Í bili aðskilnaðar og nándar býr ómælið; hið óþekkta, hið ótakmarkaða, hið ómælanlega, það sem ekki er vitað - ómælið sem mannkyn kallar óvissu. Ómælið sem mannkyn hefur barist við að stjórna, ná tökum á, fanga, skilja og umfram allt mæla. Með mælingum skyldi ómælinu stjórnað í ótta við hverfulleika og hreyfinguna eilífu sem allt er. Hið ótakmarkaða skyldi afmarkað af hinu takmarkaða. Og hið takmarkaða breyttist í viðmið mannkyns. Margbreytileiki breyttist í einræktun. Hið einstaka ómæli breyttist í hinn almenna einstakling; þræl takmarkaðs huga sjálfs sín.
Um flest ríkir engin óvissa.
Grunnþarfir mannveru eru nú sem fyrr þekktar: Næringarríkt samfélag, húsaskjól, matur, svefn, hlutverk og andrými fyrir veruna til þess að tengjast sjálfri sér sem hluta af umhverfi sínu. Tengsl við sjálfa sig – og aðra, er grunnþörf til þess að þrífast. Þegar grunnþarfirnar eru tryggðar getur mannvera miðlað auð sínum. Um það hverjar grunnþarfir manneskju eru ríkir engin óvissa.
Um grunnlögmál náttúrunnar ríkir engin óvissa.
Allt er orka og eilíf hreyfing. Einræktun, eiturefni og ágangur skapa náttúruvá. Margbreytileiki er undirstaða vistkerfisins og planta þarf næringarríkt umhverfi til þess að þrífast og geta gefið af sér ávexti.
Um fyrirtæki ríkir engin óvissa.
Fyrirtæki er tæki skapað af mannkyni til þess að tryggja grunnþarfir sínar í samfélagi. Fyrirtæki er ekki náttúrlögmál. Fyrirtæki er manngert kerfi. Fyrirtæki þarf ekki að bjarga. Fyrirtæki er bókstaflega hugarsmíð mannsins. Það er ekki neitt í sjálfu sér. Fyrirtæki er ekkert án mannauðsins sem skapar það og annarra auðlinda sem það fæst við.
Um mikilvæg störf í samfélagi ríkir engin óvissa.
Þau afhjúpast skýrt þessa dagana.
Um kapítalískt kerfi ríkir engin óvissa.
Kerfið er ósjálfbært. Um það ríkir engin óvissa. Þegar litið er til harms heimsins og vandamálanna í vistkerfinu öllu blasir við skortur og fátækt; loftslagsvá, umhverfisvá, flóttamenn, stríð. Það segir sig sjálft að kerfið ber sig ekki og felur í sér stöðnun og eyðingu sjálfs sín. Skortshyggja og neysla. Þetta er allt sami vandinn. Botninum er löngu náð, aftur. Ef náttúruöflin fylgdu stjórnarháttum mannsins, verðmætamati og skiptingu gæða þá væri bjart í um 3 daga á ári og myrkur í 362 daga á ári, það væri bjart 1% árs og myrkur 99% af árinu. Það segir sig sjálft að ekkert grær við þessar aðstæður.
Hér ríkir engin óvissa. Enn á ný afhjúpast ósjálfbært kerfi sóunar. Þar sem mennskunni og vistkerfinu öllu er sóað sem hlutum á markaði. Fjármálamarkaði. Að halda mannfólki í sífelldum skorti og með því að ganga stöðugt á vistkerfið gerir fólk og náttúru veikt.
Kapítalískt samfélagskerfi byggir á þrælahaldi og nýlendumenningu aldanna. Þegar þrælahald var afnumið með lögum breyttist það í viðskiptamódel nútímans. Þrælarnir sem áður voru í eigu nýlenduherrans lutu nú þrælahaldaranum sem hafði lært af herra sínum hvernig um taumana skyldi haldið í skorts- og óttastjórnun. Framhaldið er þekkt og margrýnt og lifað í sársauka og stöðnun innan kerfis sem skipar okkur í helsi og fátækt. Fátækt eigin veru. Arðgreiðslur til eiganda? Afrakstur starfa mannfólks rennur til eiganda? Afrakstur þrælavinnu rennur til þrælahaldarans. Milljónir manna deyja árlega úr skorti og fátækt.
Viljum við búa við kerfi sem rænir okkur eigin veru og framlagi og er andstætt okkar eigin eðli og eilífu hreyfingu? Það er grunnþörf mannveru að fá að finna fyrir eigin veru - náttúrulögmálinu sjálfri sér.
Forngrikkir og Rómverjar beittu stjórnunaraðferð sem fólst í að kljúfa andstæðinga sína í hópa til þess að koma í veg fyrir að andstæðingarnir gætu tengst saman og myndað eina heild. Deildu og drottnaður - divide et impera. Aðferðin hefur stýrt okkur alla tíð; Common Wealth, Apartheid, Helför, þjóðarmorð. Aðskilnaður af sama tagi stýrir okkur enn eins og popúlismi og alræðistilburðir birta okkur skýrt í samtímanum. Barátta aldanna er afurð þessarar stjórnunaraðferðar; kynþáttabarátta, stéttabarátta, jafnréttisbarátta, stríð. Ég og hinn. Aðferðin er svo djúpt í frumunum að við erum hætt að taka eftir aðskilnaðinum, sérfræðingarnir eru svo sérfróðir og aðskildir hver á sínu sviði að auðvelt hefur reynst að gjaldfella vísindalega þekkingu og samtalið virðist víðsfjarri. Deildu og drottnaðu.
„Við höfum mótað kerfi sektarinnar“
Barátta felur í sér aðskilnað. Kerfið sem við búum við hefur innbyggt í sig höfnun sjálfra okkar – aðskilnað við sjálf okkur. Við berjumst við sjálf okkur. Við höfum mótað kerfi sektarinnar; okkar innra ástand uppsafnaðra áfalla kynslóðanna sem við vörpum yfir á allt okkar ytra í meðvitundarleysi og ótta við að horfast í augu við sjálf okkur og kerfin sem við höfum smíðað.
Stjórnvöld og Alþingi er ekkert annað en vörpun á okkar eigin innra sálarástandi. Eins konar teikning af gildum okkar og lærðum viðmiðum kynslóðanna. Sameiginleg orka okkar er það sem myndgerist á Alþingi. Af myndbirtingunni að dæma lítur út fyrir að við séum enn í torfkofunum þar sem vistarbandið ræður ríkjum. Ef ég líki núverandi lögum og kerfi við heimili þá eru veikir og gamlir á heimilinu sveltir og lítilsvirtir, heilbrigðum er haldið vinnandi öllum stundum, húsmóðirin stendur á öndinni að sannfæra sjálfa sig og aðra um að þetta sé viðeigandi, svo að yfirvald heimilisins geti tekið þátt í sífellt fjárfrekara fjárhættuspili.
Fjárhættuspilið alþjóðlega: alþjóðlegt fjármálakerfi, birtir okkur firringuna og skortinn sem hún framkallar afar vel. Í fjármálakerfinu birtist sami grunnskortur og þekkist meðal fíkla af öllum gerðum. Samfélagskerfi fjármálavæðingarinnar krefjast sífelldrar arðsemi - það er aldrei nóg komið. Arðsemiskröfur fjármálakerfisins fara langt fram úr náttúrulegum vexti og því er ekki að undra að birtingarmyndin sé átakanleg. Til þess að framleiða vöxtinn er stöðugt gengið á náttúru og mannauð. Þó að mörgum auðsöfnunareinstaklingum dreymi kannski um gullsæti við borð Salman Al Saud konungs og einræðisherra í valdatafli alræðisins, þá ætti flestum að vera ljóst að allar auðlindir veraldarinnar munu aldrei sleppa til á hlaupahjóli skortshugans sem hefur firrt sjálfan sig veru sinni og náttúru.
Getum við viðurkennt vanmátt okkar gagnvart því samfélagskerfi hagvaxtar sem við höfum smíðað sem styður ekki við sjálf okkur? Vilja ráðherrar sýna fordæmi og segja sig frá störfum í auðmýkt? Fólk sem er sérhæft (svo kynslóðum skiptir) í að viðhalda ósjálfbæru kerfi í æðstu valdastöðum tel ég ekki hafa né þekkja þau verkfæri sem þarf til þess að hreyfa skipið út úr þessum eilífðarslipp stöðnunarinnar.
Í krafti þeirrar hunsunar sem Alþingi hefur sýnt lýðræðinu í vegferð stjórnarskrárinnar nýju, tel ég að ráðherrum sé ekki stætt á að telja sig hæfa til þess að takast á við þá stöðu sem nú er uppi. Kerfi sem hunsar lýðræðislega niðurstöðu fólksins í landinu getur varla talist kerfi fyrir fólk. Að hafna nýrri stjórnarskrá er að hafna samfélagssáttmála þjóðarinnar. Að hafna nýrri stjórnarskrá er að gera þjóðina sér undirgefna eins og týrannar og valdaræningjar gera þegar þeir beygja fólkið undir sig. Það kallast kúgun. Slíkt kerfi getur ekki verið undirstaðan sem við viljum byggja á.
