Mikill meirihluti íslendinga óttast að COVID-19 kórónaveirufaraldurinn muni hafa alvarleg áhrif á íslenska efnahag og þriðjungur þjóðarinnar hefur áhyggjur af því að verða fyrir alvarlegu fjárhagslegu tjóni af völum útbreiðslu veirunnar. Að sama skapi hafa Íslendingar minni áhyggjur af því að smitast af veirunni eða að verða fyrir heilsufarstjóni vegna hennar.
Þetta eru niðurstöður könnunnar MMR þar sem spurt var um áhyggjur fólks af áhrifum COVID-19 á efnahag annars vegar og heilsufar hins vegar. Af þeim sem svöruðu könnuninni kváðust 79 prósent hafa frekar eða mjög miklar áhyggjur af áhrifum faraldursins á íslenskan efnahag. Aðeins 6 prósent höfðu litlar eða engar áhyggjur. Þá kváðust 34 prósent aðspurðra hafa miklar áhyggjur af því að þeir yrðu fyrir alvarlegu fjárhagslegu tjóni af völdum faraldursins. 43 prósent höfðu litlar áhyggjur af því.
Færri hafa áhyggjur af því að smitast af veirunni sjálfir en 29 prósent sögðust hafa af því miklar áhyggjur. Á móti sögðust 35 prósent hafa litlar eða engar áhyggjur af smiti. 21 prósent svarenda sögðu að þeir hefðu miklar áhyggjur af því að verða fyrir alvarlegu heilsutjóni af völdum COVID-19 kórónaveirunnar.
Óverulegur munur reyndist á afstöðu fólks eftir kyni eða eftir búsetu í könnuninni. Svarendur í yngsta aldurshópnum reyndust hafa minni áhyggjur en aðrir af bæði því að smitast og af áhrifum veirunnar á íslenskan efnahag en aðeins 15 prósent þeirra höfðu áhyggjur af eigin heilsufari eða efnahag landsins. Elsti hópurinn hafði aftur á móti mestar áhyggjur af því að verða fyrir alvarlegu heilsufarslegu tjóni.
Greina mátti mun á afstöðu fólks eftir stjórnmálaskoðunum en stuðningsfólk Viðreisnar reyndist líklegast til að hafa miklar áhyggjur af áhrifum faraldursins á íslenskan efnahag, alls 78 prósent aðspurðra. Minnstar áhyggjur hafði stuðningsfólk Miðflokksins, 70 prósent, og Pírata, 63 prósent. Að sama skapi reyndist stuðningsfólk tveggja síðasttöldu flokkanna líklegast til að hafa áhyggjur af því að verða fyrir fjárhagslegu tjóni, 45 prósent í báðum tilvikum.
Stuðningsfólk Vinstri-grænna var líklegast til að hafa áhyggjur af því að smitast af veirunni en 37 prósent þeirra sögðust hafa slíkar áhyggjur. Stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins og Pírata höfðu af því minnstar áhyggjur, 22 prósent í tilviki Sjálfstæðisflokksins og 20 prósent stuðningsfólks Pírata.
Könnunin var unnin dagana 18. til 20. mars og var svarfjöldi 1.081 einstaklingar 18 ára og eldri úr hópi álitsgjafa MMR.
Athugasemdir