Á sjúkrahúsinu í Umeå í Svíþjóð starfar Ragnheiður Martha Jóhannesdóttir sem sérfræðilæknir í hjarta- og lungnaskurðlækningum. Hún er fyrsta íslenska konan til að útskrifast sem slíkur. Þegar hún ákvað að fara þessa leið var hún þó ekki meðvituð um að svo fáar konur störfuðu á því sviði. „Ég hafði í rauninni ekki hugmynd um það. Það var ekki fyrr en ég byrjaði í deildarlæknaprógramminu á skurðsviði Landspítalans að ég tók eftir því að þetta voru allt karlmenn í kringum mig. Þegar ég svo frétti að það væri heldur engin kona í sérnámi erlendis áttaði ég mig á því að ég yrði sú fyrsta,“ segir Ragnheiður Martha.
„Amma man eftir mér tveggja ára að segjast ætla að verða læknir“
Takmark hennar, að verða læknir, hefur hins vegar alltaf verið skýrt. „Amma man eftir mér tveggja ára að segjast ætla að verða læknir. Það var kannski helst í kringum fermingu að eitthvað annað komst að. Þá ætlaði ég kannski að verða klippikona eða hestakona – en alltaf læknir líka. Það breyttist aldrei.“
Með eigin líkamsrækt í skúrnum
Hún talar í símann út úr sinni eigin einka-líkamsræktarstöð, sem hún og maðurinn hennar, Benjamín Þór, hafa komið upp í bílskúrnum. Þau búa í Umeå í Svíþjóð, þangað sem þau fluttu fyrir fimm árum svo hún gæti hafið sitt sérfræðinám. „Við byggðum okkur hús hérna sem við fluttum inn í fyrir einu og hálfu ári síðan. Við vorum með sem skilyrði að setja upp gym í bílskúrnum okkar. Það var eitthvað sem okkur langaði bæði til að gera,“ segir Ragnheiður Martha.
Maðurinn hennar er einkaþjálfari en þau hafa bæði tvö mikinn áhuga á líkamsrækt. Hún tók meira að segja þátt í keppninni um sterkustu konu Íslands fyrir nokkrum árum, auk þess að taka tvisvar þátt í Hálandaleikunum. „Við reynum að æfa 5–6 sinnum í viku og við erum með voffa sem við löbbum með á hverjum degi. Svo erum við á krossurum á sumrin og snjósleðum á veturna,“ segir Ragnheiður Martha og bætir því við að þau Benjamín séu heppin að deila áhugamálum, enda geri þau flesta hluti saman. „Svo er draumur hjá okkur að setja upp rækt úti í garði líka. Vera með smá svona Hálandaleika-strongman-fíling hérna úti.“
Þrettán ár í námi
Áður en Ragnheiður Martha flutti út hafði hún starfað á skurðsviði Landspítalans, þar sem hún hafði hún fengið góða reynslu sem nýttist sem grunnur fyrir námið. Þar róteraðist hún á milli skurðdeilda, auk þess að vera um tíma í svæfingum og á gjörgæslunni. Hún var þó löngu búin að ákveða að hún ætlaði að verða hjartaskurðlæknir. „Það var gott að fá reynsluna áður en ég kom hingað út til Svíþjóðar. Ég gat líka fengið sumt af því sem ég vann við heima metið. Það er til dæmis skylda að taka hálft ár í svæfingu til þess að öðlast réttindin hér.“
Ragnheiður Martha var tvítug þegar hún byrjaði í læknisfræði við Háskóla Íslands. Nú er hún 33 ára og loks orðin sérfræðilæknir, en hún útskrifaðist af Norrlands-háskólasjúkrahúsinu fyrir skömmu. Hún er komin með stöðu á sjúkrahúsinu í Umeå og verður þar að öllum líkindum fastráðin innan skamms. „Það þarf að auglýsa allar stöður formlega svo ég þarf að sækja um. En ég er komin með öll leyfi og titla mig sem sérfræðilækni núna.“ Hún er ein fjögurra kvenna sem starfa sem hjarta- og lungnaskurðlæknar á spítalanum. Fjöldi þeirra hefur vakið talsverða athygli, því enn eru konur almennt mun færri í þeim hópi en karlar.
Á sömu klossum í sjö ár
Titli sérfræðilæknis fylgir ýmislegt skemmtilegt, svo sem nýir læknaklossar.
Það var reyndar hennar eigin þrjóska – að hennar eigin sögn – sem kom í veg fyrir að hún fengi nýja skó. „Ég keypti mér klossa þegar ég byrjaði að vinna sem deildarlæknir á skurðdeildinni heima á Íslandi 2013. Þeir hafa fylgt mér síðan þá og komu með mér hingað til Svíþjóðar árið 2015. Fyrir tveimur árum voru þeir farnir að láta ansi vel á sjá og skurðhjúkrunarfræðingarnir hér farnir að koma með athugasemdir: „Jæja! Þú veist að þú getur fengið nýja skó hér þegar þú vilt?“ En ég var búin að bíta það í mig að fá mér ekki nýja klossa fyrr en ég væri orðin sérfræðingur. Það voru því mikil fagnaðarlæti þegar ég kom loks á nýjum skóm í vinnuna.“
„Maður lifir ekki án hjartans“
Ragnheiður Martha er dóttir Laufeyjar Lindu Harðardóttur og Jóhannesar Georgssonar. Hún segir foreldra sína báða hafa hvatt hana og systur hennar tvær til að sækja sér menntun sem gæfi þeim fjárhagslegt öryggi. „Pabbi vildi sjá okkur í læknisfræði eða lögfræði og talaði um það alveg frá því að við vorum litlar,“ segir hún. Önnur af yngri systrum Ragnheiðar Mörthu, Alexandra, er einmitt lögfræðingur og gegnir nú starfi sveitarstjóra á Skagaströnd. Hún er yngsti sveitarstjóri landsins. „Pabba finnst algjör draumur í dós að ég sé læknir,“ segir Ragnheiður Martha. „Hann vildi verða læknir sjálfur en gat það ekki vegna aðstæðna í heimalandi hans. Hann er frá Rúmeníu en flúði þaðan og fékk vinnu sem kontrabassaleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann hafði eflaust mikil áhrif á mig, en samt hefði ég aldrei farið út í þetta nema að hafa brennandi áhuga á læknisfræði sjálf. Þetta er svo
Athugasemdir