Það er tiltölulega stutt leið frá því að vera áhyggjulaus um framtíðina, í fallegum fötum á leið til útlanda í frí, að því að vera heima í óþvegnum jogging-galla með fullar geymslur af klósettpappír og dósamat og kvíða næstu dögum.
Við reynum að finna þessu ástandi stað í mannkynssögunni af því við erum ófær um að sjúkdómsgreina þennan nýja veruleika.
En við grípum í tómt.
Lífið er á örfáum dögum farið að snúast um beinar útsendingar þar sem fréttamenn og aðir þylja upp endalausar tölur um fjölda smitaðra og spítalapláss og innilokun og einangrun. Milli þess skemmta sagnfræðingar okkur með sögum af svarta dauða, stóru bólu og spænsku veikinni.
Þessi veira ræðst samt ekki að þeim ungu og hraustu. Hún ræðst að þeim gömlu og veiku, hún ræðst að siðmenningu okkar. Hvað viljum við ganga langt til að vernda og hlúa að þeim sem eru hættir að snúa hjólum atvinnulífsins? Hvenær þurfum við að fórna mennskunni og fara að henda fólki fyrir borð? Hvað þykir okkur í raun og veru vænt um afa og ömmu?
„Ef þessi veira væri hryðjuverk, væri hún fullkomið hryðjuverk“
Ef þessi veira væri hryðjuverk, væri hún fullkomið hryðjuverk. Hún hefur magnað upp þjóðerniskennd, rekið fleyg milli þjóða sem kippa nú ferðafrelsi fólks og jafnvel lýðræðinu úr sambandi, hver á fætur annarri. Þegar óttinn grípur um sig er stutt í gerræðið. En þótt slíkar aðgerðir kunni að þykja réttmætar í því andrúmslofti sem nú ríkir skapa þær fordæmi sem er hættulegt fyrir framtíðina eins og við viljum sjá hana. Þegar stjórnmálamenn hafa komist upp með að taka lýðræðið úr sambandi einu sinni er einfaldara að gera það aftur og af minna tilefni.
Fyrir nokkrum vikum síðan vorum við áhyggjulaus og kærulaus, núna getum við kallað yfir okkur hatur og reiði samborgaranna ef okkur verður á að hósta í námunda við ókunnuga. Einn smitaður getur hrundið af stað keðjuverkun sem endar með hættulegum sjúkdómi, jafnvel dauða. Stundum verða áföll til þess að við drögum upp undir okkur hnén og viljum helst liggja í fósturstelllingu og bíða þau af okkur. Stundum reynum við að ná sambandi við aðra og þurfum athygli og hluttekningu.
Við erum öll jafn óafvitandi um hvað raunverulega tekur við. Hvað munu margir veikjast alvarlega? Hvað munu margir deyja? Hvað verður kreppan löng og djúp og hvenær sjáum við til lands? Allt eru hreinar og klárar getgátur. Í einhverja mánuði verða hótelin nánast tóm, flugvellir eyðilegir, ferskur fiskur á eftir að hlaðast upp á Íslandi því hann er óseljanlegur í útlöndum þar sem fólk hamstraði dósamat og mat með geymsluþol og atvinnuleysisskrá á eftir að lengjast og lengjast. Afleiðingarnar eru óskrifað blað í mannkynssögunni.
Fyrirsögnin á Smartlandi Moggans er ekki lengur – Steldu stílnum frá Daða og Gagnamagninu, sem var að fara að vinna Eurovision fyrir hálfum mánuði. Nú er búið að blása Eurovision af og við eigum að stela stílnum frá Ölmu Möller landlækni. Ef lyktin af rakspíra kærastans var traustvekjandi er það sprittið sem hefur tekið við. Varaliturinn frá Dior er úti, gríma úr gasbindi er málið.
Allar línur á heilsugæsluna glóa, ef ekki frá veiku fólki eða fólki í raunverulegri hættu, þá frá kvíðasjúklingum sem eru helteknir af ótta. Við verðum að passa að fólkið sem við erum að verja deyi ekki úr einangrun eða hræðslu í þessum björgunarleiðangri. En hættan er raunveruleg þar sem stórir póstar í velferðarþjónustunni hafa verið teknir úr sambandi.
Það er óviðkunnanlegt að heyra ábyrgðarlausa stjórnmálamenn líkja þessu hvað eftir annað við stríðsástand. Í Bandaríkjunum hefur byssusala rokið upp hjá almenningi. Þetta er ekki stríð, við erum að fást við sjúkdóm.
Öll viðbrögð við farsóttinni og allar ráðleggingar landlæknis hér heima hafa miðast við að við tökum ábyrgð hvert á öðru. Að við sýnum tillitssemi. Það eru góð ráð og hafa reynst vel fram að þessu. Þau eiga líka við um stjórnmálamennina okkar sem ætla að setja 100 milljarða í að bjarga okkur frá yfirvofandi kreppu. Þeir eiga ekki að nota þessa farsótt til að taka ákvarðanir fyrir luktum dyrum.
Kæru stjórnvöld. Stelið stílnum frá Ölmu landlækni.
Röng ákvörðun getur hrundið af stað keðjuverkun atvinnuleysis, gjaldþrota og vantrausts. Miklu skiptir að þessir fjármunir skili sér til einstaklinga og heimila en ekki bara til fjárfesta og stórfyrirtækja. Best er ef fulltrúar allra flokka á Alþingi hafa eitthvað að segja um málið en ekki að þinginu sé nánast kippt úr sambandi og ákvarðanir séu kynntar einhliða af ríkisstjórninni.
Sjúkdómurinn og afleiðingar hans kalla á meiri samstöðu hjá almenningi. Það ætti að skila sér inn í stjórnmálin líka. Það er flott að stjórnmálamenn vilji bjarga okkur frá yfirvofandi kreppu. En við viljum fá að tjá okkur um hvernig það verður gert. Þetta eru okkar peningar.
Kallið á samráð frá almenningi, verkalýðshreyfingunni og velferðarþjónustunni.
Stelið stílnum frá Ölmu landlækni.
Gerum þetta saman.
Athugasemdir