Strúktúr kapítalsins er barátta við náttúrulögmálin. Við þau verður ekki barist. Þau eru lögmál. Og kjarni þess lögmáls er hreyfing. Á þessum grunni er ekki byggjandi. Það þarf ekki sérfræðiálit til að sjá það.
Við erum í andnauð. Andnauð í lungunum. Andnauð í lofstlaginu. Andnauð í umhverfinu. Andnauð í sjóðstreymi hins kapítalíska kerfis. Orkuflæðið er, bókstaflega og svo ekki verður um villst, staðnað. Sem í hinu smáa svo í hinu stóra. Sem hið innra svo hið ytra.
Andnauð gefur vísbendingu um andlegt verkefni. Verkefni af tagi hins ótakmarkaða, ómælda og ómælanlega.
Um eylandið ríkir engin óvissa. Við búum hér afar fámenn í gríðarlega auðugu landi og ólíkt forfeðrum og formæðrum erum við þurr í fæturna og okkur er hlýtt. Við erum lánsöm. Þetta er tími vakningar. Það er orkusóun að berjast við þessar aðstæður. Ekkert sem einhvers er virði er á huldu og næg verkefnin sem hefjast má handa nú þegar við að smíða. Öll þau verkefni og hugmyndir sem pössuðu ekki inní hið deyðandi hagavaxtarmódel kapítalsins eru tilbúin til framkvæmda.
Í litlu þorpi í auðugu landi má nú framkvæma af ásetningi. Fyrir mér er það ljóst að núverandi leið stjórnvalda er ekki annað en lenging á takmarkaðri hengingarólinni sem birtist okkur skýrt í Hruninu og aldrei var tekist á við. Má ímynda sér Ísland sem rannsóknarstofu um mennsku? Þar sem grunnstoðir samfélagsins sem afhjúpast skýrt þessa dagana; mennskar stoðir umönnunar-, næringar- og nándarstarfa eru hafðar í heiðri og veikum og gömlum er sýnd virðing, hlýja og kærleikur? Það má afnema skortshyggjuna nú þegar og tryggja öllum grunnframfærslu strax. Samfélag er aldrei sterkara en veikasti hlekkur þess.
Ónæmiskerfi þjóðarinnar, heilbrigðiskerfi, menntakerfi, velferðarkerfi og hagkerfið allt yrði sterkt og næringarríkt ef hlúð væri að grunnþörfum hvers einstaklings í samfélaginu og í samræmi við það smíðað sjálfbært samfélagskerfi mennskunnar með grundvöll í náttúrulögmálum og gnægð.
Við höfum þekkingu á náttúrulegum ferlum og getum smíðað samfélagskerfin okkar í samræmi og samhljómi við þau. Við þekkjum mynstur þeirra og hreyfingu nægilega til að vita að allt er orka; andstæð öfl sem mætast og skapa hið þriðja; eitthvað áður óþekkt – ómælið sjálft í eilífri hreyfingu. Mannkyn með sínum takmörkunum og stjórn hefur breytt þessu ferli í keppni og sigurvegara. Og þar með stöðnun. Margbreytileikinn hefur vikið fyrir einræktun. Náttúran býður okkur nú spegil. Hver er vírusinn?
Þó að þátttakendur í fjárhættuspilinu alþjóðlega séu óvissir um framboð og eftirspurn á næstu árum tel ég engan þurfa að örvænta; eftirspurn eftir mennsku er söm við sig og óhjákvæmileg. Við afhjúpun á hinu takmarkaða í okkur birtist hið ótakmarkaða.
Óvissa er náttúrulegt ástand mannsins sem nær ekki utanum náttúrulögmálin með huganum en hefur aðgang að þeim með allri veru sinni og skynjun. Við erum ekki einungis hugsandi verur og gerandi verur. Við erum fyrst og fremst verandi verur og skynjandi verur og með öll skynfærin í farteskinu finnum við vissuna í óvissunni hugans í hjartans auðmýkt.
Aðskilnaðurinn þarf ekki að leiða til áframhaldandi alræðissamfélags – „Ísland í uppfærslu 2.0“. Við höfum alltaf val. Samhyggðin hefur sjaldan verið áþreifanlegri.
Með því að breyta um sjónarhorn af mildi má ferðast úr skorti í gnægð. Í stað þess að gefa sig á vald takmarkaðs samfélagskerfis og gefa óttanum þrælsins alla athygli mætti virkja hina ómældu mannveru.
Í bili aðskilnaðar og nándar er sköpunarkrafturinn virkur.
Hvað býr í verunni ótakmarkaðri?
Athugasemdir