þegar allar forsendur fyrir eðlilegum rekstri brustu með þeim hömlum sem samkomubann vegna COVID-19 fela í sér. Eigendur verslunarinnar bjuggust við því versta en segja ástandið betra en þær þorðu að vona. 

Vonarstræti er ein af nýlegri verslunum við Laugaveg. Þar eru seldar heimilisvörur, snyrtivörur, fatnaður og áfyllingarvörur sem keyptar eru inn með umhverfið og fólk í huga. Ólöf María Jóhannsdóttir er önnur tveggja eigenda verslunarinnar. Hún segir að þær hafi fyrst um sinn búist við því að allt færi á versta veg, þegar COVID-krísan skall á, með tilheyrandi samkomubanni og öðrum hömlum. Viðskiptin hafi hins vegar verið vonum framar. „Við reiknuðum auðvitað með einhverri skelfingu hérna, en svo er stöðugt rennerí af fólki hérna. Auðvitað hefur salan minnkað en hún hefur líka færst mikið yfir á netið.“

Þær hafa takmarkað afgreiðslutímann í versluninni, voru um tíma með opið frá 13–15 en hafa nú aukið tímann í 12–17 og stefna á að opið verði á eðlilegan máta strax í byrjun maí, þegar aflétting hafta hefst. Til að bæta upp fyrir takmarkaðan afgreiðslutíma hafa þær boðið viðskiptavinum að hafa samband þegar þeir þurfa á áfyllingu að halda. „Við erum með fullt af áfyllingum og vildum þjónusta okkar viðskiptavini með það. Við höfðum meiri áhyggjur af því að fólk myndi ekki þora að hringja, en sem betur fer hringir fólk.“ 

Viðskiptavinum fjölgar 

Hún segir að þær og aðrir verslunareigendur sem hafa haldið verslunum sínum opnum eigi það sameiginlegt að hafa sveigt starfsemina að breyttum tímum. Óvissan hafi verið algjör og enn sé erfitt að spá fyrir hvernig næsti dagur verður. „Já, veistu ég held að verslunareigendur hafi bara ekki vitað hvað væri að fara að gerast, í alvöru talað. Ekki höfðum við hugmynd um það. Ég hafði ekki hugmynd um hvort enginn myndi mæta hingað, eða hvað. Við finnum auðvitað fyrir því að túristarnir eru farnir og það er auðvitað færra fólk hérna á Laugaveginum og svo erum við með nýja verslun, þannig að hver dagur er nýr dagur fyrir okkur, því við höfum ekki samanburð á milli mánaða. En eins og þú sérð þá eru viðskiptavinir inni hjá mér núna og það voru viðskiptavinir að fara. Við erum alltaf að fá fleiri og fleiri nýja viðskiptavini. Það er gaman að finna hvað við erum komnar með marga fasta viðskiptavini. Mér þykir vænt um það.“

Þýðir ekki annað en að vera bjartsýn

Ólöf vonar að með hækkandi sól fari fleiri landsmenn að koma niður í miðbæ og við það glæðist viðskiptin hjá þeim mörgu smáu verslunum sem þar berjast fyrir lífi sínu. „Það er svo fallegt hérna niðri í bæ og það er svo mikið af skemmtilegum verslunum hérna. Ég bý hérna og það er alltaf eitthvað sem kemur mér á óvart. Ég fer í göngutúr hérna á hverjum einasta morgni. Það er svo mikið af skemmtilegu fólki hérna líka, þannig að ég hvet alla til að koma. Það er líka frábært núna, þegar veðrið fer að verða betra. Við erum búin að hanga inni í margar vikur. Bara komið í miðbæinn! Fullt af skemmtilegu fólki, geggjaðar verslanir, nú eftir 4. maí þá kannski fáum við að sitja hérna úti og drekka kaffi. Ég bara fæ tár í augun,“ segir hún hlæjandi og bætir svo við: „Við erum bara bjartsýnar. Þýðir eitthvað annað?“


Mesta furða hvað er mikið að gera

Dúsa Ólafsdóttir fatahönnuður er annar eigenda fataverslunarinnar Stefánsbúð / P3 á Laugavegi 7. Þar hefur verið brugðist við samkomubanni meðal annars með því að keyra fötin heim í hús, svo fólk geti keypt sér eitthvað fallegt þó það hætti sér ekki úr húsi.

„Við erum bara eiginlega frekar glöð. Við vissum náttúrlega ekkert við hverju ætti að búast og við lokuðum reyndar í fjóra daga einhvers staðar þarna í millitíðinni. En svo var allt í einu svo gott veður og við hugsuðum: „Æ, prófum bara!“ og höfum verið með opið síðan,“ segir Dúsa Ólafsdóttir, en hún rekur verslunina Stefánsbúð / P3 ásamt Stefáni Svan Aðalheiðarsyni.  Það er bara mesta furða. Stundum er rólegt, stundum ofsalega margir. Það er minna svona drop-in – afsakið orðbragðið á afmælisdegi Vigdísar – en já, það er miklu meira en við bjuggumst við og það er bara mjög gleðilegt.“

Í venjulegu árferði er Stefánsbúð / P3 ekki vefverslun, en til þess að bregðast við ástandinu hafa þau Dúsa og Stefán byrjað að keyra fötin upp að dyrum, óski viðskiptavinir eftir því. „Maður veit að það eru margir sem fara ekki út úr húsi og svo eru margir sem mega ekki fara úr húsi, svo við ákváðum að reyna svona heimsendingar, höfum verið að skutlast út um hvippinn og hvappinn, að leyfa fólki að máta og svona. Það hefur bara verið mikið að gera í því, sem er frábært. Það er líka gaman að geta mátað heima, við skóna sína og í sínu umhverfi og svona.“

Stóla ekki á ferðamenn

Stefánsbúð / P3 er tiltölulega nýflutt á Laugaveg. Heimamenn eru stærsti viðskiptavinahópur verslunarinnar og því hefur hvarf ferðamanna ekki haft teljandi áhrif á reksturinn. „Okkar markhópur er 90–95% Íslendingar og þeir hafa verið okkar kúnnahópur. Fyrir jól var reyndar slatti af túristum en okkur fannst það bara vera góð viðbót. Við stílum ekki inn á túrista og höfum ekki gert í þau fjögur ár sem þessi búð hefur verið til. En kannski kemur að því, þegar sprengjan kemur aftur.“

Þrátt fyrir það hefur ástandið verið högg fyrir reksturinn, segir Dúsa, bara ekki eins alvarlegt eins og þau bjuggust við. „Þetta hefur náttúrlega verið högg og maður vissi ekki við hverju ætti að búast. En maður hefur borið sig eftir björginni, meðal annars með útkeyrslunni.“

En hvernig sér hún fyrir sér þróunina næstu mánuði? „Ég ímynda mér að nú eigi þetta eftir að fara upp á við, mér finnst það mjög líklegt. Síðasti laugardagur var bara eins og venjulegur laugardagur, það var bara brjálað að gera og Stefán var bara hérna einn. Við hefðum alltaf verið tvö undir venjulegum kringumstæðum eins og við erum alltaf á álagstímum en nú höfum við ekki hist lengi, skiptum alveg heilum dögum. En jú, ég held þetta fari rísandi, ég er bara mjög bjartsýn fyrir sumarið. Ég held að þetta verði æðislegt. Ég held að strax 4. maí eigi fólk eftir að flykkjast niður í bæ og út um allt, hvert sem fólk flykkist. Mér finnst það mjög líklegt.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Covid-19

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár